Saga - 2022, Side 73
Sigfússon sagt svipað en út frá hugmyndum um stéttabaráttu.77 Það
hlýtur að teljast ótrúlegt að Arnór hafi talið sig hafa rétt til afskipta
á þessari forsendu. Vegna prestaskorts taldi Guðmundur nauðsyn-
legt að hefja skólastarf, að sögn Guðmundarsögu C. Þar kemur og
fram að auðugir menn greiddu fyrir nám sona sinna en Guðmundur
bauð fátækum styrki til náms og það jók kostnað.78 Sé þetta rétt
væri þarna líklega komin forsenda til afskipta þar sem Guðmundur
hefur tekið upp nýjan kostnaðarlið, sjálfsagt án samráðs við Arnór
og án samþykkis héraðsmanna. Undir venjulegum kringumstæðum
hefði sennilega talist eðlilegt að örva fátæka efnispilta til náms með
styrkjum, ekki síst í prestaskorti, en kannski ekki í svo spenntu
ástandi þegar deilt var um kirkjuvaldsstefnu og stjórn fjármála.
Skólapiltar og meistari fluttust að Völlum í Svarfaðardal og þar fór
kennsla fram um veturinn. Hér varð að treysta á staðinn á Völlum
frekar en biskupsstólinn sjálfan og sýnir það hversu óeðlileg staðan
var.
Kannski voru afskipti Arnórs af fjármálum vegna skólahalds for-
svaranleg, í augum leikmannaforingja, samanber að Þorlákur hafði
samráð við höfðingja um að láta fé renna til fátækra frænda sinna.
Brottrekstur meistara og skólasveina og hótun um húsbrennu skýr -
ist þá með spenntu ástandi. En bágt er að sjá að framkoma Arnórs
við biskup hafi verið forsvaranleg, bæði harkaleg handtaka og
varsla í myrkvastofu. Arnór flutti síðan Guðmund suður að Hvítá í
Borgarfirði 1219, til hafskipahafnar þar, og ætlaði að hafa hann utan
með sér, að sögn Sturlu Þórðarsonar. Meðferð Guð mundar var svo
harkaleg að undrun vekur; Guðmundur var fluttur á börum sem
hestar báru en börurnar brotnuðu og hestarnir drógu biskup um
grjót og móa svo að honum lá við beinbroti, segir Sturla.79 Eyjólfur
Kársson og menn með honum frelsuðu Guðmund hins vegar úr
höndum Arnórs.
guðmundur góði, vondur biskup? 71
77 Jón Jóhannesson, Íslendinga saga I, 245‒246; Magnús Stefánsson, Kirkjuvald eflist,
131; B[jörn][ Sigfússon], „Hefn þú nú, drottinn! Sjö alda dánarminning. 1237 ‒
16. marz ‒ 1937,“ Nýtt land 2, nr. 3 (1937): 56‒61, sjá 61.
78 Byskupa sögur III (1953), 328; Stefán Karlsson, „Guðmundar sögur biskups,“
164.
79 Um samúð Sturlu með Guðmundi og skrif hans um biskup sjá t.d. Anton
Zimmerling, „Bishop Guðmundr in Sturla Þórðarson´s Íslendinga Saga. The
cult of saints or the cult of personalities?,“ Scandinavia and Christian Europe in
the Middle Ages, útg. Rudolf Simek og Judith Meurer, The 12th International
Saga Conference (Bonn: Hausdruck der Universität Bonn, 2003), 557‒567.