Saga - 2022, Qupperneq 78
er að sjá að eftirmenn Guðmundar hafi þurft að glíma við önnur
eins afskipti leikmanna af fjármálum stólsins.98
Almenn andúð á biskupi meðal klerka?
Höfðingjar fyrir norðan virðast hafa verið nokkuð samtaka í
andstöðu við Guðmund. En hvað um klerka? Jón Jóhannesson segir
að kristni hafi verið stjórnlaus nyrðra og prestar ekki fylgt fyrirmæl-
um biskups. Sturla Þórðarson segir eftirfarandi um stöðuna um
1210, þegar biskup var fjarri: „Prestar fara sínu fram um þjónustu-
gerð sína, hvað sem biskup sagði, og höfðu helst ráð um sinn vanda
við Gunnlaug munk, er mestur klerkur og góðviljamaður þótti vera
þar í sveitum“.99 Vandinn var hvernig fram ætti að koma við bann-
setta menn og hvort sinna ætti tíðagerð og messum í kirkjum vegna
þrýstings frá höfðingjum. Þetta er oft skilið svo að Gunnlaugur
munkur á Þingeyrum (d. 1219) hafi gerst andstæðingur Guðmundar
og hans mála.100 Það er þó varla svo einfalt.
Átök bræðranna Kolbeins og Arnórs Tumasona og Guðmundar
munu hafa haft mikil áhrif á fólk, ekki síst í Skagafirði, og mótað
sögur. Í Kristnisögu og einkum Þorvaldsþætti kemur fram gagnrýni
á Tumasyni og stuðningsmenn þeirra fyrir framkomu við Guð -
mund, séu eftirfarandi frásagnir í sögunni og þættinum rétt túlkað -
ar.101 Bræðurnir voru sagðir komnir af Arngeiri, bróður Þorvarðs
kristna Spak-Böðvarssonar, en hann var sagður hafa reist kirkju í
Ási, nærri mynni Hjaltadals. Var haft fyrir satt á þrettándu öld að
kirkjan þar hefði verið reist 984 og stæði enn með ummerkjum um
1240. Arngeir var sagður andvígur kirkjuhúsi bróður síns í Ási og
helgi þorláksson76
98 Arftaki Guðmundar í biskupsembætti hét Bótólfur og er bent á að Ásbirn -
ingar muni hafa stjórnað fjármálum stólsins í tíð hans, sbr. Sverrir Jakobsson,
„Saints and politicians,“ 205‒206. Ekki mun það þó svo, því Kolbeinn kalda-
ljós af ætt Ásbirninga var „fyrir ráðum á Hólum“ í apríl 1246, sbr. Sturlunga
saga II (1946), 82‒83. Það mun hafa verið vegna utanfarar Bótólfs 1243.
Bótólfur mun ekki hafa komið aftur til Íslands og féll frá 1246 samkvæmt
annálum. Kolbeinn var því aðeins staðgengill.
99 Jón Jóhannesson, Íslendinga saga I, 244; Sturlunga saga I (1946), 255.
100 Magnús Stefánsson telur að Gunnlaugur hafi verið í forystu fyrir prestum
sem risið hafi upp gegn Guðmundi, Kirkjuvald eflist, 125, 130.
101 Biskupa sögur I, útg. Sigurgeir Steingrímsson, Ólafur Halldórsson og Peter
Foote, Íslenzk fornrit XV,2 (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2003), 11,
74‒78.