Saga - 2022, Page 84
Saga LX:2 (2022), bls. 82–115.
hanna guðlaug guðmundsdóttir
Um menningargengi, kynjaða
orðræðu og sanna íslenska myndlist
(1916–1930)
Þrátt fyrir að kosningaréttur og kjörgengi væru mikilvægir áfangar í
réttindabaráttu kvenna árið 1915, þýddi það ekki sjálfkrafa að þær
hlytu það sem kalla mætti menningargengi sem sjálfsögð borgaraleg rétt-
indi. Í þessari grein verður hugtakið kynnt og með því að beita femín-
ískri aðferðafræði til að greina kynjaða orðræðu um myndlist færð rök
fyrir kynbundinni mismunun á menningargengi. Á því tímabili sem hér
um ræðir, frá 1916 til 1930, stigu fram fyrstu þrjár íslensku myndlistar-
konurnar sem höfðu útskrifast frá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn
og unnu alla ævi að eigin listsköpun: þær Kristín Jónsdóttir, Júlí ana
Sveins dóttir og Nína Sæmundsson. Áhersla er lögð á viðtökusögu á
verkum myndlistarkvenna í samanburði við verk starfsbræðra þeirra,
sem segja má að hefjist á þessu tímabili, og þá ólíku (og jafnvel and -
stæðu) mynd sem dregin var upp af þeim til ársins 1930, sem vísar til
viss hápunkts í orðræðu um hið kvenlæga og karllæga í íslenskri
mynd list.
Inngangur
Þau tíðindi bárust til Íslands 19. júní 1915 að íslenskar konur, 40 ára
og eldri, hefðu fengið kosningarétt og væru samkvæmt stjórnarskrá
nú fullgildir borgarar.1 Þrátt fyrir að kosningaréttur og kjörgengi
væru mikilvægur áfangi í réttindabaráttu kvenna þýddi það ekki
sjálfkrafa að þær hlytu það sem kalla mætti menningargengi sem
sjálfsögð borgaraleg réttindi. Færð verða rök fyrir því í þessari grein
1 „Stjórnarskráin samþykt. Konur viðurkendar löglegir borgarar þjóðfélagsins“,
Kvennablaðið, 16. júlí 1915, 41–48. Konur kusu í fyrsta skipti í alþingiskosning-
unum 1916, en fengu síðan fullan kosningarétt 1920. Sjá nánar: Erla Hulda
Halldórsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir,
„1916. Hún fór að kjósa“, Konur sem kjósa. Aldarsaga (Reykjavík: Sögufélag, 2020),
35–89.
Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, hannagud@hi.is