Saga - 2022, Side 85
og femínískri aðferðafræði beitt til að greina kynjaða orðræðu um
myndlist á tímabilinu 1916 til 1930.2
Með menningargengi er átt við stöðu einstaklinga á vettvangi
menningarinnar, en á ensku er fjallað um cultural citizenship eða
menningarleg borgararéttindi.3 Með orðanotkuninni menningar-
gengi er vísað í hugtök eins og kjörgengi (í stað þegnréttar), sem hef-
ur verið öllu fyrirferðarmeira í sögu kvenréttindabaráttunnar. Menn -
ingargengi einstaklings er þá mælikvarði á að hvaða marki einstak-
lingurinn er tekinn gildur, er viðurkenndur og hefur færi á að hafa
áhrif á vettvangi menningarinnar.4 Í tilfelli myndlistarkvenna má
þannig nota hugtakið til að kanna hvort framlag þeirra til menn -
ingar og lista sé metið til jafns við framlag myndlistarkarla eða
hvort framlag kvenna sé skilyrt af kyni og liggi því utan við þá skil-
greiningu í opinberri orðræðu á síðum dagblaða og tímarita á því
sem telst til menningarlegs, listræns gildis og hefur mótandi áhrif
á almenningsálit og menningarlega þjóðarvitund. Framlag kvenna
til myndlistar getur verið sýnilegt (svo sem með sýningarþátttöku
og um fjöllun um verk þeirra) og ýtt undir sannfæringu um fullgilt
menningargengi þeirra, en mismununin legið í orðræðu um hina
sönnu íslensku myndlist og listamenn og verið skilyrt af kyni. Af
þessu fæst séð að borgara- og lagaleg réttindi geta verið veitt en
um menningargengi 83
2 Greinin er hluti af rannsóknarverkefninu, „Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og
menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915–2015“.
Útgangspunkturinn er staða kvenna og saga eftir kosningaárið 1915, m.a. á sviði
menningar og lista. Að rannsókninni unnu ásamt greinarhöfundi, sagnfræðing-
arnir Erla Hulda Halldórsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Kristín Svava
Tómas dóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Verkefnið er styrkt af Rannís, verk-
efnisnúmer 174481–051. Rannsóknin hlaut einnig undirbúningsstyrk frá EDDU
öndvegissetri við Háskóla Íslands. Greinin er jafnframt byggð á doktorsrann-
sóknarverkefni greinarhöfundar í list- og sagnfræði, Paint like a man, woman!
Women, gender and discourse on art in Iceland from the late nineteenth century to 1960
(Málaðu eins og maður, kona! Myndlist, kyngervi og orðræða um myndlist frá
síðari hluta nítjándu aldar til 1960).
3 Hér má benda á margvíslegar, fjölfræðilegar nálganir í greinasöfnum um menn-
ingu og borgararéttindi í Cultures, Citizenship and Human Rights, ritstj. Rosemarie
Buikema, Antoine Buyse og Antonius C. G. M. Robben (London: Routledge,
2019) og Culture and Citizenship, ritstj. Nick Stevenson (London: SAGE, 2001).
4 Hugtakið menningargengi (sem myndi útleggjast á ensku sem Cultural eligibility)
er jafnframt hægt að styðjast við í aðkallandi rannsóknum um menningarlega
fjölbreytni, s.s. framlag hópa/einstaklinga til menningar þjóðar með tilliti til
kynhneigðar, þjóðernis, fötlunar, stéttar og stöðu.