Saga - 2022, Page 88
myndlistarkonur nutu ekki menningargengis til jafns við karlmenn.
Enn fremur verður þeirri spurningu varpað fram hvort þær hafi
verið fullgildari og viðurkenndari sem myndlistarkonur á erlendum
vettvangi en í heimalandinu. Þá verður einnig gerð stuttlega grein
fyrir því hvernig konur brugðust við og sköpuðu rými til að sýna
myndlist og fjalla um framlag myndlistarkvenna og um leið að berj-
ast fyrir bættri stöðu og menningargengi.
Femínísk aðferðafræði, kanónan í myndlist
og kynjuð orðræða
Á áttunda áratug tuttugustu aldar voru femínískar kenningar og
aðferðafræði innleiddar í listfræðina í háskólasamfélaginu, fyrst og
fremst í Bandaríkjunum og Bretlandi, og eiga sér því hálfrar aldar
sögu. Sú nálgun fól einkum í sér að greina kynbundna mismunun
og ástæður hennar með róttækri endurskoðun á listasögunni og þar
með fræðigreininni sjálfri, jafna hlut kvenna og beina athyglinni að
framlagi þeirra í gegnum listasöguna. Það er þó misjafnt eftir lönd-
um hvenær (og hvort) sú femíníska innleiðing hafi átt sér stað og
útskýrir af hverju sömu rannsóknarspurningar og heimildir hafa
reglulega skotið upp kollinum síðustu áratugi í ólíkum heimshorn-
um. Rannsóknarefnin eru enn ærin og femínísk kenningasmíði því
í sífelldri endurnýjun.11
Í íslenskri listasögu hefur áherslan einkum verið fólgin í því að
varpa ljósi á framlag íslenskra myndlistarkvenna, þekktari og óþekkt -
ari, og leiðrétta kynjaslagsíðu á ýmsum sviðum myndlistar.12 Hins
vegar hefur femínískri aðferðafræði og kyngervishugtakinu ekki
verið beitt markvisst í orðræðugreiningu í anda þeirrar gagn rýni á
stórsögulega sagnaritun sem hefur verið áberandi í íslenskri kvenna-
og kynjasögu á síðari árum.13 Þrátt fyrir að mikilvæg skref hafi verið
hanna guðlaug guðmundsdóttir86
11 Malin Hedlin Hayden og Jessica Sjöholm Skrubbe, „Preface“, í Feminisms is Still
our Name: Seven Essays on Historiography and Curatorial Practices, ritstj. Malin
Hedlin Hayden og Jessica Sjöholm Skrubbe (Newcastle upon Tyne: Cambridge
Scholars Publishing, 2010), xiii–xv; Victoria Horne og Lara Perry, „Introduction.
Feminism and Art History Now“, í Feminism and Art History Now. Radical
Critiques of Theory and Practice (London: I.B. Tauris, 2017), 3–5.
12 Sjá t.d. Hrafnhildur Schram, Huldukonur í íslenskri myndlist og Dagný Heiðdal,
Aldamótakonur og íslensk listvakning.
13 Erla Hulda Halldórsdóttir, „Sögulegir gerendur og aukapersónur: Kyngervi og