Saga - 2022, Page 110
vænlega höfuðból sem Júlíana hefur sjálf upp ræktað og situr með
prýði“. Þá sagði Ríkarður að Júlíana Sveinsdóttir væri „framúrskar-
andi vefnaðarkona“ og að með kennslu í vefnaði breiddi hún út
„góðan smekk“, þó að hann vildi gjarnan sjá meira þar af „há–íslensk -
um fyrirmyndum“.88
Hér er vert að benda á að Ríkarður var hvort í senn lærður
mynd höggvari og tréskurðarmeistari og viðhafði því ekki þrönga
skilgreiningu á fögrum listum og handverki. Þvert á móti vildi hann
endurskapa íslenska tréskurðarhefð og var því mun jákvæðari og
opnari en almennt þekktist gagnvart vefnaði og fjöllistahæfileikum
fólks á borð við Júlíönu.89 Hins vegar vann Júlíana iðulega með
óhlutbundin form í listvefnaði og það hugnaðist Ríkarði ekki, en
hann vildi þjóðlegri, íslenskar áherslur og fyrirmyndir.
Júlíana hélt síðan árið 1927 einkasýningu í sýningarsal Den Frie
í Kaupmannahöfn og var vísað í marga lofsamlega dóma í dönskum
blöðum í kvennablaðinu 19. júní. Haft var eftir blaðinu København að
Júlíana hefði „ríka listgáfu“, Ekstrabladet fjallaði einnig um listgáfu
hennar og myndir af náttúru Íslands sem væru „sannleikanum sam-
kvæmar“, og í Dagens Nyheder var sagt að Júlíana „hafi tilkomu -
mikla listgáfu, sem lýsi sér best í íslensku myndunum“. Í niðurlagi
greinarinnar í 19. júní var því lýst hvað það væri „ánægjulegt þegar
íslenskir listamenn geta sér gott orð fyrir starf sitt erlendis eins og
Júlíana Sveinsdóttir hefir gert“.90
Júlíana var ein þeirra kvenna sem fetaði óhefðbundnar slóðir í
listinni og lífinu, en hún var ógift, barnlaus kona búsett í Kaup -
manna höfn og taldi sig betur setta fjarri heimalandi sínu. Fyrir
íslenskar konur var sú virðing sem Júlíana ávann sér þar sem mynd-
listarkona ákaflega mikilvæg, bæði sem listmálari og sem „vefarinn
mikli frá Íslandi“.
(Mis)sýningar á íslenskri myndlist (1927–1928)
Fyrstu umfangsmiklu kynningunni á íslenskri myndlist á erlendum
vettvangi var fylgt úr hlaði með stórri sýningu í Charlottenborg 10.
desember 1927, sama ár og Júlíana Sveinsdóttir hélt einkasýningu
sína í Den Frie. Sýningin, sem jafnan er vísað til sem eins hinna
hanna guðlaug guðmundsdóttir108
88 Ríkarður Jónsson, „Júlíana Sveinsdóttir listmálari“, Vísir, 2. desember 1926, 4.
89 Æsa Sigurjónsdóttir, „Nýr sjónarheimur”, 19–23.
90 „Júlíana Sveinsdóttir listmálari“, 19. júní, september 1927, 108–109.