Saga - 2022, Síða 114
hæfileika sinna.“ Hér má því sjá að kvennablöð eins og Brautin urðu
vettvangur aðhalds og mótvægis við kynjaða orðræðu um menning-
arleg viðmið og lögðu sitt á vogarskálarnar til að berjast fyrir menn-
ingargengi kvenna.
Í grein Þorkels Jóhannessonar árið 1929 um stöðu íslenskrar lista-
sögu, þörfina á nýju listasafni og nýja strauma og stefnur í mynd-
listinni endurspegluðust hin tvískiptu viðhorf og kynjaða orðræða.
Hvergi var þar minnst á myndlistarkonur en hins vegar vísað til
íslenskra kvenna almennt og hinnar nýju hártísku, drengjakollsins,
sem tákns fyrir kvenfrelsi nútímakonunnar.97 Þannig var í grein sem
fjallaði einkum um íslenska listasögu og nýja strauma í nútíma-
myndlist annars vegar lögð áhersla á hegðun og ásýnd kvenna en
hins vegar framúrstefnu og framlag myndlistarmanna í listum og
menningu.98 Og þó að margur „nútímamaðurinn“ hafi tekið undir
og verið velviljaður útlitsbreytingum hjá íslenskum konum voru
skoðanir á þeim sem gerendum á sviði lista og menningar öllu fyrir -
ferðarminni. Hér ber að nefna að til Listasafns Íslands voru árið 1930
keypt 53 verk, öll eftir karlmenn.99
Á sama tíma voru íslenskar myndlistarkonur að skapa sér nafn
á erlendum vettvangi fjarri þessari kynjuðu og þjóðernislegu orð -
ræðu um íslenska myndlist. Auk Júlíönu Sveinsdóttur hafði Nína
Sæmundsson sýnt í Kaupmannahöfn á þriðja áratug tuttugustu
aldar, en einnig í París og New york við góðan orðstír og hlotið
verðlaun fyrir. Enn önnur íslensk myndlistarkona hafði gert garðinn
frægan í París, Ingibjörg Stein H. Bjarnason, en hún hélt einkasýn -
ingu í Galerie Povolotzky árið 1929 og tók einnig tvisvar þátt í hinni
virtu sýningaröð Salon des independants (1929 og 1930). Jafnframt tók
hún þátt í fundum að stofnun alþjóðlega abstraktmyndlistarhópsins
Cercle et Carré árið 1929 og sýndi á einu sýningu hans í París 1930.
Það má því vissulega segja að Ingibjörg hafi verið ein þeirra fyrstu
hanna guðlaug guðmundsdóttir112
97 Þorkell Jóhannesson, „Íslenzk list“, Samvinnan 23, nr. 3–4 (1929): 297–319.
98 Guðmundur Finnbogason skrifaði einnig grein gegn andlitsförðun íslenskra
kvenna í „Um andlitsfarða“, Iðunn. nýr flokkur 8, nr. 1–2 (1923): 104–112. Sjá um
hina svokölluðu „Reykjavíkurstúlku“ og drengjakollinn: Bára Baldursdóttir og
Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi, Safn
til Iðnsögu Íslendinga XVII (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2018),
342–354.
99 „Innkaup til Listasafns Íslands“, í Í deiglunni 1930–1944. Frá Alþingishátíð til
lýðveldisstofnunar, ritstj. Bera Nordal (Reykjavík: Listasafn Íslands og Mál og
menning, 1994), 200–201.