Saga - 2022, Blaðsíða 125
Mannaforráð er hér notað frekar en goðorð vegna þess að í sumum
tilfellum réðu menn fleiri en einu goðorði og í að minnsta kosti einu
þekktu tilfelli var goðorði skipt í tvö mannaforráð. Hér er manna-
forráð notað um raunverulega pólitíska einingu á meðan goðorð
merkir frekar formlega stjórnskipulega einingu. Oft er þetta það
sama en ekki alltaf. Vísbendingar eru um fleiri mannaforráð en þessi
29 en engin vissa, þótt sjálfsagt megi reikna með að eitthvað fleiri
goðorð en birtast í heimildum hafi verið virk á þessum tíma. Um sex
af þessum 29 mannaforráðum höfum við svo litlar upplýsingar að
við getum lítið sagt um arfgengi frá fyrri tíð.21
Af þeim 23 mannaforráðum sem þá eru eftir eru það í mesta lagi
tíu sem við höfum einhverjar heimildir um sem gætu þótt benda til
að þau hafi gengið í arf frá miðri elleftu öld eða fyrr og fram á miðja
tólftu öld eða síðar.22 Mikil óvissa ríkir þó um mörg þeirra og fæst
þessi niðurstaða aðeins ef við veljum að treysta ritheimildum betur
en við ættum að gera. Hugmyndir fræðimanna um ættgengi margra
þessara goðorða byggja ekki á öðru en ættartölum sem oft virka
heldur vafasamar. Þannig er goðorð Reykhyltinga í þessum hópi
aðeins vegna þess að ætt þeirra var rakin til bróður Illuga rauða sem
hugsanlega hefur farið með goðorð seint á tíundu öld ef sögum er
trúað.23 Goðorð Mýramanna hefur verið í höndum Halldórs Egils -
sonar sem talinn var meðal höfðingja 1118. Það er hér með vegna
þess að ætt hans var rakin til Þorsteins Egilssonar á Borg og þeirra
feðga úr Egils sögu en ættartalan er hrein beinagrind, til í mismun-
andi gerðum og í sjálfu sér er ekkert sem segir að ættliðirnir þar á
milli hafi haft goðorð.24 Goðorð Svínfellinga eru einnig hér vegna
þess að ung ættartala í Sturlungu tengir þá við hina eldri Freys -
gyðlinga með tveim ættliðum sem eru nöfnin tóm og kannski til-
búningur frá þrettándu öld.25 Grundarmenn voru afkomendur Þor -
voru goðorð arfgeng fyrir 1100? 123
21 Það eru nr. 1, 2, 16, 20, 22 og 23.
22 Það eru nr. 3, 4, 7, 8, 9, 11, 17, 19, 25 og 29.
23 Lúðvík Ingvarsson, Goðorð og goðorðsmenn II, 378. Missagnir eru um framætt
þeirra í Landnámu: Íslendingabók, Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Útg. Jakob
Benediktsson (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1968), 77–78, 157. Ekki er
hægt að rekja ættina til göfugs landnámsmanns (sbr. um goðorð Vatnsfirðinga
hér síðar). Raunar er mjög tvísýnt hvort Reykhyltingagoðorð eigi heima í þess-
um hópi.
24 Sjá Lúðvík Ingvarsson, Goðorð og goðorðsmenn III, 59–61.
25 Sturlunga saga eða Íslendinga saga hin mikla I. Íslenzk fornrit XX. Útg. Guðrún
Ása Grímsdóttir (Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2021), 69. Tengingin er