Saga - 2022, Side 131
banna fólki að gefa of stóran hluta eigna sinna.45 Ættir stóðu mjög
vörð um tilkall til eigna og eiginlega er óhugsandi að goðarnir sjálfir
hefðu unað því að auðvelt væri að svipta þá og ætt þeirra svo mikil -
vægri eign. Er þá ef til vill hægt að túlka þessi ákvæði með öðrum
hætti? Er til dæmis hægt að gera ráð fyrir að goðinn hafi aðeins
misst goðorð tímabundið, eins og meðan á þingi stóð eða til næsta
þings?46 Það virðist þó ekki vera því í Grágás er einnig að finna
ákvæði um hvað skuli gera við goðorð þar sem goði er „úr goð -
orðinu“ sem er sama orðalag og oft er notað um viðurlög við brot -
um goða og skulu þá þingmenn ávallt eiga goðorðið. Sama á við
þegar goði verður sekur og á því ekki afturkvæmt í embætti.47 Ekki
finnast dæmi um að goði hafi vegna afglapa verið sviptur goðorði á
sögulegum tímum nema ef upptaka Snorrungagoðorðs á Þórsnes -
þingi 1227 er túlkuð þannig.48 En í tveim Íslendingasögum, Ljós -
vetninga sögu og Droplaugarsona sögu, er talað um að stefna goða
úr goðorði fyrir brot og virðast höfundar þessara sagna hafa túlkað
ákvæði Grágásar með sama hætti og hér er gert.49
Ómögulegt er að samræma þessi ákvæði Grágásar því sem við
vitum um völd goða og arfgengi goðorða á síðari hluta þjóðveldis-
aldar. Hér hlýtur eitthvað að vera málum blandið. Sennilega hefur
þetta verið dauður bókstafur að mestu eftir að kom fram á síðari
hluta tólftu aldar, en gæti verið leifar frá eldri tíma. Ef við reiknum
með að goðorð hafi almennt ekki gengið í arf fyrir 1118, heldur hafi
þingmenn valið sér goða með einhverjum hætti þá getur allt gengið
voru goðorð arfgeng fyrir 1100? 129
45 Grágás Ia, 247. Sjá einnig Axel Kristinsson, „Íslenskar ríkisættir á 12. og 13. öld:
Lóðréttar ættarhugmyndir héraðshöfðingja og staðarhaldara,“ í Íslenska sögu -
þingið 28.–31. maí 1997. Ráðstefnurit I, ritstj. Guðmundur J. Guðmundsson og
Eiríkur K. Björnsson (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands / Sagn -
fræð ingafélag Íslands, 1998), 70–82, hér 79–80.
46 Helgi Skúli Kjartansson, Fjöldi goðorða samkvæmt Grágás: Erindi flutt á málstefnu
Stofnunar Sigurðar Nordals 24.–26. júlí 1988 (Reykjavík: Félag áhugamanna um
réttarsögu, 1989), 8–10. Gunnar Karlsson fellst á það (Goðamenning, 191).
47 Grágás Ia, 142. „Þriðiungs menn eigo goð orð avallt þar er goði verðr utlagr oc
or goðorðino. þeir scolo luta með sér … Nu verþr goði secr. oc eigo þriþi ungs
menn þa goðorðit.“ Þriðjungsmenn er það orð sem jafnan er notað í Grágás
fyrir þingmenn og vísar til þess að þrír goðar áttu saman vorþing.
48 Helgi Skúli Kjartansson, Fjöldi goðorða samkvæmt Grágás, 20–22. Sú túlkun er þó
ekki ótvíræð og er að minnsta kosti ljóst að valdapólitík skiptir í því tilfelli
meira máli en lagaflækjur.
49 Lúðvík Ingvarsson, Goðorð og goðorðsmenn I, 98–99. Sjá einnig Helgi Skúli
Kjartansson, Fjöldi goðorða samkvæmt Grágás, 19–20.