Saga - 2022, Page 132
upp. Þá er ekki verið að svipta menn eign þótt þeim sé stefnt úr
goðorði heldur er einfaldlega verið að skipta út embættismanni sem
stóð sig ekki. Enginn erfðaréttur kemur lengur við sögu og ekki er
verið að ganga á eignarrétt neins.
En hvernig ætli goðar hafi verið valdir áður en staða þeirra varð
arfgeng? Um það er erfitt að segja og vel má vera að hvert goðorð hafi
haft sínar reglur og venjur. Í raun kom það öðrum ekki við.
Vísbendingar má þó finna í áðurnefndum ákvæðum Grágásar um
hvað átti að gera við goðorð sem goði hafði misst eða þar sem goða
vantaði af einhverjum sökum.50 Meginreglan virðist vera sú að þing-
menn eigi þá goðorðið eða ráði því. Þar er einnig talað um að þeir
„hluti með sér“, þ.e. varpi hlutkesti um hver fari með goð orð ið.51 Ekki
er gott að sjá hvernig það fór fram í raun.52 Okkur kann að finnast
einkennilegt að varpa hlutkesti um mikilvæg embætti og erum vanari
því að valið sé á milli fólks sem sækist eftir þeim. Hlutkesti hefur þó
ýmsa kosti, meðal annarra að með þeirri aðferð er ólíklegra að til for-
ystu veljist fólk sem er mjög metnaðargjarnt og þannig líklegra til að
misnota stöðu sína, enda hefur þessi aðferð oft verið notuð þar sem
áhersla var lögð á jöfnuð og að hindra sam þjöppun valds.53 Ákvæði
Grágásar virðast einkum eiga við þegar goða vantaði vegna óvæntra
atvika en ekki er víst að það sama hafi gilt þegar goði var valinn í
góðu tómi.
Erfðir goðorða á tólftu og þrettándu öld
Erfðareglur Grágásar kváðu á um að allir skilgetnir synir skyldu
skipta arfi jafnt sín á milli.54 Ekki er augljóst hvernig átti að beita
þessu á goðorð. Miðað við hvernig arfi var almennt skipt kom helst
axel kristinsson130
50 Grágás Ia, 142.
51 Sama rit, sama bls. Nefnt þrisvar. Fyrst þegar goði missir goðorð og síðar tvisvar
þegar þarf að velja mann til að fara með goðorð eftir að goði deyr.
52 Í Vatnsdæla sögu er frásögn af vali goða en hún er vísast ekki byggð á öðru en
ákvæðum Grágásar (og er heldur ekki mjög skýr). Þegar sagan var rituð hefur
þessi siður verið löngu aflagður. Vatnsdæla saga, 112.
53 Fredrik Engelstad, „The assignment of political office by lot,“ Social Science
Information 28, nr. 1 (1989): 23–50; Peter Stone, „Sortition, voting, and democra-
tic equality,“ Critical Review of International Social and Political Philosophy 19, nr.
3 (2016): 339–356.
54 Grágás Ia, 218–220. Sbr. Agnes S. Arnórsdóttir, Konur og vígamenn: Staða kynj -
anna á Íslandi á 12. og 13. öld. Sagnfræðirannsóknir — Studia Historica 12
(Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1995), 47.