Saga - 2022, Page 139
af hendi þegar hann varð biskup.81 Skýringin er líklega sú að þeir
bræður hafi formlega átt goðorðið en afhent Páli meðferð þess þegar
þeir sáu að þeim dugði ekki að keppa við frændur sína Oddaverja í
Rangárþingi. Þeir hafi svo tekið aftur við því tímabundið þegar Páll
varð biskup. Páll átti son sem hét Loftur, jafnan kallaður Loftur bisk-
upssonur, og hann virðist síðar taka við þessu goðorði en 1196 var
hann enn of ungur og því hafa Einar og Flosi haft meðferðina á
þingi það ár. Ef þetta er réttur skilningur þá hefur Loftur um síðir
erft meðferð föður síns á goðorðinu þótt Bjarnasynir hefðu formlegt
eignarhald þess.
Meðferð goðorða hafði því tilhneigingu til að verða arfgeng án
þess að nokkur lagalegur grundvöllur væri fyrir því og má segja að
það endurspegli það sem hafði áður gerst með eignarhald goðorða.
Það sýnir viðvarandi tilhneigingu til að gera völd arfgeng.
Hugsast getur að frá um 1200 hafi formlegt eignarhald goðorða
stundum hneigst til að erfast með lögformlegum hætti. Snorri beitti
slíkum erfðum til að komast að Reykholti í mótsögn við það sem þá
virtist ríkjandi hefð.82 En í aðalatriðum er sem erfðir mannaforráða
og héraðsvalda hafi fylgt sínum eigin lögmálum á tólftu og þrett-
ándu öld þar sem arfaþáttur Grágás var settur til hliðar. Þess í stað
var aukin áhersla á karllegg valdaættar og fólk hafði ekki miklar
áhyggjur af því hvort erfingi valda væri skilgetinn eður ei.83 Líklega
voru goðorð arfgeng fyrir 1100? 137
81 Þessi tilgáta kemur fyrst fram í útgáfu Sturlungu frá 1946 (Sturlunga saga I–II,
útg. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn (Reykjavík:
Sturlunguútgáfan, 1946), 6. ættskrá nm), sjálfsagt frá Jóni Jóhannessyni og síðar,
Jón Jóhannesson, Íslendinga saga I, 275–276. Sjá einnig Jón Viðar Sigurðsson, Frá
goðorðum til ríkja, 56–57 og Helgi Þorláksson, Gamlar götur og goðavald, 15–17.
Lúðvík Ingvarsson (Goðorð og goðorðsmenn II, 234–243) er með langsótta
skýringu á goðorði þeirra bræðra sem gerir ráð fyrir að annar þeirra hafi
fengið það með konu sinni þótt engar öruggar heimildir séu fyrir goðorði í
hennar ætt. Þar sem bræðurnir eru nefndir saman er langlíklegast að goð orðið
sé úr þeirra ætt.
82 Eins og fram hefur komið. Annað dæmi sem einnig hefur verið nefnt áður er
hugsanleg erfð Óskar Ásgrímsdóttur á goðorði sem Guðmundur dýri fór með.
Valdatilkall Þorgils skarða í Skagafirði byggðist að einhverju leyti á því sama
þótt þar væri um að ræða héraðsvöld fremur en goðorð. Tilkall Þorvarðs Þór -
ar inssonar til valda í Eyjafirði byggðist einnig á formlegum erfðum goð orða
en það heppnaðist raunar ekki (Sturlunga saga III, 200). Öll þessi dæmi eru um
kvenleggserfðir í samræmi við Grágás sem gengu þó alls ekki sjálfkrafa fyrir
sig.
83 Sjá einnig: Axel Kristinsson, „Íslenskar ríkisættir á 12. og 13. öld.“