Saga - 2022, Page 142
frekar sem formsatriði stjórnskipunar sem ekki þótti ástæða til að
fjölyrða um.93 Aftur á móti er vert að nefna ummæli Íslendinga -
bókar um Skafta Þóroddsson, lögsögumann 1004–1030:
Hann setti fimmtardómslög ok þat, at engi vegandi skyldi lýsa víg á
hendr öðrum manni en sér, en áðr váru hér slík lög of þat sem í
Norvegi. Á hans dögum urðu margir höfðingjar ok ríkismenn sekir
eða landflótta of víg eða barsmíðir af ríkis sökum hans ok landstjórn.94
Þarna er vissulega minnst á höfðingja en á þrettándu öld var það
orð jafnan notað um menn með mannaforráð og jafnvel aðeins hina
mikilvægustu. Orðið hefur þó alla tíð þróast og breyst í takt við
samfélagsbreytingar og því er alls ekki víst að þarna sé átt við
goðorðsmenn.95
Öllu athyglisverðara er hve valdamikill lögsögumaðurinn var
samkvæmt Ara. Talað er um að hann setji lög og það hlýtur að þýða,
hið minnsta, að hann hafi haft forystu um að lögrétta setti lög. Síðan
er honum lýst sem röggsömu yfirvaldi gegn voldugum yfirgangs-
mönnum.96 Á síðari tímum var embætti lögsögumanns mikil virð -
ingarstaða en hann var ekki sérlega valdamikill. Fráleitt er að ímynda
sér að lögsögumaður hefði getað hegðað sér eins og Skafti á síðari
hluta tólftu aldar eða á þrettándu öld. Samt getum við ekki afskrifað
frásögn Ara því ekki er liðin nema öld frá lögsögumannstíð Skafta
þegar Ari skrifar og hefur hann sjálfsagt haft einhverjar áreiðanlegar
spurnir af honum.
Sennilegast virðist að þarna birtist tilfærsla á völdum frá mið -
stjórn þjóðveldisins, lögsögumanni og lögréttu, til höfðingja í héruð -
um landsins sem á tólftu og einkum þrettándu öld ríktu oft sem full-
valda furstar á sínum valdsvæðum. Á fyrri hluta þjóðveldisaldar,
áður en höfðingjar fóru að draga valdið til sín, hefur Ísland hugsan-
lega verið heldur miðstýrðara en á síðari hlutanum. Framkvæmda -
axel kristinsson140
93 Raunar er einnig eftir þann tíma oft sagt furðulítið um goðorð. Þegar þau
fylgja staðarforráðum er því jafnvel sleppt að nefna þau því staðurinn virðist
mikilvægari (Hítardalur: Sturlunga saga I, 284; Reykholt: Sturlunga saga II, 48).
94 Íslendingabók, 19.
95 Í Íslendinga sögu segir að Þórður Sturluson hafi gerst höfðingi eftir að hann
tók mikið fé með síðari konu sinni, Sturlunga saga I, 232. Í Íslendingabók (bls. 12)
er aftur á móti talað um að Þórður gellir sé „höfðingi“ að sök á hendur brennu-
mönnum Þorkels Blund-Ketilssonar og virðist þar vera mjög almennt orð um
forystumann.
96 Sjá einnig Gunnar Karlsson, Goðamenning, 111–116.