Saga - 2022, Page 144
fyrirmyndir goðorða eru þó þekktar í öðrum löndum og er því eðli-
legast að líta á þau sem sjálfsprottin á Íslandi út frá aðstæðum sem
hér ríktu í kjölfar landnámsins.101 Grunnskipulag þeirra virðist ekki
benda til að þau hafi í upphafi verið verkfæri höfðingja, enda hefð -
um við þá frekar fengið valdsvæði með föstum landamærum alveg
frá upphafi. Líklegra virðist að þau hafi verið bandalög bænda sem
þurftu að tryggja öryggi sitt og sinna. Því hafi þau byggst á persónu-
legum tengslum, vináttu, venslum og ætt, en ekki verið landfræði -
lega afmörkuð. Ef þessi túlkun er rétt er eðlilegast að líta svo á að
efling goðavalds hafi gerst hægt og á löngum tíma og myndun
héraðsríkja hafi ekki verið sá vendipunktur sem margir fræðimenn
(einnig sá sem hér skrifar) hafa lengi hugsað sér. Á elleftu og tólftu
öld hafi goðorðsmenn smám saman byggt upp kjarnasvæði þar sem
þeir réðu mestu og þau hafi umbreyst í héraðsríki þegar þeim tókst
að þenja þau út og útiloka þingmenn annarra goða jafnvel þótt
jaðarsvæði hafi oft áfram verið til.102
Fyrst í stað hafa goðorðin þó virkað sem samfélög og samtök
bænda sem sköpuðu þeim menningarlegt og félagslegt umhverfi og
tryggðu um leið öryggi og hagsmuni, svipað og hreppar gerðu
þegar þeir komu til sögunnar.103 Trúarbrögð hafa jafnan gegnt lykil -
hlutverki í að skapa samstöðu og efla samfélagskennd og því kemur
alls ekki á óvart að goðorðin fengju trúarlegt innihald í upp hafi.104
Það kæmi meira á óvart hefðu þau ekki gert það. Goðorðin sam-
einuðust um alþingi og ein lög í landinu til að reyna að tryggja frið
axel kristinsson142
101 Helgi Skúli Kjartansson, Fjöldi goðorða samkvæmt Grágás, 13–16; Orri Vésteins -
son, „A divided society: Peasants and the aristocracy in medieval Iceland,“
Viking and Medieval Scandinavia 3 (2007): 117–139, hér 118–122; Orri Vésteins -
son, „Upphaf goðaveldis á Íslandi,“ 306–308; Gunnar Karlsson, Goðamenning,
374–379.
102 Sbr. Sverrir Jakobsson, „The territorialization of power in the Icelandic Com -
monwealth,“ í Statsutvikling i Skandinavia i middelalderen, ritstj. Sverre Bagge
(Oslo: Dreyers forlag, 2012), 101–118, hér 104–111.
103 Ekki er vitað hvenær hreppar urðu til en höfundur telur líklegt að það hafi
gerst á síðari hluta elleftu aldar þegar goðorðin voru farin að fjarlægjast upp-
runa sinn, hugsanlega í tengslum við tíundarlög en þar fengu þeir það hlut-
verk að innheimta og skipta tíundinni. Diplomatarium Islandicum — Íslenzkt
fornbréfa safn I, 78–79.
104 David Sloan Wilson, Darwin’s Cathedral: Evolution, Religion, and the Nature of
Society (Chicago: The University of Chicago Press, 2002). Sjá einnig Gunnar
Karls son, Goðamenning, 369–373, 383–390.