Saga - 2022, Page 154
við sjáum það beint er aftur ýjað að dauðanum á táknrænan hátt.
Lampi er sleginn af borði og sveiflast, hangandi í snúrunni varpar
hann dimmum skugga upp á vegginn og kyrkingin verður ljós í því
hvernig lampinn hangir eins og liðið lík í hengingaról. Konan er
dáin en maðurinn sest á rúmið og sér eftir gjörðum sínum og grátur
hans er sýndur á táknrænan máta með því að það rignir perlum úr
hendi mannsins ofan á biblíublað á gólfinu. Hann tekur blaðið upp
og les hina heilögu ritningu, kastar perlunum frá sér og hugsar um
villu síns vegar. Lögreglan mætir að lokum til hans og handtekur
hann. Sést lögreglumaður halda á biblíu prestins og hefur því rakið
glæpaslóðina sem festin hefur skilið eftir sig. Myndin endar svo á
skoti af hálfgegnsæjum höndum reyna að grípa í perlufestina sem
liggur utan seilingar á meðan röddin frá því í upphafi myndarinnar
heyrist endurtaka boðskap sögunnar um veikleika mannskepn unn ar
gagnvart freistingum auðfengins fjár.
Fyrsta listræna myndin
Vinna með tákn, líkingar og listræna framsetningu hafði ekki verið
tíð í íslenskum kvikmyndum fram að þessu, enda leiknar myndir
vissulega afar fáar og allar drifnar áfram af hefðbundinni sögufram-
vindu.10 Ágirnd er að því leyti einstök mynd í íslensku samhengi og
mætti alveg segja að hún sé fyrsta listræna myndin, þar sem frekar
er unnið með óræð þemu græðgi og illsku en hefðbundna og rök-
rétta söguframvindu. Í Ágirnd er engin söguhetja önnur en háls -
festin og engin rökrétt framvinda önnur en spillingarmáttur hennar.
Syndir mannanna eru settar fram í samhengi við trúarleg stef eins
og heilagleika presta, biblíuna og kirkjuklukku, nokkuð sem átti
eftir að fara mjög fyrir brjóstið á fólki eftir að myndin kom út.
Myndin er ólík öðrum myndum Óskars Gíslasonar að þessu leyti og
það er hægt að ímynda sér margar mögulegar ástæður þess að
Ágirnd hefur svo skipulagt táknkerfi og listræna sýn miðað við aðrar
gunnar tómas kristófersson152
(Princeton: Princeton University Press, 1992), 32–33 og 62–63. Augljóslega er
Ágirnd ekki slægja eða hryllingsmynd, en það er áhugavert að sjá hvernig
meðulum sem síðar áttu eftir að verða hluti slægjuhefðarinnar og hryllings-
mynda almennt er beitt til að fanga áhorfendur í hlutverki gerandans og um
leið magna þátttöku þeirra í glæpum myndarinnar. Þetta allt er til vitnis um
þær framúrstefnulegu og nýstárlegu leiðir sem farnar voru við gerð Ágirndar.
10 Björn Ægir Norðfjörð, „Ljós í myrkri: Saga kvikmyndunar á Íslandi,“ Ritið 19,
nr. 2 (2019): 19–42, hér 24–25.