Saga - 2022, Síða 156
Það kvað því við mjög sérstakan og öfgakenndan tón í allri
umfjöllun um myndina, eins og átti eftir að koma enn betur í ljós.
Áður en myndin var frumsýnd birti Tjarnarbíó tilkynningu þess
efnis að þrátt fyrir að sýna myndina hefði bíóið ekkert haft með gerð
hennar að gera. Myndin yrði einfaldlega þar í sýningum eftir að
kvikmyndaeftirlitið væri búið að taka hana til skoðunar.13 Þann 5.
desember 1952 var Ágirnd svo frumsýnd í Tjarnarbíói og var sextán
ára aldurstakmark inn á myndina. Daginn eftir birtust umsagnir,
skoðanir og dómar í dagblöðum. Í Þjóðviljanum var myndinni lýst
sem dómadagsdellu viðlíkri engu sem hefði verið ,,fest á filmuræm-
una, hvorki hér á landi né annars staðar, hvorki fyrr né síðar, og því
minna sem um hana er sagt, því betra“.14 Í Morgunblaðinu tók ekkert
betra við en þar endaði dómurinn á eftirfarandi orðum:
Það er fullkomin ástæða til að kanna, hvort mynd eins og „Ágirnd“
brýtur ekki í bága við lo ̈g, að því er snertir t.d. presta. Það er og full-
komin ástæða til að athuga hvort ekki beri að banna slíkar myndir eins
og nú tíðkast við klámbókmenntir af grófari gerð.15
Var þar með komin fram sú hugmynd að banna ætti myndina og
ljóst að almenningsálitið var henni ekki hliðhollt og hófu aðilar
tengdir myndinni að sverja hana af sér. Þann 7. desember var birt í
Tímanum fréttatilkynning Guðlaugs Rósinkranz þjóðleikhússtjóra
þar sem tekið er skýrt fram að myndin tengist leikhúsinu ekkert,
hún hafi verið tekin þar upp á meðan sumarfrí voru við leikhúsið.
Hefði verið vitað hvað fram færi við gerð myndarinnar hefði verið
tekið fyrir alla hjálp við gerð hennar. Sama dag birtir Þorgrímur
Einarsson leikari tilkynningu í blöðunum þar sem hann segist ekki
hafa tekið þátt í gerð hennar, heldur sé það alnafni hans sem sé
skrifaður í leikskrána.16 Í Morgunblaðinu er myndinni lýst sem þvætt -
ingi og hrákasmíð og jafnframt fullyrt að sú staðreynd að Tjarnar -
bíó, sem rekið var af Háskóla Íslands, skyldi taka slíkan ósóma til
sýningar flokkaðist tæpast sem menningarstarfsemi eða sýndi slíkri
stofnun verðskuldaðan sóma. Þá var það ekki talið líklegt að íslensk
kvikmyndagerð ætti eftir að vinna sér inn álit eða vinsældir með
svona glæpamyndum.17
gunnar tómas kristófersson154
13 Vísir, 2. desember 1952, 2.
14 „Því minna — því betra,“ Þjóðviljinn, 6. desember 1952, 6.
15 „Smámyndasafn í Tjarnarbíó,“ Morgunblaðið, 6. desember 1952, 5.
16 „Þjóðleikhúsið á engan þátt í glæpamyndinni,“ Tíminn, 7. desember 1952, 1.
17 „Velvakandi,“ Morgunblaðið, 7. desember 1952, 8.