Saga - 2022, Síða 164
með málið á grundvelli víðrar siðfræðilegrar túlkunar. Sannleikur -
inn kom ekki í ljós fyrr en ég sendi rektor formlegt bréf þar sem ég
krafði hann svara sem fyrirsvarsmann Háskólans um hvert ráðningar -
samband mitt væri við þessa ágætu stofnun. Hygg ég að engum í
slíkri stöðu hefði verið stætt á því að hafna beiðninni. Svo mikið var
samráð okkar rektors í málinu.
Í kjölfar þessa sá Siðanefnd engan annan kost en að segja af sér
10. febrúar. Þann 4. mars birti nefndin opinbera grein til að útskýra
afsögn sína sem var skreytt ýmsum persónulegum og ófagmannleg-
um aðdróttunum í garð þess sem hér ritar.8 Fyrir mér staðfesti þessi
grein þann slæma grun sem ég hafði strax fengið um málarekstur
nefndarinnar. Nýskipuð siðanefnd felldi síðan málið formlega niður
11. apríl á grundvelli áðurgreinds lögfræðiálits. Það er því úr sög-
unni. Loksins þá upplýsti hin nýja siðanefnd mig um tilvist álitsins
frá deildarforseta lagadeildar sem fráfarandi nefnd hafði stungið
undir stól.
Það sem við mér blasti þann 8. desember var einbeitt atlaga að
æru minni og mannorði. Ég þurfti vitaskuld að svara þessum ásök-
unum með efnislegum hætti. Ég fékk dr. Helga Þorláksson, pró -
fessor emerítus í sagnfræði, til þess að fjalla um þær í álitsgerð sem
ég hafði upphaflega áætlað sem málsgagn fyrir Siðanefnd en ég
ákvað síðan að birta strax opinberlega 6. janúar 2022.9 Helgi komst
að þeirri niðurstöðu að engin af þessum ásökunum ætti við rök að
styðjast og segir orðrétt: „Hér hefur verið leitt í ljós að Ásgeir hefur
ekki nýtt sér hugmyndir frá Bergsveini, a.m.k. ekki í dæmunum sem
Bergsveinn rekur.“10 Ég vil einnig taka fram í ljósi umræðu sem
spannst í kjölfarið að Helgi hefur hvorki þegið úr minni hendi neinar
peningagreiðslur vegna þessarar álitsgerðar né er hann skuldbund-
inn mér eða vandabundinn á nokkurn hátt.11
ásgeir jónsson162
8 Vef. Henry Alexander Henrysson, Sólveig Anna Bóasdóttir og Skúli Skúlason,
„Um afsögn Siðanefndar Háskóla Íslands,“ Vísir.is, 4. mars 2021, sótt 18. sept-
ember 2022.
9 Vef. „Prófessor emeritus telur ásakanir Bergsveins hæpnar,“ Vísir.is, 6. janúar
2021, sótt 18. september 2022.
10 Vef. Helgi Þorláksson, „Um ásakanir Bergsveins Birgissonar á hendur Ásgeiri
Jónssyni um ritstuld,“ fylgiskjal með „Prófessor emeritus telur ásakanir Berg -
sveins hæpnar,“ Vísir.is, 6. janúar 2021, sótt 18. september 2022.
11 Vef. „Ásgeir pantaði álitsgerð til að hreinsa sig af ásökunum um ritstuld,“
DV.is, 6. janúar 2021, sótt 16. september 2022;Vef. Jóhann Þorvarðarson, „Að
kaupa sér sakleysi hjá vin,“ Miðjan.is, 6. janúar 2021, sótt 16. september 2022.