Saga - 2022, Page 173
Hann lét gera bæ á Álftanesi og átti þar bú annað, lét þaðan sækja
útróðra og selveiðar og eggver, er þá voru nóg föng þau öll, svo rekavið
að láta að sér flytja. Hvalkomur voru þá og miklar, og skjóta mátti sem
vildi; allt var þar þá kyrrt í veiðistöð, er það var óvant manni.38
Hér er hlunnindanýtingu Skallagríms lýst fremur nákvæmlega og
vart er hægt að halda öðru fram en að um alþekkt efni sé að ræða.
Svo vill til að í Landnámu er einnig sagt svo greinilega frá útibúa-
rekstri Geirmundar á Vestfjörðum að vart þarf tilgátur til þess að
álykta að um svipaða hlunnindanýtingu hafi verið að ræða og
veiðar hafi verið stundaðar á sjávarspendýrum þar vestra. Hér segir:
Geirmundur fór vestur á Strandir og nam þar land frá Rytagnúp vestan
til Horns og þaðan austur til Straumness. Þar gerði hann fjögur bú, eitt
í Aðalvík, það varðveitti ármaður hans; annað í Kjaransvík, það
varðveitti Kjaran þræll hans; þriðja á almenningum hinum vestrum,
það varðveitti Björn þræll hans, er sekur varð um sauðatöku eftir dag
Geirmundar; af hans sektarfé urðu almenningar: fjórða í Barðsvík, það
varðveitti Atli þræll hans, og hafði hann fjórtán þræla undir sér.39
Af þessum texta er ljóst að Geirmundur rak fjögur útibú á Vest -
fjörðum sem voru í umsjón þræla líkt og hjá Skallagrími. Einnig
kemur fram að á einu þeirra, Barðsvík, voru 14 þrælar hafðir til
vinnu. Barðsvík er harðbalakot þar sem búskapur hefur frá upphafi
grundvallast á nýtingu sjávar. Þar hafa 14 þrælar lítið að gera annað
en að stunda veiðar í einu eða öðru formi. Það er því fremur augljóst
að þrælar Geirmundar voru að veiða sjávarspendýr á Hornströnd -
um, auk þess að taka fugla, egg og draga fiska.
Við þetta er einnig að bæta að sá sem hér ritar er ættaður af
Ströndum norður. Afi hans og áar mann fram af manni bjuggu þar
samkvæmt hinu gamla spakmæli: „Föðurland vort hálft er hafið“.
Því er algerlega augljóst af heimildum og búskaparsögu Norður -
stranda og Hornstranda að þar skiptu ýmiss konar veiðar eða
hlunnindi höfuðmáli fyrir lífsafkomu íbúanna. Ég hlýt því að endur -
taka orð úr fyrri álitsgerð minni: „Þannig getur það ekki talist höf-
undarvarin túlkun neins manns að, Geirmundur hafi verið í forsvari
fyrir slíka veiðimenningu á Hornströndum líkt og Bergsveinn held -
ur fram.“40
drög að mannorðsmorði 171
38 Sama heimild, 75.
39 Jakob Benediktsson (ritstj.), Íslendingabók og Landnámabók, 155.
40 Vef. Ásgeir Jónsson, „Fjórtán rangfærslum Bergsveins svarað“.