Saga - 2022, Page 184
áhuga almennings á Jóni Sigurðssyni því að hún sleit hann úr öllu samhengi
við líf venjulegs fólks — hann varð „leiðinlegur, þurrskynsamur þjarkur,
ráðríki hans þröngsýni … of ómennskur til þess að unnt sé að þykja vænt um
hann“, svo vitnað sé til orða Sigurðar Nordals.2 Það varð því engin leið fyrir
dauðlega Íslendinga að ná almennilegri tengingu við þjóðhetjuna eða sam-
sama sig henni (14).3 Afleiðingin var sú, segir doktorsefni, að þegar leið
fram á síðustu öld þótti fræðimönnum Jón „ekki mjög spennandi viðfangs-
efni í sjálfu sér“, meðal annars því að hann var svo „nátengdur hinni rót-
grónu (gamaldags) sögu af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga“ (19).
Á þessu hefur orðið talsverð breyting, því að það er eins og Jón hafi allt
í einu komist í tísku meðal íslenskra fræðimanna nú á allra síðustu árum.4
Í doktorsritgerð þeirri sem hér er tekin til varnar er höggvið á ný í þann kné -
runn og enn einu sinni fjallað um Jón Sigurðsson, starf hans og áhrif. Það er
gert með því að beina sjónum að afmörkuðum þætti í starfi hans sem lítt
hefur verið rannsakaður til þessa, það er að segja handrita- og skjalasöfnun
Jóns. Það er reyndar athyglisvert að handritasöfnun Jóns Sigurðssonar hafi
vakið jafn lítinn áhuga fræðimanna og raun ber vitni, því að — eins og
doktors efni bendir á — þá var hann mikilvirkur á þessum vettvangi og er
reyndar, svo ég vitni í doktorsrit gerðina, „talinn mestur safnari íslenskra
handrita á eftir Árna Magnússyni“ (2). Órækur vitnisburður um það er sú
staðreynd að tæpur fjórð ungur allra handrita í geymslum Handritadeildar
Landsbóka safns Íslands – Háskólabókasafns kemur annaðhvort beint úr
einkasafni Jóns Sigurðssonar eða úr safni Kaupmanna hafnardeildar Hins
íslenska bók mennta félags, en hinum síðarnefndu var safnað að verulegu
leyti að hans frumkvæði á meðan Jón veitti félaginu forystu um og eftir
miðja nítjándu öld (2). Þessi doktorsritgerð er því mjög tímabært framlag til
sögu Jóns Sigurðssonar og til íslenskrar menningar sögu almennt.
andmæli182
2 Sigurður Nordal, „Úr launkofunum. Af Jóni Sigurðssyni,“ Ritverk. Mannlýsingar
III. Svipir. Ritstj. Jóhannes Nordal (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1986 [1969]),
28.
3 Tölur í svigum vísa í blaðsíður í doktorsritgerð Braga eins og hún var lögð fram
til doktorsprófs, sjá: Bragi Þorgrímur Ólafsson, Í útlendra höndum. Jón Sigurðsson
og handritasöfnun á Íslandi 1840–1880 (Reykjavík: Háskóli Íslands. Hugvísinda -
svið. Sagnfræði- og heimspekideild, 2022).
4 Sjá t.d. grein Sveins Mána Jóhannessonar, „Farsældarríki Jóns Sigurðssonar: rík-
isvísindi og ríkisþróun frá endurreisn Alþingis til byltinganna árið 1848,“ Saga
57, nr. 2 (2019): 51–81, og grein eftir sama höfund, „Þrældómur og frelsi: áhrif
repúblikanisma á frelsishugmyndir í sjálfstæðisbaráttunni og kvenfrelsisbarátt-
unni á nítjándu öld,“ Saga 59, nr. 1 (2021): 83–117; Clarence Glad, „Jón Sig urðs -
son: A Philologist Captive in the Image of a National Hero,“ Old Norse-Icelandic
Philology and National Identity in the Long Nineteenth Century, ritstj. Gylfi Gunn -
laugsson og Clarence Glad (Leiden: Brill, 2022), 260–323.