Saga - 2022, Blaðsíða 186
átt til eigin þjóðríkis. Ég mun skoða þetta óskilgreinda markmið ritgerðar-
innar sérstaklega, ekki aðeins vegna þess að mér er viðfangsefnið hugleikið
heldur einnig vegna þess að mér finnst ritgerðin segja meira um þennan
lykilþátt í íslenskri stjórnmála- og menningarsögu en inngangurinn gefur í
skyn.
Handritasafnarinn Jón Sigurðsson
Í stórum dráttum tekst doktorsefni á við þá meginspurningu hvers vegna sá
einstaklingur sem almennt er álitinn mikilvægasti frumkvöðull og hugmynda -
smiður íslenskrar sjálfstæðisbaráttu lengst af ævi sinnar — ef ekki faðir
íslenska þjóðríkisins — var langumsvifamesti útflytjandi handrita frá Íslandi
á nítjándu öld. Með öðrum orðum, hvernig stendur á því að þjóð- og sjálf -
stæðishetjan Jón Sigurðsson flutti dýrgripi íslenskrar menningar í stórum
stíl út til Danmerkur — í óþökk margra landa sinna — á sama tíma og hann
stóð í hatrammri baráttu fyrir íslenskum þjóðréttindum við dönsk stjórn -
völd og fulltrúa dönsku þjóðarinnar á danska þinginu? Hér virðist vera um
einkennilega þverstæðu að ræða, ekki síst þegar við skoðum handritasöfnun
Jóns Sigurðssonar í samhengi við þær gríðarlegu tilfinningar sem lágu að
baki kröfum Íslendinga um endurheimt handrita úr dönskum söfnum á
síðustu öld og sem virðast hafa gengið í endurnýjun lífdaga nú á tuttugustu
og fyrstu öldinni. Þessi þverstæða er ekki síst merkileg fyrir þá sök að
snemma á ferli sínum, eins og doktorsefni bendir á, lét Jón ákveðið í ljós það
álit sitt að koma ætti „á fót stofnun [á Íslandi] sem myndi varðveita íslensk
skjöl, handrit og forngripi í stað þess að láta þau lenda á heimilum erlendra
safnara eða á erlendum söfnum“ (61). Á þennan hátt vildi hann koma í veg
fyrir að handritin, dýrgripir íslenskrar bókmenn ingar, kæmust „í útlendra
hendur“ (60). Þrátt fyrir að vísi að slíkri varðveislustofnun hafi verið komið
á fót í Reykjavík strax árið 1846, þegar lagður var grunnur að handritasafni
innan Landsbókasafnsins (68), þá hélt Jón ótrauður áfram að sópa hand -
ritum og skjölum til Kaupmannahafnar alls staðar að af landinu.
Lausn doktorsefnis á þessari ráðgátu er að skilja á milli þjóðernisstefnu
— eða þjóðernisrómantíkur — Jóns Sigurðssonar og handritarannsókna
hans, eða eins og segir í niðurstöðukafla ritgerðar:
Hann komst á þá skoðun að þrátt fyrir gildi þess að safna og varðveita
handrit á Íslandi væri mest um vert að safna þeim á þann stað þar sem
þau nýttust best í fræðilegu tilliti, það er í nálægð við öflugt fræðasam-
félag, bóka-, handrita- og skjalasöfn, háskóla og bókaforlög. Slíkt um -
hverfi var þá miklu fremur að finna í Kaupmannahöfn en á Íslandi. Hin
þjóðernisrómantíska skoðun Jóns um söfnun og varðveislu íslenskra
handrita á fjórða áratugnum vék þannig fyrir hagnýtingarsjónarmiði
hans og raunsæi á þeim fimmta og undirstrikar enn frekar stöðu hans
sem raunsæismanns, bæði á sviði stjórnmála og fræða (220).
andmæli184