Saga - 2022, Page 187
Þessi niðurstaða er í ágætu samræmi við það sjónarmið sem birtist í nýlegri
grein eftir Clarence Glad um útgáfustarfsemi Jóns Sigurðssonar en hann
heldur því fram að hún hafi í raun ekki litast af þjóðernisstefnu — það er að
segja að það hafi verið skörp skil á milli vísindamannsins og stjórnmála-
mannsins Jóns Sigurðssonar. Í titli greinar Clarence („Jón Sigurðsson: A
Philologist Captive in the Image of a National Hero“) kemur fram það viðhorf
hans að textafræðingurinn hafi orðið eins konar fangi þjóðhetjunnar í hugum
fólks og skrifum síðari tíma fræðimanna.5 Þetta er áhugaverð endurskoðun á
fræðastarfi Jóns Sigurðssonar þótt ég verði að viðurkenna að hún sannfærir
mig ekki fyllilega. Fræðimennska Jóns Sigurðs sonar var í raun lengst af svo
samofin stjórnmála vafstri hans að þar verður varla skilið á milli. Sú staðreynd
að Jón valdi að gefa út 19 gerðir af „Gamla sáttmála af hendi Íslendinga við
Magnús konúng Hákonarson“ í fyrsta bindi Íslenzks fornbréfasafns ber þannig
ekki aðeins vott um fræðilegan áhuga forseta Kaupmannahafnardeildar bók-
menntafélagsins á útgáfu fornra skjala heldur stýrðist val hans örugglega að
hluta til af því að meintur sáttmáli íslenskra höfðingja við Noregskonung var
lykilheimild í pólitískri röksemdafærslu Jóns að minnsta kosti frá miðjum
sjötta áratug nítjándu aldar til æviloka.6 Það er líka í sjálfu sér næsta tilgangs-
lítið að greina skýrt á milli menningarstarfsemi og stjórnmála í þjóð ernis -
sinnuðu andrúmslofti þessa tíma. Útgáfa fornra íslenskra bókmennta, sögu-
legra heimilda sem vörðuðu Ísland, lagatexta, og svo framvegis var mikilvæg
fyrir Íslendinga því að hún þótti sýna að Íslendingar hefðu eitt sinn verið
menningarþjóð og á þeim grunni skyldu þeir enn teljast sérstök þjóð. Sú staða
veitti þeim síðan öll þau réttindi sem þjóðum þótti bera samkvæmt stjórn -
mála hugmyndum aldarinnar — menningarlegri þjóðernisstefnu. Þannig að
þótt ég geti fyllilega tekið undir með doktorsefni þegar hann segir að Jón hafi
ekki fjallað „um handritin … á sama hátt og Fjölnismenn ræddu um sögulegar
minjar sem aflvaka ættjarðar ástar“ þá er ég ekki jafn viss um að hann hafi talið
sögulega þekkingu einkum nýtilega „til að kynnast þróun landsins, fá upp -
lýsingar um stöðu þess í alþjóðlegum samanburði og finna mögulegar fyrir -
myndir, landi og þjóð til eflingar“ (169). Þar nægir að benda á skrif Jóns um
fjárhagslegan aðskilnað Íslands og Danmerkur sem sannarlega voru studd
ítarlegum sögu legum rökum. Sú sagnfræði var þó tæplega sett fram með það
eitt í huga að upplýsa lesendur um staðreyndir málsins heldur var hún þræl-
pólitísk ef ekki hreinn pólitískur áróður — að minnsta kosti fannst Dönum
heldur lítið til þeirrar fræðimennsku koma sem Jón beitti í þeim deilum.7
andmæli 185
5 Sjá tilvísun 4.
6 DI. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn I, 834–1264, útg. Jón Sigurðs -
son (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1857–1876), 661–716; sbr.
Jón Sigurðsson „Um landsréttindi Íslands,“ Ný félagsrit 16 (1856): 1–110.
7 Sjá t.d. Orla Lehmann, Den islandske Forfatningssag i Landstinget 1868–69 (Kaup -
mannahöfn: G.E.C. Gad, 1869), 53–56.