Saga - 2022, Page 188
Tekið skal fram að með þessu er alls ekki sagt að allar handrita- og sögu-
rannsóknir Jóns Sigurðssonar hafi verið af einberum pólitískum rótum
sprottnar. Jón var sannarlega vandaður fræðimaður og krítískar útgáfur
hans hafa komið sagnfræðingum að góðum notum í nær tvær aldir (175).
Að mínu mati er einfaldasta skýringin á því hvers vegna Jón Sigurðsson
var jafn umsvifamikill í flutningi handrita til Kaupmannahafnar og raun ber
vitni, þrátt fyrir áhyggjur sínar af því að íslensk handrit kæmust „í útlendra
hendur“, sú að hann leit ekki á þessa iðju sína sem útflutning handrita.
Ísland tilheyrði danska ríkinu alla nítjándu öldina og því er mér til efs að
Jón Sigurðsson hafi upplifað Kaupmannahöfn sem útlönd á sama hátt og til
að mynda Lundúnir eða París. Hann lagði líka mikla áherslu á það að hand-
ritasafn Kaupmanna hafnardeildar Bókmenntafélagsins væri í raun íslensk
eign. „Vér heyrum opt talað um,“ sagði hann til að mynda á fundi Bók -
mennta félagsins í Kaupmannahöfn í apríl árið 1858,
að það sé að ræna og rupla landið, að fá híngað íslenzk handrit, og
er tilfært um það dæmi Árna Magnússonar, en þeir sem slíkt tala
gæta þess ekki, að það handritasafn, sem hið íslenzka bókmenta-
félag eignast, tilheyrir Íslandi vafalaust, hvort það er hér eða þar,
svo að félagið getur látið flytja það til Íslands hvenær sem því
þykir þess þörf (125; sbr. 114).8
Hann ítrekaði þessa skoðun í bréfi sem birtist í Norðanfara sumarið 1867 þar
sem hann lagði áherslu á að eignir Bókmenntafélagsins, hvort sem þær
væru staðsettar á Íslandi eða í Kaupmannahöfn, væru „eign Íslands, og
þegar kríngumstæður eru til þess, þá er ekkert hægara en að flytja þessa
eign til Íslands …“.9 Þetta gekk eftir því að rétt rúmum 20 árum eftir dauða
Jóns var handritasafn Bókmenntafélagsins í Kaupmannahöfn keypt til
Landsbókasafns Íslands (138). Þá var hið geysistóra einkasafn Jóns þegar
komið til Reykjavíkur því að annað löggjafarþing Alþingis samþykkti árið
1877 að kaupa það og eyddi til þess „4% af áætluðum heildarútgjöldum fjár-
laga til næstu tveggja ára“, eins og bent er á í ritgerðinni (1). Sennilega hefur
þjóðþing Íslendinga aldrei reynst jafn rausnarlegt og í þetta sinn þegar kom
að stuðningi við varðveislu handrita, að minnsta kosti þegar hann er metinn
í samhengi við heildarútgjöld lands- eða ríkissjóðs. Þar með voru flest þau
handrit sem Jón hafði fengið flutt frá Íslandi til Kaupmannahafnar, utan
þeirra sem hann hafði safnað fyrir Fornfræðifélagið, komin í örugga geymslu
á Íslandi eins og hann virðist hafa reiknað með frá upphafi.
andmæli186
8 Skýrslur og reikningar hins íslenzka bókmenntafélags 1857–1858 (án útgáfustaðar og
útgáfuárs), ix.
9 Jón Sigurðsson, „Um Bókmenntafjelagið,“ Norðanfari 23. júlí 1867, 57.