Saga - 2022, Qupperneq 189
Uppbygging íslenskra menningarstofnana
Þetta leiðir mig að öðrum þræði í doktorsrannsókninni sem mér finnst
einkar áhugaverður en hann snýr að uppbyggingu menningarstofnana og
viðhorfum til mótunar sérfræðiþekkingar í menningarrannsóknum á Ís -
landi. Hér virðast alls kyns mótsagnir blasa við. Áður hefur verið minnst á
að Jón Sigurðsson kallaði eftir stofnun skjala- og handritasafns á Íslandi á
meðan hann flutti handrit og skjöl í stórum stíl til Kaupmannahafnar. Ekki
er heldur að sjá að hann hafi lagt mikið af mörkum til eflingar handritasafna
í Reykjavík, hvort sem það var á vegum Bókmenntafélagsins eða Lands -
bókasafnsins, sem er einkenni legt í ljósi þeirrar áherslu sem hann lagði á
það þegar rætt var um staðsetningu Alþingis að efla Reykjavík sem innlend-
an „stofn (eður Centrum), bæði í stjórn, lærdómi, mentum og handiðnum
…“.10 Þvert á þennan boðskap þá kvartaði Jón eitt sinn yfir því við forsvars-
menn Reykjavíkur deildar Bókmenntafél agsins að þeir væru að safna hand-
ritum, því að betur ætti „við að senda þau hingað með, svo safn félagsins
væri allt á einum stað“ (135) — það er að segja í Kaupmannahöfn.
Þessi staða vísar til vanda varðandi stjórn Íslands sem Jón Sigurðsson
stóð frammi fyrir alla sína tíð. Enginn vafi lék á því í hans huga að Íslend -
ingar væru sérstök þjóð, með eigið tungumál, bókmenntir og sögu. Sam -
kvæmt þeirri menningarlegu þjóðernisstefnu sem hann aðhylltist, líkt og
flestir í kringum hann í Danmörku, þá sá hann þjóðina fyrir sér sem eins
konar lífræna heild, með eigin sál og vilja. Þessi rómantíska hughyggja, sem
hafði vaxið og þróast í Þýskalandi undir lok átjándu aldar og borist til
Danmerkur um og eftir aldamótin 1800, rann saman við hugmyndir Jean-
Jacques Rousseau um fullveldi fólksins, segir Joep Leerssen, þannig að úr
varð menningarleg þjóðernisstefna.11 Samkvæmt henni hafa viðurkenndar
þjóðir rétt til að krefjast fullveldis um leið og óskorað fullveldi er álitið vera
öllum þjóðum fyrir bestu. Jón tók skýrt undir þetta álit í fyrstu greininni
sem hann birti í Nýjum félagsritum en þar segir hann: „Veraldar sagan ber
ljóst vitni þess, að hverri þjóð hefir þá vegnað bezt þegar hún hefir sjálf
hugsað um stjórn sína, og sem flestir kraptar hafa verið á hræríngu.“12 Þegar
hann leit aftur á móti til Íslands þá var honum fullljóst að Íslendingar höfðu
ekkert bolmagn til að standa einir og sér og því gekk hann út frá því að
Ísland yrði að viðhalda einhvers konar sambandi við Danmörku.13 Það er
andmæli 187
10 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi,“ Ný félagsrit 1 (1841): 59–134, hér 126.
11 Joep Leerssen, National Thought in Europe. A Cultural History (Amsterdam:
Amsterdam University Press, 2006), 125–126.
12 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi,“ 90.
13 Sjá t.d. Jón Sigurðsson, „Um landsréttindi Íslands,“ Ný félagsrit 16 (1856): 98;
Guðmundur Hálfdanarson, „Danskar Atlantshafseyjar?,“ Til Auðar. Afmælisrit