Saga - 2022, Page 199
Andmæli við doktorsvörn
Sólveigar Ólafsdóttur
Föstudaginn 10. júní 2022 varði Sólveig Ólafsdóttir doktorsritgerð sína í
sagnfræði í Hátíðasal Háskóla Íslands. Ritgerð Sólveigar ber heitið Vald og
vanmáttur. Eitt hundrað og ein/saga á jaðri samfélagsins 1770–1936. Andmæl -
endur við vörnina voru Íris Ellenberger, dósent við Háskóla Íslands, og Páll
Björnsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Doktorsritgerðin var unnin
undir leiðsögn Sigurðar Gylfa Magnússonar, prófessors við Háskóla Íslands,
en einnig sátu í doktorsnefnd Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor við Há -
skóla Íslands, Ólafur Rastrick, dósent við sama skóla, og Vilhelm Vilhelms -
son, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.
Hér á eftir fara andmæli Írisar og Páls.
íris ellenberger
Doktorsritgerð Sólveigar Ólafsdóttur, Vald og vanmáttur. Eitt hundrað og
ein/saga á jaðri samfélagsins 1770–1936, hefur sérstöðu í íslenskum sagnfræði -
rannsóknum. Þar er í fyrsta sinn fléttað saman einsögu og fötlunarfræði til
að koma auga á, rekja og greina lífssögur fólks sem yrði skilgreint sem fatlað
í dag, eins og þessar lífssögur birtast í opinberum heimildum á Íslandi á
rannsóknartímabilinu. Niðurstöður Sólveigar lúta annars vegar að mögu-
leikum á því að finna vitnisburði um líf jaðarsetts fólks í sögulegum heim-
ildum. Hún telur að með því að tína til og draga saman allar upplýs ingar
sem finnast í margvíslegum opinberum heimildum sé hægt að rekja „lífs -
þræði fatlaðs fólks á Íslandi sem engum öðrum sögum fer af“ (212). Þessi
aðferð doktorsefnisins er því nýstárleg og mikilvæg leið til að laða fram
sögu fatlaðs fólks sem og að sýna fram á hvernig hægt er að gera grein fyrir
fortíðinni í öllum sínum fjölbreytileika.
Niðurstöður rannsóknarinnar snúast hins vegar um samfélagslega stöðu
fatlaðs fólks en Sólveig sýnir fram á hvernig fötluðu fólki var komið fyrir í
„kvíum í samfélagsgerðinni“ og það útilokað frá þátttöku í samfélaginu sem
og eigin lífi. Hún telur líf þess hafa einkennst af hægfara ofbeldi, misnotkun
valds og menningarlega samþykktri, refsiverðri hegðun gagnvart fötluðu
fólki. Það skjól sem stóð fötluðum einstaklingum til boða fór mjög eftir
vinnuframlagi þeirra og þeim tilfinningasamfélögum sem þeir tilheyrðu.
Saga LX:2 (2022), bls. 197–208.