Saga - 2022, Page 201
ræða hvort komið hafi til tals að vinna rannsóknina, eða ákveðna þætti
hennar, í samvinnu eins og þeirri sem hér er lýst og hver niðurstaðan af
þeim vangaveltum hafi verið.
Í framhaldinu langar mig að ræða tilteknar ákvarðanir sem Sólveig
tekur, annars vegar varðandi endursköpun á kúgandi orðræðu heimild -
anna, og hins vegar á mjög nákvæmum lýsingum á líkömum fatlaðs fólks.
Í fyrsta lagi eru orð eins og „fábjáni“ nokkuð frjálslega notuð í ritgerðinni.
Oftast er verið að vísa til orðræðu heimildanna en stundum ekki. Þannig
kemur fyrir að Sólveig noti sjálf þetta mjög svo kúgandi orðfæri til að vísa
til og lýsa fötluðu fólki. Við þurfum alltaf að hafa í huga að þótt við séum
að fjalla um fortíðina erum við að skrifa fyrir fatlað og ófatlað fólk í samtím-
anum sem vekur upp efasemdir um slíka notkun niðrandi hugtaka.
Einnig langar mig að minnast á nákvæmar lýsingar á líkömum fatlaðs
fólks. Þar verður mér hugsað til lýsinga á læknisfræðilegu inngripi í líkama
fatlaðra einstaklinga, sér í lagi kaflans um ungabarnið Einar Hákonarson
sem inniheldur nær einvörðungu ítarlegar lýsingar á líkama hans og skurð -
aðgerðum sem hann undirgekkst upp úr ársskýrslu héraðslæknis til land-
læknis 1883. Vissulega er þarna embættismaður að gera grein fyrir störfum
sínum en þó ber að hafa í huga að á síðustu áratugum nítjándu aldar ríkti
mikill áhugi á framandi líkömum, þar á meðal líkömum fatlaðs fólks, sem
gæti auðveldlega hafa haft áhrif á þessa ítarlegu lýsingu héraðslæknisins.
Það vakna því áleitnar siðferðislegar spurningar um hvort ófötluð mann -
eskja eigi að endurnýta slíkar lýsingar og þá um leið að endurskapa glápið
sem er hluti af undirokun fatlaðs fólks í sögu og samtíð með því að setja les-
andann, sérstaklega hinn ófatlaða lesanda, í hlutverk gláparans. Því væri
fróðlegt að vita meira um forsendur þeirrar ákvörðunar að endurskapa kúg-
andi orðfæri og lýsingar í doktorsritgerðinni og um hvað hefði tapast og/
eða áunnist ef ákvörðun hefði verið tekin um að skilja helstu nákvæmnis-
atriðin eftir í heimildunum.
Mig langar svo að ljúka þessum hluta umfjöllunarinnar á að taka notkun
Sólveigar á hugmyndum Audre Lorde til umræðu. Sólveig fjallar í inngangi
sínum um skrif Lorde um fjórar gerðir „blindu“ sem flest fólk glímir við en
þær eru rasismi, sexismi, heterosexismi og hómófóbía. Þessar gerðir eiga
allar rót sína að rekja til erfiðleika okkar við að líta á fjölbreytileika mannkyns
sem jákvætt fyrirbæri sem auðgar tilveru okkar í stað þess að ógna henni.
Sólveig færir jafnframt sannfærandi rök fyrir því að ableismi eða hæfishroki
eigi heima þar líka. Audre Lorde var mjög gagnrýnin á hvítar konur í
kvennahreyfingunni í Bandaríkjunum, valdbeitingu þeirra gagnvart jaðar-
settum konum og meðvitundarleysi þeirra um forréttindi sín. Það vekur upp
vangaveltur um hvort hvítt, ófatlað fólk geti verið annað en „verkfæri meist-
arans“ (e. the master’s tools) þegar við byggjum okkar framgang innan aka-
demíunnar á rannsóknum á jaðarsettum hópum sem við tilheyrum ekki sjálf
eða hvort hægt sé að fara einhverjar leiðir að því að vera eitthvað annað.
andmæli 199