Saga - 2022, Blaðsíða 212
fyrir almenning en ríma við kynningartexta aftan á bókarkápu, þar sem
sögusviðinu er lýst sem heimi „á mörkum forneskju og upplýsingar.“
Þennan tón er ekki að finna í texta Þórunnar. Að vísu talar hún um áhrif
upplýsingarinnar á refsihörku í köflunum um framkvæmd dauðarefsingar-
innar en þar er slík orðanotkun viðbúin, þótt Þórunn taki kannski djúpt í
árinni (233–237). Þessi tilhneiging til að framandgera fortíðina kemur
væntanlega frá útgefanda sem hefur þótt þetta söluvænlegra.
Þórunn er sem fyrr segir nálæg í textanum og er óhrædd við að deila því
með lesanda þegar eitthvað kemur henni spánskt fyrir sjónir eða þegar hún
rekst á eitthvað sem hún skilur ekki, sem er hressandi. Stundum hefði hún
samt mátt kafa dýpra í þessi atriði og vinna þá rannsóknarvinnu sem hefði
þurft til að útskýra þau fyrir lesendum. Sem dæmi má nefna umfjöllun um
titlatog Natans og annars ábúanda á Illugastöðum, Einars Skúlasonar. Natan
er titlaður herra og Einar monsjör og Þórunn spyr sig og lesandann í hverju
munurinn liggi, ef nokkru (79). Hér hefði höfundur gjarnan mátt rannsaka
málið fyrir lesandann og svara þessari áhugaverðu spurningu. Virðingar -
titlar af þessu tagi breyttust nokkuð á nítjándu öld frá því sem verið hafði á
þeirri átjándu og þótt Einar Skúlason sé ekki að finna í Íslenzkum æviskrám,
eins og Þórunn bendir á, þá er greinargóð útlistun á honum í grein Jóns
Torfasonar frá 1991, „Svipast um á Illugastöðum“, sem Þórunn styðst við í
þessum hluta bókarinnar.
Heimildavísanir í bókinni eru sumar ekki alveg eftir því sem kennt er í
sagnfræðinámi. Nokkuð er um almennar tilvísanir í Íslendingabók.is og
skjalið „Í fórum höfundar: Vinnudagbók Eggerts, með hugleiðingum.“ Það
liggur þó til að mynda ekki beint við að vísa í þá vinnudagbók þegar vitnað
er í fólkstal Tjarnarsóknar á Vatnsnesi árið 1825 (28). Á upplýsingasíðu bók-
arinnar kemur reyndar fram að vinnudagbókin sé ekki lengur í fórum höf-
undar, heldur hafi hún verið afhent handritadeild Landsbókasafns þar sem
megi nálgast hana. Frágangur af þessu tagi flækir málin fyrir fræði menn
sem síðar vilja rannsaka efnið og gerir þeim erfiðara um vik að leggja mat á
trúverðugleika þeirra ályktana sem eru dregnar í bókinni. Bókin er þó ætluð
almenningi sem vissulega er ólíklegri en fræðimenn til að fletta upp tilvís-
unum. Því verður ekki eytt meira púðri í umfjöllun um frágang og tilvísanir
til heimilda heldur skoðuð nokkur atriði sem eru líkleg til að hafa jöfn áhrif
á alla lesendur, sama hvaða menntun þeir hafa að baki.
Fyrir það fyrsta þá skortir skipulega kynningu á þeim sagnamönnum
sem lýstu morðunum og brennunni á Illugastöðum og mótuðu sögurnar
sem gengu af atburðunum. Hvenær voru þær skrifaðar, hvað leið langur
tími frá atburðunum og þar til þjóðsögurnar urðu til? Sem fyrr segir er sam-
anburður á þessum sögum og réttarskjölunum meginatriði í bókinni svo
þessi kynningarskortur háir umfjölluninni verulega.
Í öðru lagi er kaflaskipting bókarinnar ruglingsleg. Efnið er mikið að
vöxtum, en til grundvallar liggja réttarskjöl sem spanna 20 dómsþing þar
ritdómar210