Saga - 2022, Page 215
líklega nú þegar náð yfirlýstu markmiði sínu. Samkvæmt lauslegri könnun
minni á samfélagsmiðlum þar sem fólk ræðir bækur hefur henni tekist að
ná til margra lesenda og hrífa þá með sér.
En það eru fleiri sláandi glæpamál í íslenskri sögu en morðbrennan á
Illugastöðum. Enn er rými til að skrifa fræðibók sem í senn hefur burði til
að ná til breiðs hóps lesenda og „skapa marktæka þekkingu um fortíðina á
grundvelli þessara vitnisburða og um leið leyfa þeim manneskjum sem þeir
segja frá að njóta sannmælis“ (Vilhelm Vilhelmsson, „Stílfært og sett í sam-
hengi“, 44). Vonandi verður það gert þegar fram líða stundir því efniviður-
inn er mikill og áhugaverður.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Arnþór Gunnarsson, HÆSTIRÉTTUR Í HUNDRAÐ ÁR: SAGA. Hið
íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 2021. 576 bls. Myndir, myndrit,
manna nafnaskrá.
Arnþór Gunnarsson ritar sögu Hæstaréttar í tilefni 100 ára afmælis stofnun-
arinnar. Verkið er gefið út samhliða ritgerðasafninu Hæstiréttur í 100 ár sem
fæst við lögfræðileg álitamál tengd Hæstarétti. Hér er um að ræða hátíðar-
útgáfu líkt og kápan ber með sér: úr, að því virðist, leðri og skreytt gylltu
skjaldarmerki lýðveldisins Íslands, ofan á rekabálki úr Jónsbók sem er inn-
hleyptur á kápu.
Þrátt fyrir hátíðleika útgáfunnar ber ritið þess merki að höfundur hafi
haft frjálsar hendur. Forseti Hæstaréttar, Benedikt Bogason, gefur slíkt til
kynna í formálanum þegar hann nefnir að oft hafi gustað um Hæstarétt og
segist vona að rétturinn njóti sannmælis. Gefur það óneitanlega til kynna að
ritið sé ekki skrifað til þess að telja til afrek á merkisdegi Hæstaréttar, líkt og
áður hefur verið gert (og höfundur tiltekur á bls. 212).
Arnþór lýsir því yfir að eitt af markmiðum ritsins sé að varpa ljósi á
tengsl Hæstaréttar við þjóðfélagið. Enn fremur að það sé ekki markmið að
kryfja einstaka dóma þótt gerð sé grein fyrir dómum Hæstaréttar sem hafa
haft mótandi áhrif á þróun réttarins. Þrátt fyrir að hér sé ekki um eiginlega
rannsóknarspurningu að ræða má lesa út úr þessum orðum þá spurningu
hvort Hæstiréttur sé hafinn yfir hvers konar samfélagsátök, líkt og ætlast
megi til af honum (22).
Þessi nálgun er rökrétt fyrir sagnfræðing þar sem eðli, starfsemi og þró-
un réttarins verða ekki skilin til hlítar nema í samhengi við aðstæðurnar sem
hann þrífst í. Enn fremur er um að ræða stofnun sem er mannanna verk og
ekki fullkomnari en þeir einstaklingar sem að henni standa. Kaflaskipting
bókarinnar endurspeglar þessa nálgun og er köflum skipt eftir átaka- og
friðartímabilum, þó mislöngum. Þannig er lengsti kaflinn yfir 100 blaðsíður
og tekur fyrir 15 ára tímabil.
ritdómar 213