Saga - 2022, Blaðsíða 216
Arnþór hefur söguna á nokkurs konar forleik, „Háttvirtu herrar“, með
greinargóðri lýsingu á fyrsta dómsfundi Hæstaréttar þann 16. febrúar 1920.
Þar nær hann að fanga vel anda hátíðleika og stolts yfir því að Ísland hafi
fengið æðsta dómsvald í hendurnar á ný. Það gerir hann ekki síst með notk-
un beinna tilvitnana sem almennt eru áberandi í bókinni sem aðferð til að
gera söguna lifandi. Slær forleikurinn tóninn og gefur lesandanum til kynna
hvaða tilgangi rétturinn þjónaði fyrir Ísland og Íslendinga.
Í því ljósi má skoða fyrstu kafla ritsins. Þriðji kaflinn, „Æðsta dóms valdið
og sjálfstæðisbaráttan“, rekur til dæmis sjónarmið um Hæstarétt sem merkan
áfanga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þar er gerð grein fyrir sjónar miðum
um að Danir hefðu ekki forsendur til að dæma í íslenskum málum, meðal
annars vegna tungunnar. Þó er einnig fjallað ítarlega um andstæð sjónarmið,
að Íslendingar væru ekki tilbúnir að taka við æðsta dómsvaldinu. Þar fáum
við strax dæmi um það hvernig innlent dómskerfi var notað gegn pólitískum
andstæðingi þegar Lárusi H. Bjarnasyni rannsóknardómara var falið að
kanna embættisfærslur Skúla Thoroddsen og dæma í máli hans. Hæstiréttur
Danmerkur virkaði þar hins vegar sem varnagli sem tók ís lenska embættis-
menn á teppið fyrir slíkt (sjá undirkaflann „Íslenska hneykslið“, 46–50). Þetta
er fyrsta dæmið af mörgum um að ekki bara hafi dómskerfið verið notað til
að klekkja á andstæðingum heldur líka að þeir sem með valdið fóru innan-
lands hafi ekki þurft að taka afleiðingum gjörða sinna.
Þegar aðstæður á Íslandi undir lok fyrri heimsstyrjaldar eru teknar með
í reikninginn, fjármagn, innviðir og svo framvegis, verður enn frekar áleitin
sú spurning hvort Íslendingar hafi í raun og veru verið tilbúnir til að taka
við æðsta dómsvaldinu á þessum tíma (sjá fjórða kafla: „Hæstiréttur tekur
til starfa“). Segja má að sú spurning sé undirliggjandi þegar fjallað er um 15
fyrstu ár Hæstaréttar. Fimmti kafli, „Baráttan um hæstarétt“, er viðamesti
kafli bókarinnar en þetta 15 ára tímabil er tekið fyrir á 108 blaðsíðum. Þar er
farið skilmerkilega yfir það hvernig Hæstiréttur dróst inn í valdabaráttu
íslenskra stjórnmála á þessum árum.
Athyglisvert er að sjá að í deilum á Alþingi komu oftar en ekki við sögu
sömu menn og komu við sögu Hæstaréttar, beint eða óbeint (skýrasta
dæmið er Einar Arnórsson). Þannig dregur höfundur upp mynd af embættis -
mannastétt sem deildi um Hæstarétt sín á milli á Alþingi. Sú mynd breytist
hins vegar þegar Jónas Jónsson frá Hriflu stígur fram á sjónarsviðið og stillir
sér upp sem fulltrúi almennings gagnvart valdaelítu embættismannanna,
þar sem Hæstiréttur var talinn vera verkfæri íhaldsmanna. Gefið er í skyn
að hugmyndir Jónasar hafi teflt Hæstarétti í hættu og jafnvel grafið undan
lýðræðinu (sbr. beina tilvitnun í Ian Kershaw í upphafi kaflans) en á sama
tíma má lesa úr textanum að þegar til kastanna kom hafi frumvarp Jónasar
til nýrra hæstaréttarlaga ekki verið róttækara en önnur frumvörp þess efnis
á þessum árum og á endanum hafi þessar deilur um dómsvaldið frekar
tengst persónu Jónasar.
ritdómar214