Saga - 2022, Blaðsíða 233
Lokaorð bókarinnar eru einungis á ensku undir titlinum „Summary.“
Þar er áréttað að markmið verksins sé að fjalla um „individuals who were
considered unusual and existed on the margins of society.“ (331) Eins og
fram hefur komið hér að framan hefði ritstjórn verksins þurft að vera mark-
vissari til þess að umrætt markmið næðist; umræddar skrár eru sannarlega
athyglisverðar fyrir margra hluta sakir en þær fjalla um margt annað en það
sem að ofan greinir. Frágangur á ritinu er í stórum dráttum í lagi en á stöku
stað er lestur ekki fullnægjandi (til dæmis neðst á síðu 196). Þá eru textar úr
ensku ekki alltaf þýddir sem hefði verið æskilegt. Hið sama má segja um
lokaorð sem hefðu einnig átt að vera á íslensku, til viðbótar ensku þýðing-
unni. Þá vantar skrá yfir myndir í bókinni en þar eru birtar níu myndir af
„sérkennilegu“ fólki. Þær eru unnar eftir rituðum lýsingum sem nemendur
í Myndlistaskóla Reykjavíkur höfðu aðgang að í samráði við einn höfunda
bókarinnar. Mér er ekki ljóst hversu djúpt var farið í könnun á klæðnaði
fólks á þessum tíma en verkin eru að minnsta kosti skemmtilegar tilgátur
um útlit viðkomandi einstaklinga, og má segja að með því sé tilganginum
náð.
Sumarliði R. Ísleifsson
Kristjana Kristinsdóttir, LÉNIÐ ÍSLAND. VALDSMENN Á BESSA -
STÖÐUM OG SKJALASAFN ÞEIRRA Á 16. OG 17. ÖLD. Þjóð skjala -
safn Íslands. Reykjavík 2021. 666 bls. Myndir, heimildaskrá, enskur
útdráttur, sex viðaukar, skammstafanir, orðskýringar, myndaskrá, skrá
yfir töflur, skipurit og kort, efnisorðaskrá, nafnaskrá.
Það verður seint sagt að sextánda og sautjánda öldin hafi verið í miklu uppá -
haldi hjá íslenskum sagnfræðingum. Lengi vel einkenndist umfjöllun þeirra
um þetta tímabil af viðhorfum þjóðfrelsisbaráttunnar á síðari hluta nítjándu
aldar og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Í aðalhlutverki voru spilltir
danskir valdsmenn og illvígir einokunarkaupmenn sem börðu á fátækum
landsmönnum með harðneskjulegum og óréttlátum lögum og Árni Odds -
son grét.
Þótt nokkuð hafi rofað til síðan með rannsóknum þeirra Gísla Gunnars -
sonar, Más Jónssonar, Helga Þorlákssonar og fleiri þá má segja að tímabilið
hafi haldið áfram að vera eins og óhreinu börnin hennar Evu. Ef til vill er
ástæðan að einhverju leyti sú að heimildir eru oft óaðgengilegar og liggja á
víð og dreif, eins og fram kemur í bók þeirri sem hér er til umfjöllunar, en
einnig getur skriftletur það sem brúkað var á þessum tíma verið strembið
aflestrar jafnvel fyrir vant fólk.
Nýjasta stórvirkið í rannsóknum á þessu vanmetna tímabili sá dagsins
ljós á síðasta ári en það er doktorsritgerð Kristjönu Kristinsdóttur um lénið
ritdómar 231