Saga - 2022, Page 243
Gavin Lucas og Mjöll Snæsdóttir, SKÁLHOLT: EXCAVATIONS OF A
BISHOP‘S RESIDENCE AND SCHOOL C. 1650‒1790. VOL. 1: THE
SITE. Fornleifastofnun Íslands. Reykjavík 2022. 228 bls. Myndir, upp-
drættir, töflur og heimildaskrá.
Bókin um Skálholt er metnaðarfullt rit sem flokkast undir svonefnd einrit
(e. monograph). Einrit eru algeng í fornleifafræði víðsvegar erlendis en hafa
hingað til ekki fest sig í sessi á Íslandi að neinu ráði. Rit af þessum toga eru
fyrst og fremst ætluð fræðimönnum, þar sem uppgreftrinum sjálfum eru
gerð ítarleg skil, þ.e. aðferðafræði, nákvæmum lýsingum á mannvistar -
lögum og mannvirkjum og svo framvegis. Það má segja að einrit í fornleifa-
fræði séu lokaskýrsla tiltekinnar rannsóknar og eitt aðal markmið þeirra sé
að koma á framfæri öllum þeim gögnum sem söfnuðust við rannsóknina og
gera þau þar með aðgengileg öðrum fræðimönnum. Í fornleifafræði er slík
nálgun afar mikilvæg þar sem hver fornleifauppgröftur eyðileggur hinar
efnislegu minjar og ekki verður hægt að endurtaka hann. Þannig verður
varðveislan sem felst í nákvæmum og aðgengilegum uppgraftrargögnum
nauðsynleg fyrir frekari, eða nánari, túlkun á hverjum rannsóknarstað í
framtíðinni.
Bókin Skálholt: Excavation of a Bishop’s Residence and School, c. 1650–1790
er fyrsta bindi af þremur þar sem fjallað er ítarlega um fornleifauppgröft
sem fór fram í Skálholti árin 2002–2007. Fornleifauppgröfturinn sjálfur var
styrktur af Kristnihátíðarsjóði en frágangur gagna og úrvinnsla var að
mestu styrktur af Rannsóknasjóði Íslands, Fornminjasjóði, Háskóla Íslands
og Alþingi. Í þessu fyrsta bindi er áhersla lögð á þann hluta rannsóknar -
innar sem snéri að uppgreftrinum sjálfum, mannvirkjum sem áður stóðu á
uppgraftrarsvæðinu, rýmisskipulag og annað sem viðkemur mannvirkjum
í Skálholti og þróun þeirra yfir tímabilið 1650‒1790.
Bókin er vel byggð upp og inngangskafli gefur gott yfirlit um landið
umhverfis staðinn og þær minjar sem eru í næsta nágrenni hans. Í undir -
kafla um sögu Skálholts er lesandanum vísað í rit Guðrúnar Ásu Gríms -
dóttur til nánari glöggvunar á sögu Skálholts en það er alltaf bagalegt að
þurfa að leita annað eftir slíkum upplýsingum og því hefði ítarlegri umfjöll-
un átt heima hér. Það hefði gefið betri tilfinningu fyrir stærð og mikilvægi
staðarins í sögu þjóðarinnar og sett það sem eftir kemur betur í samhengi.
Sömu sögu er að segja um samantektina um fyrri fornleifarannsóknir en
þeim hefði mátt gera mun betri skil enda er Skálholt sá staður sem einna
mest hefur verið rannsakaður á Íslandi.
Í kafla 2 er farið yfir markmið rannsóknarinnar og þær aðferðir sem beitt
var við uppgröftinn. Í þeim kafla kemur berlega í ljós að þau markmið sem
upphaflega voru höfð að leiðarljósi voru óraunhæf þar sem rústirnar voru
miklar og flóknar. Í stað þess að fá innsýn í upphaf og þróun staðarins í
ritdómar 241