Saga - 2022, Blaðsíða 258
numdar 1838. Við lestur bókarinnar fékk ég stundum á tilfinninguna að höf-
und langaði helst til að draga tjald sögunnar frá og vara landsmenn við!
Bókin er vel studd heimildum, en alls er í henni að finna ríflega 1100 tilvitn-
anir í heimildaskrá sem eru aðgreindar eftir köflum. Jafnframt er ítarleg
nafnaskrá aftast. Bókin er í hörðu bandi og frágangur ágætur.
Ljóst er að enn er mikið verk óunnið þegar kemur að sagnfræðilegum
rannsóknum á mörgum smitsjúkdómum hér á landi, en líklega hefur fátt átt
ríkari þátt í að móta sögu Íslendinga en sá flokkur sjúkdóma. Bók Erlu
Dórisar Halldórsdóttur er bæði lofsvert og mikilvægt framlag til að bæta þar
úr.
Magnús Gottfreðsson
Jón Kristinn Einarsson, JÓN STEINGRÍMSSON OG SKAFTÁRELDAR.
Ritstjóri Már Jónsson. Smárit Sögufélags. Sögufélag. Reykjavík 2022.
264 bls. Myndir, skrár.
Árið 1980 hóf göngu sína ritröðin Ritsafn Sagnfræðistofnunar, smá í sniðum.
Auk hefta sem sagnfræðikennarar skrifuðu sjálfir birtust þar á næstu árum
nokkrar úrvalsgóðar BA-ritgerðir sem staðfestu eftirminnilega þær framfarir
sem þá höfðu orðið í sagnfræðinámi við Háskóla Íslands.
Smárit Sögufélags er yngri ritröð og að sumu leyti arftaki hinnar fyrri.
Hefur Már Jónsson reynst þar drjúgur drifkraftur, sem útgefandi, ritstjóri og
þýðandi. Hér ritstýrir Már endurskoðaðri BA-ritgerð nemanda síns, Jóns
Kristins Einarssonar, og reynist hún ekki síðri en þær sem athygli vöktu
fyrir 40 árum.
Rannsóknin er þrengri en ætla mætti af heiti bókarinnar. Hún snýst um
þau vandræði sem eldklerkurinn, Jón Steingrímsson, kom sér í á öðru sumri
Skaftárelda með því að opna peningasendingu, sem hann hafði átt að skila
innsiglaðri frá stiftamtmanni til sýslumanns, og ráðstafa í heimildarleysi
nokkru af þeim 600 ríkisdölum sem hún hafði að geyma. Hér kafar Jón
Kristinn í samtímaskjöl sem sýna atburðarásina í smáatriðum og breyta
veru lega þeirri mynd sem Jón átti eftir að gefa af henni og höfð hefur verið
fyrir satt. Peningarnir voru ekki samskotafé frá Danmörku heldur teknir úr
sjóði tugthússins í Reykjavík. Þeir voru utan við þá neyðarhjálp sem reynt
var að skipuleggja í Móðuharðindunum og átti að nota þá til þess eins að
koma upp bústofni á jörðum sem eyðst höfðu í bili en orðið byggilegar á ný.
Og gripina mátti ekki kaupa á Suðurlandi, þar sem eftirspurn eftir búpen -
ingi var þegar langt umfram framboð og verðið eftir því, heldur vonaðist
stiftamtmaður til að kaupa mætti kýr og hesta austan Skeiðarársands.
Ég hélt ég hefði staðið Jón Kristin að ónákvæmni þegar hann talar ýmist
um gripakaup „í Múlasýslum“ (114) eða „í Austur-Skaftafellssýslu og Suður-
ritdómar256