Heima er bezt


Heima er bezt - 01.06.2002, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.06.2002, Blaðsíða 15
laumi yfir vísuna. Upp frá því var hún greipt í þjóðarsálina. En svo vindum við okkur yfir í Miðijörð. Þar lágu leiðir fram með Miðijarðará rétt við bæi og síðan meðfram Austurá, Núpsá og Vesturá. Núpdælagötur lágu á milli Mið- ijarðardala suður um Tvídægru til Borgarfjarðar. Ymist var farið upp úr Núpsdal Lestamannaveg svonefndan eða frá Aðalbóli í Austurárdal. Einnig var leið upp úr Vesturárdal. Algengast var að fara upp úr Núps- dal og mættust leiðirnar þegar komið var upp fyrir daladrögin eða suður við Þorvaldsvatn. Frá Þorvaldsvatni lá leiðin fyrir vestan Úlfsvatn og yfir Norðlinga- fljót á Núpdælavaði, sem er rétt fyrir ofan Bjarnafoss. Þar á Þorvaldshálsi er komið á Arnarvatnsheiðarveg eða Stórasandsleið eins og líka heitir. Til byggða var komið niður að Kalmans- tungu. Þangað eru 50 km frá Aðal- bóli og fór Bensi á Aðalbóli stundum vetrarveg þarna þegar mýrar, fen og vötn voru ísilögð, að spila lomber við bóndann í Kalmanstungu. Á Tvídægru er vettvangur litríkra frásagna m.a. í Eíeiðarvíga sögu. Árið 1014 urðu þar snörp átök milli Húnvetninga og Borgfirðinga, svo- nefnd Heiðarvíg. Kom þar við sögu Víga-Barði Guðmundsson sem kenndur var við Ásbjarnarnes en sá bær stendur við Hópið. Þessi sami Barði mun að sögn seinna hafa búið um sig í Borgarvirki, sem er kletta- borg milli Vesturhóps og Víðidals. Borgfirðingar sátu þar um virkis- menn og ætluðu að svelta þá inni. Tók Barði það þá til bragðs að kasta út nokkrum mörsiðrum, lét eins og hann hefði mistekið þau fyrir steina. Borgfirðingar töldu þá einsýnt að í virkinu væri gnægð matar og létu undan síga. Hvergi er Borgarvirkis getið í Heiðarvíga sögu. Þetta með mörsiðr- ið er því munnmælasaga. Enginn veit með vissu hver lét gera Borgarvirki, en sumir hallast að því að það sé hér- aðsvirki frá landnámsöld. Úr því að við erum stödd á þessum slóðum má geta þess, að þar sem Faxalækur rennur í Víðidalsá heitir Síðunes. Þar skar Víga-Barði á söð- ulgjarðir móður sinnar þannig að hún hlunkaðist í lækinn. Hafði kerlingin ætlað að troða sér með í átökin suður á Tvídægru en hann vildi ekki hafa hana með. Á Sturlungaöld fóru menn í stór- flokkum um Tvídægru. I Sturlunga sögu segir að Kolbeinn ungi hafi far- ið upp úr Núpsdal með sex hundruð manna lið á leið í Reykholt í Borgar- firði. Hugsið ykkur 600 manns, hver kannski með tvo til reiðar, að hlykkj- ast suður heiðina. Um morguninn þegar lagt var af stað var krapadrífa og urðu menn all votir. Þegar á daginn leið tók að frysta. Ýmsir glímdu til að að halda á sér hita. Að lokum voru menn orðnir svo loppnir að þeir gátu ekki haldið á vopnum sínum, sem er bagalegt fyrir vígamenn. Sumir frusu í hel en aðra kól og lifðu við örkuml eftir það. En svo við hverfum aftur niður í byggð þá lá leið fram Fitjárdal þang- að sem bærinn Finnmörk er í dag. Þaðan svo vestur að Bjargshóli, sem er nokkurn veginn á móts við Brekkulæk í Miðfirði. Hér má geta þess að í Grettis sögu segir frá fjölmennu hestaþingi á Löngufit, en hún er á bökkum Mið- fjarðarár þar sem Laugarbakki er nú. Þarna öttu saman hestum sínum Atli frá Bjargi eldri bróðir Grettis og bræðurnar Kormákur og Þorgils frá Mel í Hrútafirði. Atli átti móálóttan hest út af Kengálu en bræðumir frá Mel brúnan hest vígdjarfan. Af þessu hestaati urðu afdrifarík eftirmál, sem ekki verða rakin hér. í dag skilja menn kannski ekki hví- líkt alvörumál hestar voru hér fyrr meir. Mér er sagt að t.d. austur í Hornafirði hafi það oft borið við, að ævilöng óvinátta skapaðist fyrir það eitt að óvarlega var talað um reiðhest einhvers. Það mátti úthúða kerling- unni og krakkaormunum, en ekki segja sfyggðaryrði um uppáhalds hestinn. Þetta er kannski útúrdúr en austar í sýslunni er Víðidalstunguheiði. Um hana lá leið suður að Arnarvatni mikla og þaðan um Álftakrók og Þorvaldsháls að Kalmanstungu. Leið þessi mætti Grímstunguheiðarvegi fyrir norðan Haugakvíslardrög. Grímstunguheiðarvegur var einnig nefndur Biskupagötur og var hann lagður á árunum 1860-1870. Frá Hrappsstöðum í Víðidal að Fellaskála við Suðurmannasandfell eru 43 km en úr Víðidal suður að Kalmanstungu voru taldar þrjár þingmannaleiðir eða rétt um 110 km. Víðidalstunga í Víðidal er fornt höfuðból, mjög vel í sveit sett. Þarna var heyskapur allur auðveldur og svo voru hlunnindi, t.d. af laxveiði. I Víðidalstungu var Flateyjarbók sett saman um miðja 14. öld að frum- kvæði Jóns Hákonarsonar. Til bóka- gerðarinnar þurfti 113 kálfskinn þannig að eitthvað hefur bóndinn þar haft umleikis. í dag er útgáfa hvers konar tiltölulega auðveld. Við eigum því erfitt með að gera okkur í hugar- lund hvílíkt þrekvirki gerð Flateyjar- bókar var. Ekki langt frá Víðidalstungu er Galtanes en þar var lögfeija yfir Víðidalsá. En svo við förum aftur svolítið vestar þá lá milli bæjanna Valgeirs- staða og Húks í Vesturárdal leið yfir Hrútafjarðarháls. Komið var niður hjá Brandagili í Hrútafirði. Þarna var gamla skreiðarkaupaleiðin úr sveit- um Víðidals. Frá Brandagili var svo farið hjá Mel í Hrútafirði og um Haukadalsskarð vestur í Dali. Þvínæst um Rauðamelsheiði og vest- ur undir Jökul. Þar vestra var um tíma mesti þéttbýliskjarni landsins. Önnur leið yfir Hrútafjarðarháls lá fyrir sunnan Staðarbakka í Miðfirði og yfir að Þóroddsstöðum. Þessa leið fór Konrad Maurer árið 1858. Hann fór hjá Álfhól og Álfhólsvatni og Grettistaki. Ekki hældi hann slóðan- um, talar um urðir og klungur og mýrarfláka. Fylgdarmaður hans var séra Böðvar Þorvaldsson prófastur á Melstað, þá orðinn 72 ára gamall. Maurer lýsir því hvernig klerkur- inn hendist af baki eftir að hafa látið hest sinn stökkva yfir pytt. Aftur stígur þessi aldni maður á bak, hag- ræðir sér í hnakknum og heldur áfram för. Heima er bezt 255

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.