Bændablaðið - 25.05.2023, Page 6

Bændablaðið - 25.05.2023, Page 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. maí 2023 Það er nú svo að öll ríki heims leggja einhvers konar gjöld á innfluttar vörur, þ.m.t. tolla. Til að greiða fyrir viðskiptum hafa langflest ríki samstarf um tollflokkun og beita samræmdri tollskrá, sem í grófum dráttum má skipta í landbúnaðarvörur annars vegar og iðnaðarvörur hins vegar. Tilgangur álagningar tolla á innfluttar vörur er almennt séð tvíþættur. Annars vegar að afla tekna fyrir ríkissjóð og hins vegar til að vernda viðkvæma innlenda framleiðslu fyrir innflutningi. Í umfjöllun um tolla sem finna má í skýrslu um úttekt á hagsmunum Íslands á landbúnaðarsamningi Íslands og Evrópusambandsins, frá 2020, kemur fram að í fyrri tíð gegndu tollar veigamiklu tekjuöflunarhlutverki fyrir ríkissjóð. Innbyrðis hlutdeild tolla í heildartekjum ríkissjóðs hefur aftur á móti farið lækkandi. Árið 1986 voru tollar 8% af skatttekjum ríkissjóðs, 3% árið 1996 og 1% árið 2006. Árið 2019 var hlutfallið komið niður í 0,49%. Hlutfallið nú stendur í 0,5%. Gjaldtaka í formi tolla hefur verið á undanhaldi og er tollur á landbúnaðarvörur þar hvergi undanskilinn, þrátt fyrir að vera hluti af opinberri stefnu stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði og stuðningi við hann. Bitlaus tollvernd og aukinn innflutningur Innflutningur hefur aukist töluvert á undanförnum áratug, umfram mannfjölda- aukningu, og er þá eðlilegt að velta fyrir sér áhrifum sem breytt tollaumhverfi hefur haft á þá þróun. Með gildistöku núgildandi viðskiptasamnings við Evrópusambandið árið 2018 hafa stærðir tollkvóta til innflutnings frá Evrópusambandinu aukist úr rúmlega 700 tonnum í yfir 3.500 tonn. Við þetta aukna framboð af tollkvótum lækkaði verð á þeim með tilheyrandi lækkun á meðaltolli þeirra vara sem innifaldir eru í kvótunum. Oft hefur verið talað um að kjötinnflutningur sé notaður til að bregðast við aukinni eftirspurn tengdri fólksfjölgun og sveiflum í ferðamannafjölda og þar með gefið í skyn að eftirspurn eftir innlendum vörum sé vaxandi og að í raun sé framboðsvandi, ekki eftirspurnar-. Með öðrum orðum, vegna langs framleiðsluferils neyðast söluaðilar til að stoppa í götin milli framboðs og eftirspurnar með innflutningi. Gögnin sýna hins vegar annað. Innflutningur er farinn að kroppa af sölunni á íslensku kjöti og framleiðsla þess dregist saman ár hvert frá 2018. Kjötframleiðsla dróst saman um 2.000 tonn frá 2018 til 2022 sem gerir rúmlega 6% samdrátt. Framleiðsla á mann (íbúafjöldi og ferðamannafjöldi á hverri stundu) dróst saman um 11% á árunum 2018–2022 og rétt tæplega 16% yfir tímabilið 2012–2022. Af kjötframboði á Íslandi er erlent kjöt og kjötvörur nú með 24% markaðshlutdeild og hefur hún rúmlega þrefaldast frá árinu 2012. Innflutningur á mann hefur margfaldast um 3,4 frá árinu 2012. Ekki aftur snúið með grænmetið Einstakir aðilar í pólitíkinni og frá hagsmuna- samtökum innflytjenda og verslunar tala fyrir niðurfellingu tolla og aukningu styrkja í landbúnaði. Það er nú samt svo að jafnvel hörðustu frjálshyggjumenn í grunninn eru á því að halda eigi í tollvernd á íslenskri landbúnaðarframleiðslu gagngert, m.a. til að tryggja fæðuöryggi. Eftir sem áður hefur sú umræða farið mikinn þar sem lagt er til að farin sé sú leið í stuðningi við landbúnað eins og gert var í garðyrkjunni á árunum 2012 en þá var ákveðið að leggja til beingreiðslur í framleiðslu á gúrkum, tómötum og papriku og samhliða því að fella niður tolla af áðurnefndum afurðum. Með þessu tók framleiðslan við sér að hluta en hver hefur þróunin verið? Framleiðslan á mann hefur minnkað. Með niðurgreiðslunum voru settir ákveðnir fjármunir inn í greinina sem hefur ekki fylgt því magni sem framleitt er og enginn hvati í kerfinu er til staðar sem hvetur til aukinnar framleiðslu, þvert á móti. Það er mikilvægt að stuðningur fylgi auknu framleiðslumagni svo hvatar til aukinnar framleiðslu séu til staðar. Líkt og staðan er í dag og horfur til framtíðar, þá er verið að framleiða einungis u.þ.b. 45% af því grænmeti sem við neytum, hvernig getum við gert betur? Mikilvægt er að standa vörð um þá tollvernd sem er þó til staðar í einstaka tegundum grænmetis og það helst í útiræktuðu grænmeti. Tollar eru hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins Í rammasamningi búvörusamninga sem endurskoðaður var árið 2021 segir m.a. eftirfarandi í 10. gr.: „Tollvernd er hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins. Aðilar eru sammála um að þróun tollverndar þarfnist áframhaldandi skoðunar í kjölfar nýlegrar skýrslu sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þá eru samningsaðilar sammála um að forsendur fyrir tollasamningi Íslands og ESB sem tók gildi í maí 2018 eru breyttar, sérstaklega hvað varða útflutningstækifæri. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur þegar óskað eftir endurskoðun samningsins.“ Þá segir í grein 13.1 í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar frá árinu 2016: „Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun beita sér fyrir breytingu á tollalögum til að breyta magntollum á mjólkur- og undarrennudufti og ostum til sama raunverðs og gilti í júní 1995.“ Einnig segir í 11. gr. í samningi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá árin 2019 um tollvernd: „Ef breytingar verða gerðar á forsendum samningsins varðandi tollvernd, geta samningsaðilar óskar eftir viðræðum um endurskoðun þeirra atriða við endurskoða þessa samnings 2023.“ Af þessu má ljóst vera að stjórnvöld hafa undirgengist það skilyrði að tollvernd sé hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins og því hafi breytingar á tollum landbúnaðarafurða bein áhrif á búvörusamninga. Ein meginforsenda þess að hægt sé að byggja upp íslenska framleiðslu er að þeir sem hana stunda geti starfað við eðlilegt rekstrarumhverfi og horft til framtíðar. Til að íslenskur landbúnaður blómstri liggur framtíðin ekki í því að fella niður tollvernd og hugsa svo. SKOÐUN Fjársvelt neytendavernd Reglugerð nr. 618/2017 fjallar um notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Framfylgd þessarar reglugerðar virðist lítið vera sinnt. Í reglugerðinni kemur fram að heimilt sé að nota fánamerkingu á vöru sé hún framleidd á Íslandi úr innlendu hráefni, en einnig ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni hafi hún hlotið nægilegrar aðvinnslu hérlendis. Þó er þar tilgreint að vara teljist ekki íslensk, og megi þar af leiðandi ekki bera þjóðfánann, sé hún framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og sé eðlislík vöru sem ræktuð er og framleidd hér á landi. Dæmin sýna að verslanir og framleiðendur veigra sér ekki við að brjóta þessa reglugerð. Í einni rafrænni búðarferð er hægt að rekast á eftirfarandi brot á reglum: Á vefsíðu Nettó ægir saman kjötvörum og fiskvörum merktum með íslenskum fána og virðist engu skipta hvort meginhráefni þess sé innlent eða innflutt. Þar er reyndar líka ýmislegt annað merkt íslenska fánanum; túnfiskur, ávaxtagrautur, maís, krydd og sykur til að gefa dæmi. Í gönguferð um verslun má sjá hamborgara frá Stjörnugrís úr þýsku kjöti fagurlega skreytta með íslenska fánanum, innflutt blóm vafin inn í umbúðir merkt þjóðfánanum og 1944 rétti með fánarönd þótt 80% hráefnis sé innflutt. Neytendastofu er ætlað að annast eftirlit með reglugerð 618/2017. Frá árinu 2020 hefur henni borist fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar um villandi framsetningu, upprunamerkingar eða markaðssetningu á búvöru á neytendamarkaði. Aðeins tveimur málum er lokið og tvö eru nú til meðferðar samkvæmt upplýsingum frá stofunni. Seint á árinu 2020 kom fram stjórnar- frumvarp frá þáverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem nú sinnir utanríkismálum, sem lagði til mikla breytingu á skipulagningu neytendamála. Í því fólst flutningur verkefna Neytendastofu í aðra stofnanir. Ætlunin var að minnka umfang Neytendastofu niður í mýflugumynd og henni ætlað að sinna „enn um sinn“ tilteknum verkefnum. Lögin voru samþykkt með breytingum og síðan þá hefur stofnunin verið fjársvelt, starfsmönnum fækkað og geta hennar til að sinna sínu hlutverki minnkað. Skýrt merki þess að lítið gengur né rekur í að fá eiginlegt viðbragð stjórnvalda, við þeirri merkingaróreiðu sem á sér stað á matvörumarkaði, er algjört andvaraleysi gagnvart augljósum brotum á merkingarlöggjöfinni. Mesti slagkrafturinn kemur frá landsmönnum á samfélagsmiðlum sem þreytast ekki við að senda myndir af misvísandi merkingum á matvælum. Eiginleg viðurlög við lögbrotum virðast þó engin því enn standa sömu vörur frammi í búðum. Við þetta má bæta að löggjöfin nær ekki utan um hinn risastóra umbúðalausa veitingamarkað; sjaldan er uppruna getið í mötuneytum og á veitingahúsum. Þá nýta rótgróin íslensk vörumerki gloppur í reglum til að selja innfluttar vörur án þess að geta uppruna. Enginn vafi er á mikilvægi þess að starfrækja öfluga stofnun tengda hagsmunum neytenda. Ein af sterkum mótvægisaðgerðum við auknum innflutningi búvara er að setja skýrar kröfur um merkingar. Ekki er nóg að hafa reglur, sú stofnun sem annast það hlutverk að framfylgja reglunum verður líka að hafa bolmagn til þess. Það hefur beinlínis verið lagaleg skylda stjórnvalda síðan þau urðu hluti af Evrópska efnahagssvæðinu að tryggja öfluga neytendavernd. Til þess að svo megi verða ættu stjórnvöld að sjá sér fært að reka þá stofnun sem annast eftirlit með notkun þjóðfánans, og öðrum afar mikilvægum neytendamálum, á sæmandi hátt. Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri. Varúð – tollar! Álagildra í Úlfarsá sumarið 1967. Maðurinn á myndinni ókunnur. Jón Kristjánsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, lýsir virkni álagildra í erindi á ráðunautafundi árið 1979: „Fiskurinn kemur að leiðara sem gerður er úr fínriðnu neti, syndir með honum og lendir þá í fiskikró sem hann kemst ekki út úr.“ Mynd / Þór Guðjónsson. Úr myndasafni Bændasamtakanna. GAMLA MYNDIN Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands gunnar@bondi.is Bændablaðið kemur út 23 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu burðargjalds. Árgangurinn (23. tölublöð) kostar þá kr. 14.900 með vsk. Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar kr. 11.900 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Borgartún 25, 4. hæð - 105 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Kt: 631294-2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − Ritstjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir (ábm.) gudrunhulda@bondi.is – Sími: 563 0300 – Blaðamenn: – Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is – Hulda Finnsdóttir hulda@bondi.is Sigrún Pétursdóttir sigrunpeturs@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Steinunn Ásmundsdóttir steinunn@bondi.is Auglýsingastjóri: Þórdís Una Gunnarsdóttir thordis@bondi.is – Sími: 866 3855 Netfang auglýsinga: thordis@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.