Bændablaðið - 25.05.2023, Blaðsíða 48

Bændablaðið - 25.05.2023, Blaðsíða 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. maí 2023 RÁÐGJAFARMIÐSTÖÐ LANDBÚNAÐARINS Heyverkun í flatgryfjum Heyskapur er vandaverk og á það ekki síst við um heyverkun í flatgryfjum. Margir þættir frá slætti til gjafa hafa áhrif á heygæði í flatgryfjum, ætla má að það sé ein ástæðan fyrir því að heyverkun í flatgryfjum er ekki vinsælli á Íslandi en raun ber vitni. Hins vegar er vel hægt að verka úrvalshey í flatgryfjum með góðu skipulagi og undirbúningi. Hönnun flatgryfja Áður en farið er út í heyverkun í flatgryfjum og komið upp aðstöðu til þess er mikilvægt að meta fóðurþörf búsins, því mikilvægt er að hönnun flatgryfja sé miðuð við fóðurþörf og gjafahraða til að tryggja gæði gróffóðursins. Hafa þarf í huga nokkra verklega þætti við hönnun flatgryfja. Mælt er með því að hafa alltaf a.m.k. tvær flatgryfjur til að tryggja sveigjanleika við heyskap og fóðrun. Lágmarksbreidd flatgryfju ætti að miðast við 5 metra svo skörun dekkja á vinnuvélum tryggi fullnægjandi þjöppun alls staðar í flatgryfjunni. Vegghæðin ætti að vera að lágmarki 1,8 metrar til að þjöppunin verði ásættanleg. Betri þjöppun næst ef veggirnir eru 3,7 metrar eða hærri, vegna aukins þrýstings að ofan. Óhagstætt er að vera með svo háa veggi ef fóðurþörfin er minni en sem nemur rúmmáli flatgryfjunnar. Mælt er með að steypa eða malbika gólfið í flatgryfjum til að minnka líkurnar á að jarðvegur berist í fóðrið. Steypa er viðkvæmari fyrir tæringu af sýrum sem myndast við gerjun votheys en malbik þolir þá tæringu betur. Gólfið þarf að halla 0,5-1% til að leiða úrkomu frá flatgryfjunni en vatn sem lekur inn í gróffóðrið spillir fóðrinu. Ekki er alltaf þörf að byggja nýjar flatgryfjur. Í sveitum landsins leynast á ýmsum stöðum eldri flatgryfjur sem margar hverjar eru nothæfar. Ef gömul flatgryfja er tekin í notkun gildir sama regla að meta fóðurþörfina til að ákveða hvort megi fylla þær alveg eða hvort bæta þarf fleirum við. Sláttur og hirðing Til að hámarka fóðurgildi og uppskeru slá bændur rétt fyrir skrið. Ýmist er notaður sláttukóngur, múgsaxi eða fjölhnífavagn við hirðingu. Sýrustig gróffóðursins er lægra ef hirt er með múgsaxa frekar en með öðrum aðferðum. Það er í samræmi við niðurstöður úr rannsóknum, meðal annars í Danmörku. Það getur því verið ávinningur af því að nota múgsaxa við hirðingu í flatgryfjur (Mynd 1). Þurrefnisinnihald grassins við hirðingu er lykilatriði að góðri heyverkun í flatgryfjum. Kjörstig þurrefnis fyrir mjólkursýrubakteríur er 35% og er mælt með að þurrefnið sé á bilinu 30-37% Ef það er undir 30% er aukin hætta á skemmdum af völdum clostridium bakteríu, þar af leiðandi hætta á smjörsýru- og grómyndun. Búast má við safafrárennsli og auknu fóðurtapi í geymslu ef þurrefnið er undir 30%. Ef þurrefnið er hærra en 37% eykst fóðurtap á velli en þegar þurrefnið er komið yfir 40% hefur það neikvæð áhrif á gerjunina, erfiðara verður því að ná nægri þjöppun. Með því að samræma slátt við afkastagetu tækja við hirðingu og þjöppun má minnka breytileika í þurrefni vegna veðurs við hirðingu. Það á sérstaklega við þar sem ekki er hægt fylla og loka flatgryfjunni samdægurs. Þá getur verið kostur að slá ekki allt í einu heldur aðeins það sem maður kemst yfir að setja í flatgryfjuna á einum degi. Íblöndunarefni geta gert verkunina öruggari ef ekki næst að slá við rétt þroskastig grasa eða að forþurrkunin verður of mikil eða of lítil. Velja þarf íblöndunarefni sem virka best hverju sinni, t.d. hvort það eigi að lækka sýrustig við verkun eða hindra hitamyndun. Sé þurrefnisinnihaldið yfir 40% getur verið kostur að nota íblöndunarefni sem hindra hitamyndun eins og Ecosyl Ecocool og Josilac Ferm eða önnur sambærileg efni. Ef þurrefnisinnihaldið er á bilinu 30-40% getur hins vegar verið betra að nota efni eins og Ecosyl 100, Sil-all 4x4 og Josilac Classic eða önnur sambærileg efni sem örva mjólkursýrumyndun og lækka sýrustigið hratt. Þegar þurrefnið er komið undir 30% er hentugast að nota sýrur. Þjöppun Góð þjöppun er einnig lykilatriði til að tryggja góða gerjun og geymsluþol á gróffóðri í flatgryfju. Ef ekki er þjappað nógu vel verður fóðurtapið meira og gerjunin getur orðið óhagstæð. Súrefni á greiðari leið inn í flatgryfjuna eftir opnun ef þjöppunin er ekki næg, það hefur neikvæð áhrif á geymslu gróffóðursins eftir að byrjað er að gefa úr flatgryfjunni. Nokkrir meginþættir hafa áhrif á þéttleika heysins við þjöppun, 1) þurrefnisinnihald, 2) strálengd, 3) þykkt heylags sem þjappað er í einu 4) þyngd þjöppunarvéla og 5) tími notaður við þjöppun á hvert tonn heys. Því meira sem grasið er saxað því betur þjappast það og sem skýrir af hverju múgsaxarinn reynist betur en fjölhnífavagninn í samanburðarrannsókn. Múgsaxi saxar heyið meira en fjölhnífavagninn í flestum tilfellum. Við þjöppun er heppilegast að nota þungar vélar með göfflum og dreifa heyinu jafnt í flatgryfjuna, í 5-20 cm þykkum lögum. Kostur er að nota t.d. pinnatætara og/eða svokallaðan stæðuvalta til að ná jafnari dreifingu á heyinu og betri þjöppun (Mynd 2). Frágangur Eftir góða þjöppun er komið að því að loka flatgryfjunni. Best er að loka henni sama dag og byrjað var að keyra í hana, minnkar það fóðurtap. Yfirborð stæðunnar þarf að vera slétt og kúpt svo vatn safnist ekki ofan á plastinu. Best er að loka flatgryfjum með sérframleiddu stæðuplasti (125-150 µm þykku) og þunnu undirplasti (40 µm þykku) undir stæðuplastinu, sem lagar sig vel að yfirborði heysins. Með því að nota bæði plöstin má betur tryggja loftfirrtar aðstæður í flatgryfjunni (Mynd 3). Á markaði er stæðuplast með innbyggða himnu sem hefur þann eiginleika að súrefnisgegndræpi er minna þó svo að plastið sé mun þynnra (80 µm þykkt) en venjulegt stæðuplast. Önnur nýjung á markaði er fjölnotadúkur og er hann notaður a.m.k. á einu búi á Íslandi. Með honum má draga verulega úr plastnotkun við heyverkun, dúkurinn er hálfsjálfkeyrandi og er því fallhætta minni við opnun og lokun. Hentar notkun hans þó ekki á snjóþungum svæðum þar sem búnaðurinn keyrir annað hvort með fram veggjum flatgryfjunnar eða á brautum ofan á þeim. Gott er að nota veggjaplast og búa til einhverskonar súrefnislás með því að falda það inn yfir undirplastið áður en stæðuplastið er sett á. Að lokum er mikilvægt að fergja stæðuna vel og ganga vel frá köntum, helst með sandsekkjum eða öðru sambærilegu. Í Danmörku hafa bændur verið hvattir til að hætta að nota heil dekk sem farg á stæður vegna hættu á að stálþræðir úr gömlum dekkjum komist í fóðrið. Stálþræðir geta líka stungið agnarsmá göt á plastið. Þess í stað er mælt með að nota eingöngu góðar dekkjahliðar af vörubíladekkjum. Það er auðveldara að vinna með og stafla dekkjahliðum en heilum bíldekkjum. Þegar notaðar eru nýjar lausnir eins og fjölnotadúkar eða strappabúnaður (plastið strappað niður) þarf ekki að notast við farg, sem felur í sér mikinn vinnusparnað. Gjafir Sex til átta vikum eftir lokun flatgryfjunnar er gróffóðrið tilbúið til gjafa. Um leið og flatgryfjan er opnuð byrjar kapphlaupið við súrefnið. Vöxtur gersveppa getur farið af stað við mjög lítið súrefni, því er lykilatriði að taka jafnt og þétt úr flatgryfjunni til að vera á undan því ferli. Góð regla er að miða við að taka 10-25 cm á dag eftir hitastigi. Á heitustu dögum (>14 gráður) getur þurft að taka meira. Rétt er að nefna að súrefni hefur greiðari aðgang inn í gróffóður þar sem fóðrið er rifið úr stálinu en þegar notaður er skeri sem skilur eftir slétt skurðarsár. Ditte Clausen og Baldur Örn Samúelsson, ráðunautar í fóðrun. Mynd 3. Bændur á Tannstaðabakka að loka flatgryfju í norðangolu. Mynd 1. Áhrif tækjabúnaðar á sýrustig. Sýrustig gróffóðurs virðist vera stöðugra í kringum 3,7-4,2 ef hirt með múgsaxa en ef notaður er heyhleðsluvagn. Mynd 2. Stæðuvalti framan á dráttarvél. Hér væri t.d. hægt að vera með pinnatætara aftan á vélinni. Ditte Clausen. Baldur Örn Samúelsson.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.