Bændablaðið - 07.09.2023, Side 7

Bændablaðið - 07.09.2023, Side 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2023 LÍF&STARF Það verða lesendur að þola mér, þótt nokkuð mikið fari fyrir kveðskap þeirra hagyrðinga sem næst standa hug og hjarta mínu. Ég átti þess kost að kynnast Rósberg G. Snædal á árunum 1968–1969. Síðan hafa borist mér í hendur allar hans ljóðabækur og ritverk. Stíllinn jafnan knappur, atkvæðafjöldinn lítill en rímleiknin einstök. Til Hjálmars hagyrðings á Hofi orti Rósberg afmælis- kveðju. Þar í er þessi staka: Stýrðu um veldi stökunnar, stuðlum felldu rímu. Berðu elda æskunnar inn í kveldsins skímu. Og til Sveins sveitunga síns frá Elivogum orti hann þessa einstöku vísu: Yfir hrjóstur oft þig bar, ýmsa slóstu brýnu. Stífur gjóstur stökunnar stóð frá brjósti þínu. Enga vísu man ég þar sem skáldið hreykist af eigin ágætum: Seint ég greiði lán mér léð, leik á breiðum tröðum. Vel er leið mín vörðuð með víxileyðublöðum. Líkt og aðrir listamenn, þá hefur Rósberg átt sínar andvökunætur: Eirð mig brestur, í mér fjand- inn vill festa rætur. Þó er verst að vera and- vaka flestar nætur. En frekar verður flutt af kveðskap Rósbergs síðar. Alkunn er þessi afburða vísa Friðriks Hansen: Nú skal hlaupa á hendingum, hefja staupa gaman, hafa kaup á hugmyndum, hlæja og raupa saman. Þessa kvenlýsingu smeið Magnús Gíslason á Vöglum: Brjóstahá og mittismjó, mjaðma ávöl lína, handarsmá, - mitt hjarta sló hratt við návist þína. Svo er þetta með kynjajafnræðið. Það er samt staðreynt, að færri konur en karlmenn hafa fengist við kveðskap til þessa dags, og því erfitt að hafa þar á jafnræði. En Ólína Jónsdóttir orti þessa frábæru vísu um ótilgreint manngrey í kvenmannsleit: Maðurinn þeytist stað úr stað, stundum breytir myndum, hann er að leita og hyggja að hitaveitulindum. Guðrún Árnadóttir frá Oddsstöðum orti líka hringhent: Manndómsára þrýtur þrek, þokast sár um veginn. Tímans bára brýtur sprek, breikkar skárinn sleginn. Og önnur svolítið sár eftir Guðrúnu: Þessi stund var stutt en hlý, stari ég hljóð í skuggann, ein er ég heima enn á ný og uni mér við gluggann. Ólöf G. Sveinbjarnardóttir frá Rauðamel orti á ferð hjá Grettisbæli: Í fjallaskaut hann flúði í laut, því frelsi naut hann varla. Á hans braut var þraut við þraut þar til hlaut að falla. Niðurlagsvísa þáttarins er þessi fróma ósk eftir Guðna V. Þorsteinsson: Lífið heldur áfram enn: ósköp væri gaman, ef að Guð og góðir menn gætu unnið saman. Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggd1@gmail.com MÆLT AF MUNNI FRAM Ýmis blómgróður þrífst með ágætum á Íslandi en maður rekst ekki á almennings- rósagarða á hverju strái, þótt fólk sé margt iðið við rósaræktun í heimagörðum. Í Kópavogi er Norræni rósagarðurinn í trjásafninu í Meltungu, skammt frá gróðrar- stöðinni Mörk. Þetta er sannkallaður yndisreitur sem hefur verið vel hlúð að og gaman er að heimsækja að sumarlagi til að sjá fjölbreyttar rósategundir. Innan Garðyrkjufélags Íslands (GÍ) er sérstakur rósaklúbbur, en slíkir eru víða um heim. Norrænu rósafélögin hafa haft með sér nokkurt samstarf. Árið 2014 ákváðu félögin að hvert norrænu landanna tilnefndi 10 rósayrki sem væru einkennandi fyrir viðkomandi land og síðan yrðu gerðir norrænir rósagarðar með þessum 50 rósum í öllum löndunum fimm. Rósagarðurinn í Meltungu var sá fyrsti og er samstarfsverkefni Kópavogsbæjar og GÍ. Tegundir og yrki 190 talsins Fyrir nokkrum árum voru gerðir tveir nýir rósagarðar á staðnum, annar með kanadískum rósum og hinn með rósum af blönduðum uppruna, sem virðast geta þrifist vel hér á landi. Loks er eitt tilraunabeð helgað enskum rósum, svonefndum Austin-rósum, sem þykja einkar blómfagrar og ilmandi. Nokkrar kanadísku rósanna fást ekki lengur á almennum markaði þar í landi. Vilhjálmur Lúðvíksson, efnaverkfræðingur og fv. formaður Rósaklúbbs GÍ, segir alls um 190 tegundir og yrki vera í rósagarðinum í heild. Þau séu 70 í þeim norræna, rúm 50 í þeim kanadíska og í blandaða rósasafninu um 70 talsins. Best þrífist rósir sem falli undir flokk þyrnirósa og ígulrósa en í Meltungureitnum gangi sýnu verst með flestar Austin-rósir og evrópsku nútímarósirnar. Reynt á þol rósanna Spurður um framtíðarstefnu varðandi rósagarðinn segir Vilhjálmur nú fyrirhugað sérstakt safn 18-19 rósa sem Jóhann heitinn Pálsson, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkur, framkallaði með víxlunum á 10. áratug síðustu aldar og skömmu eftir aldamót. Að öðru leyti sé ekki stefnt að stækkun garðsins, einungis viðhaldi hans. „Markmiðið með þessum rósagarði er að sýna og gera aðgengilegar almenningi arfgerðir (yrki) rósa sem ætla mætti að hentaði til ræktunar í íslenskum görðum og láta reyna á þær við hinar sveiflukenndu aðstæður í veðurfari sem ganga yfir hér á landi án þess að þær séu ofdekraðar,“ segir Vilhjálmur. Nokkuð er um að fólk þekki til garðsins og nýti sér hann, en þó mætti þar gera betur. „Nokkuð reglulega hafa verið fræðslugöngur um garðinn, gjarnan í tengslum við almennar kynningargöngur um trjásafnið í Meltungu, sem rósagarðurinn er raunar hluti af,“ bætir hann við. Ágætt upplýsingaskilti er í rósagarðinum og flestar rósir merktar. Nokkur afföll hafa verið í garðinum, eins og gengur, og síðan endurnýjun gróðursetninga með nýjum yrkjum en ekki er búið að merkja þau. Enn vantar nokkrar plöntur í garðinn, m.a. vegna affalla sem urðu í veðursveiflunum á sl. vetri og síðbúnu vori, að sögn Vilhjálms. Hann segir rósir sem á annað borð þrífast á Íslandi yfirleitt vera tiltölulega lausar við sjúkdóma en helst að blaðlýs og sumar tegundir fiðrildalirfa geti hrjáð þær. Rósirnar eru á fallanda fæti nú á haustdögum. En vorið og blómgunin kemur á ný og þá má spássera um rósagarðana og draga til sín fegurð og ilm blómanna til upplyftingar andans. /sá Almenningsgarður rósanna – Um 190 tegundir og yrki til sýnis

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.