Bændablaðið - 07.09.2023, Qupperneq 21
21Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2023
Kynbótahvelfing Lantmännen
Nú í vor var LbhÍ úthlutað styrk
frá matvælaráðuneytinu til að
hefjast strax handa við kynbætur
á byggi, en einnig er stefnt að
því að hefja hveitikynbætur á
næsta ári. „Okkur bauðst að
taka þátt í samstarfi við sænskt
kynbótafyrirtæki, Lantmännen, sem
er í eigu sænskra bænda. Fyrirtækið
býr yfir nýrri kynbótahvelfingu,
með þjörkum og fyrsta flokks
búnaði, og mun starfshópur nýja
byggkynbótaverkefnisins fá
aðgang að þeirri starfsemi sem
þar fer fram.“ Hrannar telur að í
samstarfinu felist hagkvæmni og
sparnaður við kynbætur korns
og muni hraða þróun þess fyrir
íslenskar aðstæður. „Það er ákveðin
bylting að eiga sér stað sem felur
í sér aðferðafræði, sem hefur
verið notuð við kynbætur húsdýra
síðastliðin ár, og er núna beitt við
plöntukynbætur.“ Hrannar segir frá
því í stuttu máli að nú verði hægt
að erfðagreina gríðarlegan fjölda
plantna og reikna kynbótamat fyrir
þær áður en þær hafa verið prófaðar
við íslenskar aðstæður. Það hefur
ekki verið gert áður.
Bylting í aðferðafræði
Hrannar greinir frá því að þessi
aðferð, erfðamengjaúrval, sé
að hefja innrás sína inn í flest
kynbótaverkefni víða um heim og
er notuð við nautgripakynbætur
á Íslandi. „Það er einnig hægt að
nýta aðferðina við plöntukynbætur
hér heima en alls ekki af þeirri
stærðargráðu sem okkur býðst í
Svíþjóð.“ Milli 10 og 20 víxlanir
voru framkvæmdar í sumar þar
sem hver var framkvæmd 15
sinnum, en fjöldi einstaklinga sem
kemur úr hverri og einni víxlun
er gríðarlega mikill og vinnan við
að greina alla þessa einstaklinga
er gífurleg. Með þátttöku LbhÍ í
þessu samstarfi fæst kynbótamat
á tugþúsundir einstaklinga, byggt
á erfðamengjaspá, sem eru svo
ræktaðir í gróðurklefum innan
kynbótahvelfingarinnar þar sem
kornið fer í gegnum sex kynslóðir
á ári. Kynbótamat byggt á erfða
greiningum og niðurstöðum
tilrauna á Íslandi hefur þegar verið
þróuð innan LbhÍ af Hrannari og
Agli Gautasyni og sýnir nokkuð
gott öryggi, sem er ákveðið afrek.
„Af þessum þúsundum afkvæma
tökum við 1.000 einstaklinga til
prófunar á Íslandi vorið 2024.
Það mun svo leiða til þess að
haustið 2024 munu 100 bestu
einstaklingarnir fara í fjölgun og fara
í dreifðar tilraunir í ökrum bænda
vorið 2025. Þannig mun þetta halda
áfram ár eftir ár og þrisvar á ári fara
fram víxlanir byggðar á kynbótaspá
og erfðamengjapörun. Með henni
er hægt að framkvæma víxlanir
einstaklinga sem eru líklegastir til
að gefa af sér afburðaafkvæmi.“
Kynbótaverkefnið og erfða
mengjaspáin tekur til þriggja
eiginleika í endurnýjaða byggkyn
bótaverkefninu. Þar vegur
þyngst uppskera, rúmþyngd og
þurrefnishlutfall við skurð, því
þessir eiginleikar eru hagrænir fyrir
bændur. Aðspurður hversu langt
ferlið er frá fyrstu tilraunum þar til
kornið sé komið í akra hjá bændum,
segir Hrannar að það líði töluverður
tími. „Þetta er 10 ára ferli ef allt
gengur upp, en eftir það er hægt
að fá nýtt yrki á 4 ára fresti – sem
verður alltaf betra og betra.“
Ísland sjálfbært í kornrækt
Helgi Eyleifur Þorvaldsson, brautar
stjóri búfræðibrautar og aðjunkt
við Landbúnaðarháskóla Íslands,
leiddi vinnu starfshóps ráðherra.
Helgi telur að framtíðarhorfur
íslenskrar kornræktar séu góðar
en fari að miklu leyti eftir því
hvernig stjórnvöldum takist að
vinna úr öllum þeim tillögum sem
settar voru fram í skýrslunni Bleikir
akrar. „Niðurstaðan var sú að
mikilvægast væri að byrja á nýjan
leik á kynbótum korns. Sú vinna
er hafin sem er mjög ánægjulegt.
Við eigum svo von á því með
haustinu að stjórnvöld útfæri með
hvaða hætti fjármagnið, sem búið
er að gefa vilyrði fyrir, komi inn
í greinina.”
Í skýrslunni er tekið fram
að Ísland geti orðið sjálfbært í
kornrækt og annað eftirspurn
markaðarins hérlendis. Aðspurður
hvort að það sé raunhæft markmið
svarar Helgi því játandi. „Það er
raunhæft, ef skýrslan verður útfærð
og framkvæmd, þá já.“ Helgi talar
einnig um að það sé samfélagsleg
ábyrgð okkar að reyna að rækta
allt það sem við getum hér á landi.
„Besta ræktunarlandið er víða búið
í heiminum en hérlendis höfum við
enn nóg af landi. Mannfólki fjölgar
enn þá í heiminum og því ber okkur
skylda að reyna að rækta allt það
sem við getum hérlendis.“
Engin ein töfralausn
Hvað varðar leiðir og útfærslur til
að auka ræktunaröryggi hérlendis,
s.s skjólbelti, skjólskóga, notkun
varnarefna og annað slíkt, telur
Helgi að það verði næstu skref.
„Það þarf ólíkar aðferðir og ólíkar
lausnir á hverjum stað fyrir sig,
það er því miður ekki til nein ein
töfralausn fyrir allt landið því land
er svo misjafnt.“ Hann bætir því
þó við að korn ræktin sé áhættusöm
land búnaðargrein og krefjist
þolinmæðis. „Það er líka mikilvægt
að stjórnvöld hafi þolinmæði
fyrir kornræktinni og haldi áfram
stuðningi við greinina, sérstaklega
fyrstu tíu árin til að koma stöðugum
fótum undir kornræktina hérlendis.“
Til að kornræktin vaxi og dafni hér
sé það líka afar mikilvægt að setja
á laggirnar fagráð í jarðrækt og
tryggingakerfi fyrir bændur.
Það er ljóst að hér er hægt að
rækta korn sem gæti verið stór liður
í því að tryggja fæðuöryggi og efla
íslenskan landbúnað. Spennandi
verður að sjá hvernig næstu ár
þróast í íslenskri kornrækt.
Það er til mikils að vinna ef vel tekst til í íslenskri kornrækt, m.a. að auka fæðuöryggi, tryggja sjálfbærni og efla íslenskan landbúnað.
Helgi Eyleifur Þorvaldsson, brautar-
stjóri og aðjunkt við LbhÍ.
Hrannar Smári, tilraunastjóri Jarð-
ræktarmiðstöðvar LbhÍ.
Kornrækt á Íslandi
• Árið 2013 var um fjórðungur
af orkuneyslu mannkyns úr
korntegundum
• Helsti veikleiki fæðuöryggis á
Íslandi er skortur á korni
• Árið 2022 voru 10.000 tonn af
byggi framleidd hérlendis
• Innflutningur á fóðurbyggi,
fóðurhveiti og mathveiti nam
samtals um 60.000 tonnum
• Talið er að á Íslandi séu um
600.000 ha af góðu ræktarlandi,
93.000 ha eru í notkun
• Árið 2022 var korn ræktað af
293 bændum á 3.450 hektara
landsvæði
• Kynbætur korns hafa legið
niðri í mörg ár en hafa nú hafist
að nýju árið 2023 í samstarfi við
Lantmännen
• Helsta hindrun fyrir vexti
greinarinnar núna er ófullkominn
úvinnsluiðnaður og hár
vinnslukostnaður
• Stofnun kornsamlaga hérlendis
eru nauðsynleg næstu skref til að
annast kaup og sölu á korni
• Áætlanir gera ráð fyrir að
markaður fyrir bygg á Íslandi geti
orðið 35.000-45.000 tonn á ári
innan fárra ára. Virði þess er 1,7-2,2
milljarðar króna
• Á næstu 20 árum gæti markaður
fyrir bygg og hveiti farið yfir
100.000 tonn, eða tífaldast að
stærð.
• Ræktunarkostnaður korns á
Íslandi er sambærilegur miðað við
nágrannalöndin
V i n n u p a l l a r e hf. – Va g n h öfð a 7 – s . 7 8 7 9 9 3 3 – v p a l l a r @ v p a l l a r. i s – w w w.v p a l l a r. i s
H u g a ð u a ð h a u s t i n u , v i ð s é r h æ f u m o k k u r í v i n n u s t a ð a ö r y g g i
F j ö l b r e y t t ú r v a l fi n n u r þ ú á w w w . v p a l l a r . i s