Bændablaðið - 07.09.2023, Page 57
57Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2023
þau að þoka bústofninum í átt að
Aberdeen Angus. En þau telja að það
muni efla enn frekar kjötvinnsluna
og sölu á kjöti búsins.
Heimagerður lífrænt vottaður ís!
Síðasta bændaheimsóknin í þessari
ferð var svo á kúabúið Glasgoforest,
sem er lífrænt vottað kúabú sem selur
bæði drykkjarmjólk og heimagerðan
ís beint frá býli. Búið er með 140
Holstein kýr og er í eigu bræðranna
William og Angus Willis og fjölskyldna
þeirra. William tók á móti hópnum
og fór yfir reksturinn sem er í dag
ansi umsvifamikill enda ísgerðin
og mjólkursalan vinsæl meðal íbúa
Aberdeen en búið er, líkt og Marshalls,
skammt frá borginni.
Nánast 100% heimaaflað fóðurgras
Eins og áður segir er búið með lífræna
vottun og er markmið bræðranna að
framleiða sem mest af mjólkinni með
heimaöfluðu fóðri sem samanstendur af
grasbeit, votheyi og heilskornu byggi og
ertum. Þannig fá kýrnar nánast ekkert
kjarnfóður á þessu búi og einungis kýr
sem mjólka meira en 25 kg á dag fá 0,4
kg af kjarnfóðri fyrir hver kíló mjólkur
sem þær mjólka umfram það. Vegna
þessarar fóðrunar eru kýrnar nytlágar,
miðað við að um Holstein kúakynið er
að ræða, og er meðalnyt búsins ekki
nema rétt um 6,5 tonn á kúna.
Mjólkar einu sinni á dag
Á þessu svæði er hægt að beita kúnum
í átta mánuði á ári og stillir William
burð kúnna af miðað við að þær séu
sem mest geldar á meðan hinni fjögurra
mánaða innifóðrun stendur. Á þeim
tíma er jafnframt dregið úr mjöltum
og kýrnar einungis mjólkaðar einu
sinni á dag. Þetta skýrir enn frekar
hina lágu nyt kúnna enda þekkt að kýr
sem einungis eru mjólkaðar einu sinni
á dag mjólka mun minna en þær sem
eru mjólkaðar tvisvar á dag, svo ekki
sé nú talað um oftar en það.
Stýrir beitinni með snjallsímaforriti
Til búsins heyra um 120 hektarar af
landi og er stór hluti þess nýttur til
beitar fyrir kýr og geldneyti.
William sagði að kýrnar fái nýtt
beitarstykki á hverjum einasta degi
og að hann notaði grasþéttnimæli til
þess að ákvarða beitina.
Niðurstöður daglegra grasþéttni-
mælinga slái hann svo inn í
snjallsímaforrit (App) sem metur
sjálfkrafa fyrir hann beitargæðin
og reiknar forritið út hvað beitin
á að geta gefið mikið fóður af sér.
Forritið reiknar svo út, miðað við
gefnar forsendur Williams, hve stórt
beitarstykki næsta dags eigi að vera.
Hann færir svo til rafmagnsgirðingu
í samræmi við leiðbeiningar
forritsins!
Eingöngu með kyngreint sæði
Aðspurður um sæðingar á búinu sagði
William að hann þyrfti að fá um 40
kvígukálfa árlega, til að viðhalda
stofninum, og til að framleiða þær
sæddi hann 80 kýr með kyngreindu
sæði. Um 50 þeirra festi fang við fyrstu
sæðingu og þar sem kyngreint sæði er
ekki 100% hreint þá gefur þessi fjöldi
sæddra kúa nógu margar kvígur.
Kýrnar sem ekki halda í fyrstu
sæðingu fái ekki annan möguleika
og séu við næsta beiðsli sæddar með
holdasæði eins og hinar sem ekki
voru valdar í úrvalshópinn. Hann
notar einnig einungis kyngreint
holdasæði og þá auðvitað á höttunum
eftir nautkálfum. Sagði hann að
blendings nautkálfar af Holstein
og góðu holdakyni væru seldir á
fimmfalt hærra verði en hreinræktaðir
nautkálfar af Holstein kyni. Það væri
því mikill akkur í því að sæða kýrnar
með kyngreindu holdasæði.
4% veltunnar opinber stuðningur
Kúabúið framleiðir árlega um 800 tonn
af mjólk og þar af fara um 600 tonn í
afurðastöð en 200 tonn eru seld yfir í
ferðaþjónustuhluta rekstursins. Að sögn
William er velta búsins um 750 þúsund
pund, eða um 128 milljónir króna, en af
þessari upphæð er opinber stuðningur
ekki nema 30 þúsund pund, eða um
4% af heildarveltu búsins. Sagði hann
styrki og almenna fyrirgreiðslu hafa
farið lækkandi undanfarin ár og muni
lækka enn frekar á komandi árum. Í
raun geri skoskir bændur ráð fyrir því
að skoski landbúnaðurinn verði að fullu
styrkjalaus innan örfárra ára.
30 starfsmenn
Eins og áður segir er þetta bú með
hliðarrekstur sem felst í því að selja
drykkjarmjólk beint frá býli úr
sérstökum sjálfsölum sem gerilsneyða
mjólkina sjálfkrafa. Þá er í raun aðal
hliðarreksturinn sérstök ísgerð sem þeir
bræður hafa nú starfrækt í 6 ár.
William sagði að við allan reksturinn
störfuðu í dag 30 manns en þar af
væru einungis tveir sem kæmu nálægt
kúabúskapnum. Allir hinir væru tengdir
sölu- og framleiðslunni á ísnum enda
hann orðinn mjög vinsæll. Þá rækju
þeir bræður einnig nokkra ísbíla sem
þeir staðsetja m.a. á mannamótum þar
sem ísinn er afgreiddur beint til fólks.
Allur hópurinn fékk svo að skoða
ísgerðina og auðvitað að smakka og
getur greinarhöfundur vottað það að
ísinn var ljómandi góður og skal engan
undra að hann sé orðinn vinsæll meðal
íbúa Aberdeen og nágrennis.
Selur lítrann á 238 krónur
Þó svo að ísgerð búsins sé þessum
hliðarrekstri mikilvægust þá er hin
beina sala á mjólk einnig mjög vinsæl
meðal viðskiptavina búsins og komu
margir við meðan á heimsókn hópsins
stóð og keyptu sér mjólk í eigin
flöskur og brúsa. Hin beina mjólkur-
og íssala veltir í dag meiru en kúabúið
veltir og nemur árleg velta þessarar
hliðarbúgreinar milljón pundum, eða
um 170 milljónum íslenskra króna.
William sagði að þetta væri í raun afar
góður rekstur og að arðsemin væri
góð enda eru þeir bræður ekkert að
selja mjólkina sína í samkeppni við
hefðbundna mjólk í verslunum.
Fólk sem kaupi mjólk beint af býli
eigi að borga mun meira í samanburði
við verðlag í verslunum, enda felast
verðmæti í því að vita nákvæmlega
um uppruna vörunnar sem eigi að
borga aukalega fyrir. Þess vegna er
lítrinn seldur á 1,4 pund, eða 238
krónur, þegar hann er keyptur beint
af búinu, en til samanburðar er
algengt verð á einum lítra af lífrænt
vottaðri mjólk 160–175 krónur í
lágvöruverðsverslunum Skotlands.
Heimsóknin á þetta kúabú var eins
og áður segir síðasta bændaheimsóknin
í ferðinni sem voru hver annarri betri.
Þessari viðburðarríku ferð lauk svo
á Royal Highland Show, en þeirri
sýningu var gerð góð skil í 14. tbl.
Bændablaðsins nú í sumar.
Séð heim að búinu Glasgowforest og ferðaþjónustu búsins sem kallast Forest Farm. Myndir / Snorri Sigurðsson
Það eru ekki mörg sveitabýli í heimin-
um sem reka bílalúguþjónustu en
Marshall-búið er a.m.k. eitt þeirra.
Kjötborð verslunar Marshall svignaði nánast undan vöruframborðinu. Hér
sést þó einungis hluti þess.
Vinsamlega hafið samband við Björgvin Guðjónsson, búfræðing
og löggiltan fasteignasala í síma 510-3500 og 615-1020
eða á netfangið bjorgvin@eignatorg.is
Skipholt 50b, 105 Reykjavík
Vegna aukinnar eftirspurnar óskum
við eftir bújörðum á söluskrá
Námsleyfi grunnskólakennara og skólastjórnenda
skólaárið 2024–2025
Stjórn Námsleyfasjóðs auglýsir eftir umsóknum um námsleyfi grunnskóla-
kennara og stjórnenda grunnskóla skólaárið 2024–2025.
Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á heimasíðu Sambands
íslenskra sveitarfélaga, www.samband.is. Umsóknir á öðru formi verða ekki
teknar gildar. Ekki er tekið við viðbótargögnum og því verða allar upplýsingar að
koma fram í umsókninni. Umsóknarfrestur er til og með 10. október 2023.
Umsækjandi sem æskir námsleyfis skal að lágmarki fullnægja eftirfarandi
skilyrðum, sbr. reglur um Námsleyfasjóð:
a) Hafa, þegar sótt er um námsleyfi, gegnt starfi í 10 ár samtals við kennslu,
ráðgjöf eða stjórnun í grunnskóla á Íslandi, í eigi minna en hálfu starfi, og verið
samfellt í starfi sl. fjögur ár, enda hafi verið greitt fyrir umsækjanda í sjóðinn.
b) Vera fastráðinn starfsmaður sveitarfélags eða aðila sem stofnað er til með
samstarfi sveitarfélaga og taka laun samkvæmt kjarasamningi Sambands
íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna grunnskólans.
c) Ljúka á námstímanum 60 ECTS eininga háskólanámi, eða jafngildu
háskólanámi, miðað við 1/1 námsleyfi, og skal námið miða að því að nýtast
viðkomandi í því starfi sem hann er ráðinn til að sinna.
Með umsókn þarf að berast staðfesting sveitarfélags/skólastjóra, eða eftir atvikum
rekstraraðila skóla, um að skilyrðum a) og b) liðar hér að ofan sé uppfyllt á þar til
gerðu eyðublaði sem nálgast má á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Reglur um Námsleyfasjóð og viðmiðunarreglur um laun í námsleyfi er að finna á
heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og eru umsækjendur hvattir til að
kynna sér þær.
Við mat á umsóknum er haft til hliðsjónar hversu vel hún er rökstudd, hversu skýr
markmið hennar eru, hvernig námið nýtist umsækjanda í núverandi starfi og
stofnuninni sem hann vinnur hjá eða skólakerfinu í heild.
Stefnt er að því að svarbréf berist umsækjendum rafrænt á www.island.is eigi
síðar en um miðjan desember 2023.
Nánari upplýsingar veitir Anna Ingadóttir í tölvupósti,
á anna.ingadottir@samband.is
Hluti af fjölbreyttu vöruúrvali í verslun
Marshall-búsins.