Stuðlaberg - 01.12.2016, Qupperneq 7
STUÐLABERG 2/2016 7
nándin nafnlausa,
hugarins heiðu kynni,
sálarbirtan.
Sólin þar inni.
Að lokum langar mig til að kynna fyrir
lesendum blaðsins eitt ljóð enn. Það heitir
Lítil vísa um laufblað:
Ég sé hvar svífur laufblað
um mosamó og rinda
og eitthvað skylt með okkur
hið innra bærast finn
og þar sem þetta laufblað
á valdi regns og vinda
af hending flug sitt fellir
er fólginn lífsteinn minn.
Bókin Núna er auk alls annars fagur óður
til hinnar fornu braghefðar. Þökk sé Þorsteini
frá Hamri fyrir það.
Töltir létt um gróna grund
Út er komin bókin Ég lít til baka, ljóðmæli
eftir Jón K. Friðriksson á Vatnsleysu. Útgef
endur eru Ásdís Björnsdóttir og fjölskylda.
Jón var fæddur að Stærra-Árskógi árið 1941
og lést 2004. Hann var búfræðingur frá
Hólum og bjó lengst af ásamt konu sinni,
Árdísi Maggý Björnsdóttur, á Vatnsleysu í
Viðvíkursveit í Skagafirði. Hann var kunnur
fyrir hrossarækt sína og gegndi ýmsum
trúnaðarstörfum fyrir hrossaræktendur. Þau
hjónin opnuðu veitingastað á Vatnsleysu,
Fjallakrána, og ráku hana við miklar vin
sældir í nokkur ár.
Bókin samanstendur fyrst og fremst af
hestavísum og svo tækifærisljóðum ýmiss
konar, afmæliskveðjum, vísum og kvæðum
til barnanna og öðru í þeim dúr, yfirleitt ljóm
andi vel ort, létt og leikandi. Í bókinni eru auk
þess birtar myndir af málverkum eftir bróður
Jóns, Eðvald Friðriksson, og þeim fylgja ljóð
eftir Jón.
Hér á eftir fara nokkur af ljóðum Jóns:
Norðurljósin
Norðurljósin ljúft sér dilla,
litlar stjörnur mánann hylla.
Glitrar á fannir fram í dölum,
fullt af skrauti í himnasölum.
Það er eins og vetrarvættir
vilji bjóða öllum sættir.
Höfga gleði að huga setur,
hafðu þökk, þú gamli vetur.
Lokkur
Lokkur eykur lífsins þrá,
leiða eyðir mínum.
Spilar glettinn grundu á
glatt með fótum sínum.
Töltir létt um gróna grund,
grýtta og slétta veginn.
Togar glettinn taum úr mund,
tekur sprettinn feginn.
Vorvísa
Blómin í hlíðinni brosa mót sól
bláklukkur, lambagras, smári.
Burknar í forsælu búa sér skjól,
bíða eftir döggvotu tári.
Ég lít til baka er falleg bók og vel unnin.