Stuðlaberg - 01.12.2016, Side 33
STUÐLABERG 2/2016 33
„atómljóð“ voru að ryðja sér til rúms, sköp
uðust um það miklar deilur. Jón úr Vör, sem
stóð beggja vegna víglínunnar, orti:
Ekki þarf að gylla gull.
Gullið verður ætíð bjart
og alltaf verður bullið bull
þó búið sé í rímað skart.
Það mun hafa verið Steinn Steinarr sem
svaraði:
Gull er gull og bull er bull.
Bilið jafnan nokkuð var.
Jón er Jón og flón er flón
en fjarlægðin er minni þar.
Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir sléttu
bönd. Um tilefnið er ekki vitað:
Lyndi nærir, hvergi hér
hróður braga veikir.
Yndi færir, síður sér
sjálfum mikið hreykir.
Ef mönnum sýnist svo er hægt að lesa vís
una aftur á bak.
Á árinu sem er að líða var breytt lögum um
barnabætur á þann veg að fólk sem eignast
barn eftir miðjan október fær stórum hærri
bætur en ef fæðingin á sér stað fyrr. Annað
eins hefur orðið hagyrðingum að yrkisefni
gegnum tíðina og Hjálmar Freysteinsson orti
um þetta:
Í mörgu við fáum að mæðast,
misskipt lukkunni er;
ferlegur bömmer að fæðast
14. október.
Bjarni Sigtryggsson orti fyrr á árinu:
Þegar lífsins losnar hönd,
ég leysi festar, held frá strönd.
Við hliðið gullna geng á fund til spyrla.
Skil ég eftir skrokk og önd
skuldir, dóma, ökklabönd.
Laus til himna líður herrans þyrla.
Þær voru hálfsystur, Bergþóra Sölvadóttir,
Jóhanna Lúðvíksdóttir og Elín Snædal, dætur
Margrétar Þorkelsdóttur á Skjöldólfsstöðum.
Þær hittust í afmælisveislu og fengu andann
yfir sig. Þetta var stuttu eftir útkomu bókar
sem bar það umdeilda heiti „Eldhúsmellur“
og í þriðju línu vísunnar er vísað til þess.
Hyllum snjalla stöllu allar,
stilling kalla fallin ella
milli palla mellan lallar
mallar velling öllum kella.
Þarna var brageyrað sannarlega í góðu lagi.
Vigfús M. Vigfússon yrkir ljóð undir limru
formi og kallar það Núvitund:
Ég ætlaði að nýta mér núið
‒ en naumast hvað það er nú snúið.
Ég undirbjó vel
allt sem ég tel
að þurfi, en þá var það búið.
En er þetta eitthvað svo snúið;
að afskrifa það sem er búið,
ef vandlega þá
fólk venur sig á
að una við nýjasta núið?
Gunnar M. Sandholt yrkir um uppskeruna
að hausti:
Nú grasið er fallið og fölnuð er vorsins þrá
fokið er laufið en uppskeran lítil, því miður.
Mennirnir ku víst uppskera eins og þeir sá.
Eitthvað var lítið í vor sem ég setti niður.
Við endum á haustvísu eftir Gunnar J.
Straumland. Það er óvenjulegt, þegar beitt er
bragarhætti sem byggist á þríliðum, eins og
hér er gert, að hafa vísuna bæði hringhenda
og oddhenda. En Gunnari ferst þetta vel úr
hendi eins og sjá má:
Gránar í hlíðum og gljákornin fríð
glitra í víðáttumyndum.
Skýfáki ríður nú skammdegistíð,
skefur með hríð undan vindum.
RIA.