Stuðlaberg - 01.12.2016, Síða 22

Stuðlaberg - 01.12.2016, Síða 22
22 STUÐLABERG 2/2016 Í Lux ríkir sunnudags ljúfur andinn og Labradortíkin er glöð. Flundrumst Mælifells flatan sandinn, fimmta daginn í röð. Heiða var að keyra heim hey frá Svínadal, þar sem hún fær slægjur á hverju ári. Þar var heldur meira um að vera eins og sést á svarinu. Strekkiborðar á sinn stað settir, svo er púllað af fullum krafti, losnar þá krókur og lúkan réttir löðrung vænan að eigin kjafti. Mér fannst þetta undarlegt athæfi – að vera að gefa sjálfri sér á kjaftinn og sendi þetta til baka: Launhált er mörgum á lífsins stig og leiðindi í sálarhorni, ‒ en fæstir berja þó sjálfan sig sunnudags á morgni. Eins og sést á þessu er ekki alltaf dýrt kveðið í þessum samskiptum – enda til­ gangurinn fyrst og fremst að hafa gaman af öllu saman. Heiða Guðný: Við systur kveðumst mikið á. Eitt sinn á fósturtalningavertíð taldi ég mig að morgni dags hafa verið að berjast við möru alla nóttina og árið eftir gistum við teljararnir aftur á sama bæ og ég kveið mjög nóttinni í þessu draugabæli. Þegar ég var að fara að sofa fannst mér ég heyra í tjaldinum, það var þriðji mars og hávetur á Vestfjörðum þar sem þessi bær er og ég taldi víst að þetta væri nýtt herbragð hjá draugsa og kom ekki dúr á auga alla nóttina. Morguninn eftir var bóndinn svo í sólskinskapi og sagði okkur um leið og við komum fram að við hefðum komið með vorið með okkur því tjaldurinn væri kominn í fjör­ una. Skömmustuleg sendi ég systrum mínum: Með titrandi taugarnar öru ég taldi mig heyra í möru og lagði á flótta, hálflömuð af ótta, við nýlentan fugl niðr' í fjöru. Ásta svaraði um hæl: Margt hljómar mörunnar stefið og mönnum er lítt um það gefið; en drepast víst má draugurinn sá fyrst tjaldurinn tók hana í nefið. Og Fanney var skjót til svars: Skammt dugar skaftfellska þorið og skjálfandi verður margt sporið ef á taugum þig tekur hver tjaldur sem rekur upp skræk, til að vegsama vorið. RIA. Haustlægð Sigurlín Hermannsdóttir yrkir tersínu, eða þríhendu, eins og hún nefnist á íslensku. Haustið kom með látum liðna nótt, það lamdi utan húsið, veggi og þil og sá til þess ég svæfi ekki rótt. Mér bregður æ við bráðlynd veðraskil því bara í gær var sumarið svo hlýtt ég hélt það entist annan mánuð til. En von mín um að veðrið héldist blítt, til verka hefði ennþá nokkurt tóm að engu varð og tregi tjóir lítt. Nú hefur Kári kveðið upp sinn dóm með kuldasvip hann tætti laufið allt og traðkaði og braut mín sumarblóm. Hann færir okkur veður vott og kalt en vindurinn með fjandskap hvína lét í þakrennu sem þytinn endurgalt. Og rigningin á glugga mína grét. Með gnauði sem að drepur allan þrótt hún bráðum gæti breyst í vetrarhret. Já, haustið kom með látum liðna nótt.

x

Stuðlaberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.