Goðasteinn - 01.09.1966, Qupperneq 59
hlut minn að smala ánum. Veður var eins og bezt verður ákosið,
en þokuslæða lá yfir jörðinni og var að byrja að grisja í hana. Ég
var komin austur með svonefndri Keldu, sem lá úr Beruflóði, og
byrjuð að smala ánum austur um Skarðsmýri, er ég heyrði skyndi-
lega söng margra manna - og ég þekkti lagið og ljóðið. Það var
sálmurinn: Allt eins og blómstrið eina. Hann var sunginn með
gamla líksöngslaginu, angurvært mjög og fallega. Ég leit í áttina,
sem söngurinn kom úr, og sá þá hóp af ríðandi fólki skammt frá, á
leið upp eftir mýrinni. Framarlega eða fremst í hópnum sá ég
svarta líkkistu flutta um þverbak, að mér sýndist á tveimur sam-
hliða hestum. Ég veitti því sérstaka athygli, hve hestarnir, sem
fólkið reið, voru fallegir á að líta. Ekki var ég í nokkrum vafa um,
að þetta væri líkför hjá huldufólki, svo kjarkurinn bilaði með öliu.
Ég hóaði í ákafa á fé mitt heim á leið og hirti ekkert um, þótt
eitthvað yrði eftir í mýrinni. Skömmu seinna leit ég um öxl og
hópurinn, undarlegi, var ekki horfinn sýnum, aðeins hafði hann
fjarlægzt upp í melana.
Þessi sýn hafði mikil áhrif á mig. Kom ég aldrei á þessar slóðir
svo lengi á eftir, að ég óttaðist ekki að sjá eitthvað óvenjulegt.
Gamla fólkið taldi, að huldufólkið ætti sér kirkju upp á Feðgum,
í kletti við Eldvatnið, og iíkfylgdin hafði stefnu í þá átt, er ég sá
hana síðast.
Sögn Steinunnar Ásmundsdóttur á Syðri-Fljótum í Meðallandi.
Ath. Var ekki horft þarna inn í horfna öld? Hin forna sóknar-
kirkja Meðallendinga stóð skammt ofar, á Skarðsmelum, fram
á 18. öld. Þ. T.
III
Skerflóðs-Móri?
Það hefur líklega verið sumarið 1903, sem þessi atburður gerðist.
Ég var þá sjö ára og átti heima hjá afa og ömmu í Grímsfjósum á
Stokkseyri. Dag nokkurn um hásláttinn var ég einn heima með
ömmu og barni á fyrsta ári. Amma var frammi í eldhúsi við störf
sín, en ég var inni í baðstofu og gætti ungbarnsins. Var búið um það
á gólfinu. Ég sat þar hjá, en hugurinn var víst fremur úti en inni.
Sól skein í heiði.
Goðasteinn
57