Goðasteinn - 01.06.1974, Side 81
ár. Enda venja Þórðar að segja „upp á“ í merkingunni, treysta
á, reiða sig á þetta eða hitt.
Hér fyrr meir, þegar vinnuhjú voru á flestum heimilum, og á
stórum heimilum mörg, var verkaskipting á heimilum meiri en
síðar varð, að ég ekki tali um nú á tímum. Eitt sinn var Þórður
gamli spurður, hvaða störfum þessi og hinn á heimilinu, sem
hann var á, gegndi. Sagði hann víst þar um eins og það var.
Þegar röðin kom að heimasætunni á bænum, hvaða störf hún
hefði á hendi, svaraði karlinn: ,,Hu, hún gerir ekki annað en
tennsa sig!“
Með orðinu ,,tennsa“ átti hann víst við það, sem nú á dögum
er kallað snyrting.
Sigurður Oddsson, langafi minn, var síðustu æviár sín í Knarr-
arnesi hjá vini sínum, Ásgeiri, föður Bjarna á Reykjum, er lengi
var þingmaður Mýramanna, ráðherra, sendiherra o. fl. Einhverju
sinni voru 2 eða fleiri af vinnukonunum í Knarrarnesi að leggja
af stað í kynnisferð upp í sveit, og komnar út á hlað, en þangað
fylgdi þeim eitthvað af hinu heimilisfólkinu. Rankar þá ein þeirra
við sér og segir: „Við gleymdum að kveðja hann Sigurð gamla,
við biðjum bara að heilsa honum.“ Þegar kveðjunni var skilað
til gamla mannsins, segir hann: „Guð blessi þær, og fylgi þeim,
það er að segja ef hann nær þeim.“
En um það virtist karlinn vera í nokkrum vafa, fyrst þær hröð-
uðu sér svo, að þær gáfu sér ekki tíma til að kveðja hann.
Herdís, dóttir Sigurðar Oddssonar, þess er að ofan getur, giftist
Einari Bjarnasyni í Straumfirði, og þar bjuggu þau. Einar var
móðurbróðir Bjarna Þorsteinssonar, prests og tónskálds og þeirra
systkina. Einhverju sinn var Sigurður gamli spurður að, hvort
Herdís dóttir hans hefði vinnukonu. Karlinn svarar: „Ojæja, það
er nafnið, og sköpunin, að ég held.
Vinnukonan, sem hér um ræðir, var unglingsstúlka, um ferm-
ingaraldur, óvenju smávaxin.
18.des. 1962.
Goðasteinn
79