Goðasteinn - 01.06.1976, Síða 28
Alltaf var hlakkað til réttanna, allri tilbreytingu var tekið með
ánægju, það var ekki svo mikið uni hana. Réttarböll voru þá enn
ckki komin til sögunnar.
Sláturgerð var mikil á haustin, miklu var slátrað heima og
alltaf var þá sótt slátur til Víkur í Mýrdal. Slátur var mest mat-
björg fólksins fram eftir hausti, kýr voru fáar og haustnytin sjaldn-
ast há í skjólunum. Á búi foreldra minna voru ekki nema þrjár
kýr framan af árum.
Þegar kom fram yfir veturnætur, var sest að tóvinnunni. Meðan
við börnin vorum svo ung, að ekkert var hægt að láta okkur gera
til gagns, vorum við látin hátta fyrir kvöldmat og fengum matar-
diskana okkar á rúmfjölina og lékum okkur svo að kögglum og
kjálkum, er aðrir settust að vinnu. Pabbi las sögu á kvöldvökunni,
cf enginn liðléttingur var fær í það. Bræður mínir gerðu það svo
af og til, er aldur óx, en pabbi vann þá hrosshár eða saumaði
sjóklæði. Lesturinn lífgaði vökuna, ekki síst ef sagan var veru-
lega góð, og alltaf endaði hún með því að pabbi las húslesturinn
í Péturshugvekjum og endaði á Faðirvorinu og allir þökkuðu fyrir
lesturinn í lokin.
Um leið og ég kunni að taka lykkju á prjónana, lét mamma
mig sitja við rúmið sitt á skrínu og prjóna og svo kemba, þegar
ég gat. Ég kembdi síðan í hendur henni, því hún var biluð í hand-
legg og þoldi ekki að kemba en spann þeim mun meir og betur.
Ollum var haldið vel til vinnu.
Þegar jólafastan gekk inn, var skammtað hangikjöt frá árinu
áður og var gott. Kjallari var undir baðstofunni, góð matargeymsla
fyrir kjöt og slátur. Allir hlökkuðu til jólanna, þó undirbúningur
væri þá rninni en nú gerist. Allir fcngu eitthvað nýtt í að fara,
kvenfólk og börn bryddaða sauðskinnsskó og karlmenn leðurskó.
Allir fengu líka nýja sokka og einhverja flík. Sá klæddi jólakött-
inn, sem ekki fékk einhverja flík.
Allt var fágað og þvegið eftir föngum og svo bakaðar kleinur,
jólakaka og lummur. Mér fannst oft lengi að iíða aðfangadagur
fram á kl. 6. Reynt var að vera áður búið að ljúka öllum verkum
og allir klæddu sig í betri fötin. Jónas föðurbróðir gaf okkur
börnunum nokkur smákerti, pabbi og mamma gáfu okkur saman
26
Goðasteinn