Goðasteinn - 01.06.1978, Side 87
af harðfiski og kakódós. Kjötdósirnar áttu að þjóna því hlutverki
að vera pottar, þegar þær tæmdust.
Ekki gerðum við uppskátt um fyrirætlanir okkar fyrr en daginn
áður en farið var af stað. Sú var ástæða fyrir því, að ef gert hefði
hlýindi og rigningu í upphafi ferðarinnar, töldum við tilgangslaust
að leggja af stað, því þá hefði Skaftá undir Fögrufjöllum þegar
orðið ófær gangandi mönnum, og ekkert orðið úr neinu ferðalagi,
og þá væri betra að hafa aldrei á þetta minnst við aðra.
En þar sem ferðin var nú ráðin, var ekki annað fyrir en að búa
sig af stað og binda í bagga. Við nestið bættist hangikjöt og smjör
frá Marínu, móður Runólfs, og steinolía á prímusinn. Marín stakk
í pokann ullarlagði og sagði að gott væri að hafa hann, ef maður
yrði sár á göngu, og kom hann mér í góðar þarfir síðar. Sömuleiðis
fékk hún mér ullarsokka og vettlinga, þótti henni búnaður minn
víst ekki vera beysinn. Sokkana á ég enn til minningar um hana.
Báðir höfðum við bakpoka á grind eins og enn tíðkast, og hvíldi
þunginn því á öxlum og mjóhrygg. Fatnaður okkar var venjuleg
ígangsföt þeirra tíma. í bakpokana var látið nestið ásamt þurrum
nærfötum. Ofan á pokana var tjaldið bundið ásamt tveim ullar-
teppum vöfðum innan í vatnskápur okkar. Utan á pokana voru
festir steinolíubrúsar og skór til vara. Tjaldsúlurnar notuðum við
sem göngustafi, voru þær smíðaðar af Runólfi og voru með broddi
að neðan.
Björn í Holti, faðir Runólfs, reiddi okkur norður fyrir Galta á
Síðuafrétti. Þegar þangað var komið, var stigið af baki og Björn
kvaddur. Um stund stóðum við á hraunbrúninni og horfðum á
cftir Birni þar sem hann fjarlægðist. í mér var hálfgerður hrollur
við það sem framundan var. I fimm ár hafði atvinna mín verið
sjómennska, og var ég því að mestu óvanur göngum. Óttaðist ég
að verða of mikill dragbítur á Runólf, sem var að öllu vanari
göngum. Það reyndist líka verða svo að gönguhraðinn miðaðist
alltaf v.ið getu mína, en ekki Runólfs, á honum sáust aldrei nein
þreytumerki.
En nú varð ekki aftur snúið. I Holti höfðu bakpokarnir verið
vegnir og voru þeir í upphafi ferðar 21 kg hvor. Voru þeir nú axl-
aðir og þeim hagrætt og gangan hafin. Fyrsti áfangi var um hraunið
vestan við Laka, vestan Lambavatns, austan Lyngfells og norður
Goðasteinn
85