Sveitarstjórnarmál - 2021, Blaðsíða 31
FORSÍÐUVIÐTAL
31
Ungmenni mynda hjörtu við dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól við upphaf Covid-19 bylgjunnar
2020. Ljósm.: Tómas Freyr Kristjánsson.
gróskuskeið og mjög ánægjulegt að fá að
stýra þessum verkefnum og taka þátt í
uppbyggingunni.
Þegar ég varð aftur bæjarstjóri 2018
blasti við talsvert önnur staða. Í millitíðinni
hafði orðið efnahagshrun og skuldastaða
bæjarins var frekar erfið en fór þó
batnandi. Tekjur bæjarins eru lakari en
áður, útsvarið virðist vera að gefa eftir, en
nokkur fækkun íbúa hefur einnig sitt að
segja. Við stefndum hraðbyri að þúsund
íbúum þegar ég hætti 2006 en nú erum
við á róli undir 900 íbúum. Fækkunin er
meiri í yngri aldurshópunum. Fólk lifir
lengur og eignast færri börn. Þetta er
bara þróun sem víða blasir við.
Grunnskólabörn hér voru um 220 þegar
mest var en eru komin niður í rúmlega
100 og er heldur á uppleið.
Þá hafa orðið ýmsar breytingar í
atvinnuháttum. Útgerðum hefur
fækkað og samþjöppun orðið í
sjávarútvegi, skipin eru færri og stærri
en áður og vinnslan mun tæknivæddari.
Grundarfjarðarbær hefur yfir helming
útsvars frá veiðum og vinnslu. Aðrar
atvinnugreinar eru mun minni.“
Þurfum meiri tekjur af
ferðamönnum
Fækkun íbúa og breytingar í
atvinnuháttum hafa haft mikil áhrif á
tekjur Grundarfjarðarbæjar. Björg segir að
Jöfnunarsjóðstekjur bæjarins hafi verið í
nánast frjálsu falli samhliða íbúafækkun
og baráttan um tekjurnar er hörð. Mörg
sveitarfélög eru í sambærilegri stöðu, að
sögn Bjargar.
Ferðaþjónusta í Grundarfirði tók mikinn
kipp á árunum fyrir Covid-19 en varð fyrir
miklu áfalli þar eins og annars staðar
þegar faraldurinn skall á. Helsta einkenni
bæjarins, Kirkjufellið, varð skyndilega
heimsfrægt og ferðamenn dreif að til
að mynda það og skoða jafnframt hinn
fagra Kirkjufellsfoss. Björg segir að
fjölgun ferðamanna hafi vissulega verið
mikil lyftistöng en jafnframt áskorun fyrir
sveitarfélagið og landeigendur.
„Þar sem eru ferðamenn í stríðum
straumum, þar þarf að byggja upp
áningarstaði og innviði á borð við
bílastæði, göngustíga, útsýnispalla
og fleira. Auk þess þarf að bæta
upplýsingagjöf og aðra þjónustu. Nú
renna tekjur af ferðamönnum fyrst
og fremst í ríkissjóð en sveitarfélög
skortir sárlega tekjustofn til að byggja
upp innviði. Því sveitarfélögin standa
klárlega í mikilli uppbyggingu innviða fyrir
atvinnugreinina ferðaþjónustu, ekkert
síður en ríkið.
Ef við hugsum um uppbyggingu
hafnaraðstöðu, þá er þar fyrir hendi klár
tekjustofn; hafnargjöld. Það eru tekjur
sem renna í hafnarsjóði og standa undir
hluta sveitarfélaganna í uppbyggingu
hafna, á móti hluta ríkisins. Þær tekjur
hafa gert kleift að bæta hafnaraðstöðu
með afar jákvæðum áhrifum á atvinnulíf,
útgerð, fiskvinnslu og þjónustu við þessar
greinar.
Sveitarstjórnarmönnum líður svolítið eins
og betlurum gagnvart ríkisvaldinu þegar
kemur að úthlutun fjármagns vegna
uppbyggingar ferðaþjónustu. Við höfum
Framkvæmdasjóð ferðamannastaða
sem var ágæt lausn í hraðri þróun
á sínum tíma, en hann dugir ekki til.
Miklu eðlilegra væri að hluti af tekjum
ríkissjóðs af ferðamönnum rynni
til sveitarfélaga. Fasteignagjöld af
húsnæði í ferðaþjónustunotum eru mjög
mismunandi eftir sveitarfélögum og
standa alls ekki í samhengi við útgjöld
þeirra við uppbygginguna. Útsvar
starfsfólks í ferðaþjónustu stendur heldur
ekki undir þörfinni fyrir uppbyggingu og á
í raun frekar að renna til þjónustunnar við
greiðendur þess,“ segir Björg.
Breytt íbúasamsetning
Hún ólst upp í frekar einsleitu og nánast
alíslensku umhverfi. Nú hefur orðið mikil
breyting þar á. Þegar hún stóð upp úr stól
bæjarstjóra 2006 voru erlendir ríkisborgar
um sex prósent íbúa í Grundarfirði. Þegar
hún sneri aftur 2018 voru þeir orðnir um
18 prósent íbúanna og eru Pólverjar
fjölmennastir í þeim hópi.
„Þetta er mikil samfélagsbreyting sem
við þurfum að bregðast við. Að búa í