Sveitarstjórnarmál - 2021, Page 33
FORSÍÐUVIÐTAL
33
vinna að þessum málum í sínu horni
og bæjarstjóri fékk grátandi fólk inn á
skrifstofu til sín í örvæntingarfullri leit
að aðstoð. Fjölbrautaskólinn er að vísu
rekinn af ríkinu, en sveitarfélögin hafa
fylkt sér um hann og stutt að svo mörgu
leyti og hann er gott dæmi um ávinning
góðrar samvinnu.
Sérfræðingar sem við þurfum á að
halda eru eftirsóttur vinnukraftur í ýmiss
konar þjónustu sem við veitum. Ég nefni
skipulags- og byggingarmál, menntun,
skólaþjónustu og félagsþjónustu. Fólk vill
vinna í stærri teymum, eiga starfsfélaga
sem sinna sams konar verkefnum og
eiga þar stuðning vísan í viðfangsefnum
dagsins. Viðfangsefnin okkar verða líka
sífellt flóknari – það er þörf fyrir breiðari
nálgun, þverfaglega vinnu og aðkomu
margra. „Gamli byggingarfulltrúinn, sem
sinnti skipulagsmálum, byggingarmálum,
veitumálum og fjölbreyttum tæknilegum
verkefnum, hann er ekki lengur það sem
fólk vill hafa á herðunum.
Við eigum að sameina sveitarfélögin og
mynda teymi til að sinna stærri svæðum.
Stærsti ávinningur sameiningar er þó
án efa sá, að það verður auðveldara að
vinna með þau tækifæri sem svæðið býr
yfir og 4.000 manna samfélag, með hefð
fyrir samvinnu, hlýtur að hafa talsvert
meiri vigt í margs konar samhengi. En
auðvitað þarf að vanda til verka og finna
rétta tímapunktinn,“ segir Björg.
Skipulagið mikilvægt verkfæri
Hún býr að gríðarlegri reynslu í
skipulagsmálum eftir að hafa verið
bæjarstjóri í 14 ár og unnið þess á
milli fyrir ráðgjafarfyrirtækið Alta í 12
ár en fyrirtækið veitir meðal annars
sveitarfélögum ráðgjöf um skipulagsmál.
Eitt af fyrstu verkum Bjargar eftir að hún
sneri aftur í starf bæjarstjóra var að ljúka
við gerð aðalskipulags fyrir tímabilið
2019-2039, en Grundarfjarðarbær hafði
einmitt notið ráðgjafar Alta við gerð þess.
„Aðalskipulagið okkar er mjög
stefnumiðað og praktískt enda er í því
fólgin meginstefna sveitarfélagsins
til 2039. Rétt notað skipulagsferli og
vel unnið aðalskipulag getur verið
eitt öflugasta verkfæri sveitarfélags.
Svæðisskipulag getur sömuleiðis hjálpað
til við að ná utan um hagsmuni og
tækifæri sem svæði eiga sameiginleg.
Svæðisskipulag Snæfellsness frá 2015
gegnir stóru hlutverki og um það hefur
ríkt samstaða hjá sveitarfélögunum á
Snæfellsnesi. Við höfum jafnframt tekið
höndum saman í umhverfismálunum
og Snæfellsnes hefur nú fengið
umhverfisvottun samfélaga. Við höfum nú
fengið hana 13 skipti og erum mjög stolt
af starfinu sem að baki býr. Að mínu mati
er þetta þó verkefni þar sem alltaf þarf
að vera á tánum því breytingarnar eru
hraðar.
Við stofnuðum einnig Svæðisgarðinn
Snæfellsnes 2014 (snaefellsnes.
is) en þar er um að ræða fjölþætt
samstarf sveitarfélaga, atvinnulífs og
félagasamtaka á svæði sem myndar
samstæða landslags- og menningarlega
heild. Samstarfið byggir á sameiginlegri
sýn um sérstöðu svæðisins og
samtakamætti við að hagnýta sérstöðuna
og vernda. Þetta samstarf hefur skilað
margvíslegum árangri.“
„Óviðkomandi aðili“ gagnvart
útsvarinu
Björg er virk í störfum að
sveitarstjórnarmálum á vettvangi
sambandsins, ekki síst hvað varðar
fjármál sveitarfélaga. Hún er einn
af þremur fulltrúum sambandsins
í starfshópi samgöngu- og
sveitarstjórnarráðuneytisins sem unnið
hefur að tillögum um endurskoðun
ákvæða laga um fjármálareglur
sveitarfélaga. Auk hennar eiga Birgir
Björn Sigurjónsson og Sigurður Ármann
Snævarr sæti í hópnum af hálfu
sambandsins.
Björg og félagar hennar í bæjarstjórn
Grundarfjarðar hafa einnig haft
frumkvæði að því að berjast fyrir
umbótum hvað varðar upplýsingagjöf
um útsvar sveitarfélaganna. Hún segir
með ólíkindum að sveitarfélög skuli ekki
fá haldbetri upplýsingar um þennan
mikilvægasta tekjustofn sinn.
„Við hér í Grundarfirði höfum orðið vör
við óútskýrðar sveiflur í útsvarstekjum.
Eins fannst okkur útsvarið hjá okkur
vera að lækka umfram það sem okkur
líkaði. Við reyndum að fá skýringar
á þessu og yfirhöfuð upplýsingar um
samsetningu og uppruna útsvars,
til dæmis eftir atvinnugreinum og
tegundum greiðenda – en án árangurs.
Það hefur sérlega mikla þýðingu á
óvissutímum að þekkja útsvarið og geta
áætlað áhrif af áfalli eða niðursveiflum
í einstökum atvinnugreinum, sem getur
komið mismunandi út í einstökum
sveitarfélögum.
Ríkið – Skatturinn – innheimtir útsvar
fyrir sveitarfélögin og þau greiða vel á
annan milljarð fyrir það á ári. Það eru
til upplýsingar í kerfinu, en það þarf
samstíga vinnu til að breyta þessu.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar vinnur nú að metnaðarfullu verkefni um „Gönguvænan
Grundarfjörð“, á grunni markmiða nýs aðalskipulags. Horft er á þarfir samfélagsins til lengri
framtíðar við endurbætur á gangstéttum og stígum, sem eru breikkaðir verulega, tengingar og
aðgengi bætt. Gróðri er bætt við með “blágrænum svæðum” sem taka vel við regnvatni og létta
álagi af holræsakerfi bæjarins.