Sveitarstjórnarmál - 2021, Side 36
SVEITARSTJÓRNARMÁL
36
götur síðan. Móðir hennar og yngri systur
ílentust hins vegar fyrir sunnan og er
móðir hennar nú búsett í Kópavogi.
Björg giftist æskuástinni sinni og eiga þau
tvö börn. Eiginmaður hennar er Hermann
Gíslason, vélstjóri á togaranum Runólfi
SH 135, Grundfirðingur eins og hún. Hún
var 16 og hann 18 þegar ævintýrið hófst.
Björg dóttir þeirra er tvítug, nýlega flutt til
Bandaríkjanna þar sem unnusti hennar er
við nám. Átján ára gamall sonur Bjargar
og Hermanns, Atli Ágúst, stundar nám
við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Nýlega
bættist svo fjölskyldunni góður liðsauki
í hvolpinum Húgó, sem er af áströlsku
fjárhundakyni.
Björg á góðar minningar um æskuárin í
Grundarfirði.
„Það var einfalt og gott að alast hér
upp. Þetta var gott samfélag í mikilli
uppbyggingu. Ég átti áhyggjulausa
æsku, átti mína góðu vini og lifði góðu
landsbyggðarlífi. Sem unglingur og
ung kona vann ég meðal annars í
fiski á sumrin og ýmis önnur störf; í
unglingavinnu, í sjoppu og í banka.“
Stjórnast af sjálfsbjargarhvöt í
sjónum
Þótt Björg segist vera léleg að slíta sig
frá vinnunni hefur hún þó nokkrar leiðir til
þess.
„Ég hef til dæmis gaman af því að ganga
og þá ekki síst á fjöll þótt ég geri of lítið
af því. Ein besta slökun sem ég get
hugsað mér er sjósund sem ég byrjaði
að stunda ásamt nokkrum öðrum konum
á síðasta ári. Við höfum góða aðstöðu
til sjósunds hér rétt við bæjarmörkin.
Reyndar á nokkrum stöðum, en við eigum
okkur uppáhaldsstað þar sem er falleg
sandströnd og einstakt umhverfi. Við
pössum okkur á að auglýsa þennan stað
ekki á samfélagsmiðlum, viljum hafa hann
út af fyrir okkur“, segir Björg og hlær.
„Ég er algjör kuldaskræfa en hef sterkan
vilja og þegar ég fer í sjóinn stjórnast ég
algjörlega af sjálfsbjargarhvötinni. Hugsa
ekki um neitt annað á meðan, þetta er
bara spurning um að þrauka og njóta,
þrauka kuldann og fara svo að njóta
stundarinnar. Ég hef farið í sjóinn með
sjávarhita undir frostmarki og lofthita allt
niður í 8 stiga frost. Ég hélt ég ætti þetta
ekki til. Þetta er sterk, frumstæð upplifun.
Að breiða fötin sín á stóran stein og
ganga síðan í sjóinn. Algjörlega magnað
að temja svona hugann og sjálfan sig.
Og einstök vellíðan sem hellist í mann á
eftir."
Hvílist við píanóið
Covid-19 hefur haft sín áhrif á líf Bjargar
eins og flestra annarra. Þegar faraldurinn
skall á fór hún og keypti sér píanó og
byrjaði að spila. Hún er nú að hefja annan
veturinn á píanó í tónlistarskólanum.
Hún var ekki alveg ókunnug nótnaborði
því hún lærði á blokkflautu og orgel
sem krakki alla grunnskólagönguna. Á
fullorðinsárum líka á þverflautu. Hún er
því vel læs á nótur.
„Ég gríp í píanóið og spila mér til ánægju.
Það gengur ágætlega en fer náttúrulega
bara eftir því hvað maður er duglegur
að æfa sig. Ég geri þetta sjálfri mér til
ánægju en er ekki farin að spila neitt
opinberlega, hvað sem síðar verður!
Með þessu hvílist ég, næ að gleyma mér,
næra mig og hlaða.“
Björg fór ásamt Hermanni, eiginmanni sínum,
hringinn umhverfis Ísland sumarið 2020 eins
og svo fjölmargir aðrir landsmenn. Hér eru þau
á Seyðisfirði.
Börn og tengdabörn; Til vinstri Atli Ágúst Hermannsson og Thelma Lind Björgvinsdóttir, unnusta
hans. Til hægri Björg Hermannsdóttir og Bjarni Guðmann Jónsson, eiginmaður hennar.
Eitt af því sem ég hef náð að
stjórna er að hafa ekki öllum
stundum áhyggjur af öllu.
Maður verður líka að finna
sér eitthvað sem maður
getur gleymt sér í.