Mímir - 01.06.2023, Síða 44
42
Stormur
smásaga eftir Önnu Margréti Kristinsdóttur
Kristján sat í stólnum sínum og horfði út um gluggann á úfið
hafið. Öldurnar voru byrjaðar að berja af krafti í skip búkinn
og þær voru svo háar að skipið stóð næstum því upp rétt eins
og Titanic þegar það sigldi yfir öldurnar. Það var stormur í
aðsigi og öll skip á miðunum höfðu verið beðin um að koma sér
í var. Kristján hafði viljað hífa einu sinni áður en þeir lögðu af
stað inn í næsta fjörð, svo hásetarnir hefðu afla til að vinna á
meðan þeir biðu veðrið af sér. Hann heyrði dyrnar inn í brúna
opnast og einhver þrammaði upp stigann. Einhver léttur á sér,
því honum heyrðist hann sleppa öðru hvoru þrepi.
– Sæll Kristján. Það er ekki hægt að vinna í þessum
velting. Við verðum að bíða með aflann þar til við komum í var,
sagði Barði sem var vaktformaður.
– Getið þið ekki allavega byrjað að hausa? spurði Kristján
annars hugar. Hann vildi ekki að það fréttist á næstu skip að
hásetarnir hans sætu yfir sjónvarpinu þegar lestin væri stútfull
af fiski.
- Það fer verr með fiskinn ef við hausum hann og geymum
svo. Við settum hann í körin og nú liggur hann í sjó. Þetta getur
ekki tekið meira en nokkra klukkutíma að fara inn í fjörðinn,
sagði Barði örlítið pirraður.
– Það er greinilega langt síðan þú varst á dekkinu, bætti
hann við.
-Ef ég fer hraðar þá komið þið allir í land með dæld í
höfðinu. Ég hugsa að við náum þessu á þremur tímum, sagði
Kristján og stóð upp og hellti sér kaffi.
- Kallaðu á Gest í talstöðinni og athugaðu hvert hann er
kominn, sagði Barði og gaf Kristjáni merki um að gefa honum
bolla líka.
- Hvað kemur mér við hvar Gestur er? Það er nú alltaf
sami bleyðuhátturinn í honum, sagði Kristján og fussaði.
- Bleyðuháttur? Líttu um gluggann Kristján, þetta er nú