Bændablaðið - 27.06.2024, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 27. júní 2024Viðtal
Útnyrðingsstaðir á Völlum eru
í um 7 km akstursfjarlægð frá
Egilsstöðum. Bærinn stóð lengi í
þjóðleið en er nú utan alfaraleiðar.
Þar er stunduð metnaðarfull
hestaræktun og ferðaþjónusta
og snyrtimennska áberandi.
Með sanni má segja að fallegt sé
umhorfs á Útnyrðingsstöðum. Þar er
gróðursæld mikil, hestar og fé í haga
og fuglalíf í móum, blár og lækir setja
svip á landið og húsakostur allur, jafnt
íbúðarhús sem reiðhöll, reisulegur
og vel við haldið. Leitun er að jafn
snyrtilegu hesthúsi og þar má finna.
Þau eru hláturmild og hafa sögur
að segja, Daniela Gscheidel og
Stefán Sveinsson, húsráðendur á
Útnyrðingsstöðum. Þau segjast búa
á heimsenda, fjarri hringiðunni.
Ferðaþjónusta frá 1830
Forfaðir Stefáns, Óli Ísleifsson, settist
að á jörðinni árið 1830 og fjölskyldan
hefur upp frá því búið jörðina, kynslóð
fram af kynslóð, og lengstum með
sauðfé.
Bærinn lá lengi í þjóðbraut, frá
Skriðdal og Fljótsdal og út eftir þar
sem leiðin kvíslaðist til Seyðisfjarðar
og Eskifjarðar, þangað til rétt fyrir
seinna stríð að kom nýr akvegur, og
þá neðar í landinu og nær Lagarfljóti.
Af því að Útnyrðingsstaðir voru
nánast síðasti bærinn útnorður áður
en haldið var á firðina var ferðafólki
gjarnan veittur þar beini, og gisting
ef þannig stóð á veðri. Þannig má
segja að ferðaþjónusta hafi verið á
Útnyrðingsstöðum í nærfellt tvær
aldir.
Eftir riðuna komu hestarnir
Stefán, sem fæddur er árið 1962,
ólst upp á fjölmennu heimili þar
sem kynslóðirnar lifðu saman. Hann
fór fyrst í skóla á Eiðum en svo
í Iðnskólann í Reykjavík að læra
kjötiðn.
Síðan lá leiðin austur 1983 þegar
hann tók við kjötvinnslunni Austmati
á Reyðarfirði um skeið. Seinna flutti
hann á Egilsstaði, lærði kokkinn og
gerðist matreiðslumaður í Valaskjálf.
Hann kom að rekstri fjárbúsins að
Útnyrðingsstöðum með móður sinni
árið 1987 en hafði verið viðloðandi
bústörfin gegnum tíðina. Samhliða
önnuðust þau einnig fjárbú frænda
Stefáns í Lönguhlíð, sem þurfti að
bregða búi vegna veikinda.
„Það sem gerðist næst var að
það kom upp riða,“ segir Stefán
alvarlegur í bragði. „Ég bjó í rauninni
aðeins með fé í eitt og hálft ár. Vegna
riðunnar varð að slátra öllu fénu og
við tók þriggja ára tímabil þar sem
ekki var kostur á að taka fé aftur.
Fyrir nú utan allt hreinsunarstarfið og
annað sem þessu fylgdi,“ segir hann.
Stefán kynntist á þessum tíma
tamningakonu sem vann í sveitinni,
þau rugluðu saman reytum og
hestar urðu hinn nýi búpeningur á
Útnyrðingsstöðum þótt fyrir hafi
verið nokkrir reiðhestar. En nú var
farið í talverða hrossaútgerð, eins og
Stefán orðar það.
Lommahestar og Gæðingatours
Tekin voru hross til tamninga á
Útnyrðingsstöðum og farið að rækta.
Stefán og þáverandi maki hans settu
á fót hestaleigu í Hallormsstað um
tíma, fóru í samstarf við Anton
Antonsson hjá Ferðamiðstöð
Austurlands/LTU árið 1992 og tóku í
samvinnu við bændur á Tókastöðum
að skipuleggja hestaferðir, ekki síst
í Loðmundarfjörð. Þannig hófu
Lommahestar göngu sína.
„Þetta fluggekk en innkoman
á þessum tíma var ekkert sérstök;
þetta var mjög gaman en líka afar
mikið erfiði,“ útskýrir Stefán. „Samt
tókst okkur að leggja grunninn vel og
stækkuðum seinna við okkur þannig
að yrði hagstæðara. Þetta var það sem
ég gerði í 25 sumur.“
Hann rifjar upp að þetta hafi
verið fyrir tíma samfélagsmiðlanna
og öll samskipti farið fram gegnum
síma og faxtæki, eða maður
á mann innan lands og utan.
Markaðssetningarstarfið hafi verið
óhemju vinna og sumrin gríðarlega
ströng þar sem oft gafst ekki einn
einasti frídagur í mánaðavís.
Hann breytti Lommahestum árið
1999 í Gæðingatours og fór að bjóða
upp á tvískiptar ferðir fyrir smærri
hópa, annars vegar hálendisferð á
Econoline í viku, þar sem hann sjálfur
var bæði kokkur og leiðsögumaður,
og hins vegar vikulanga hestaferð
þar sem hann leiddi einnig hópinn.
„Þannig kynntumst við Daniela!“
útskýrir Stefán brosandi.
Gekk inn í nýja veröld
Víkur þá sögunni til Danielu, sem
kom fyrst til Íslands sumarið 2005
sem ferðamaður: einmitt í hesta-
og hálendisferð með Stefáni. Hún
fæddist í Stuttgart í Þýskalandi árið
1969. Eftir háskólanám í læknisfræði
tók hún sérnám í húðlækningum í
Frakklandi og starfaði sem sjálfstæður
afleysingalæknir í Strassborg og á
Elsass-svæðinu fram til ársins 2007,
er hún flutti til Íslands.
Daniela hafði lengi haft hug á að
koma til Íslands, bæði vegna þess
að foreldrar hennar höfðu ferðast
til landsins árið 1973 og ekki síður
vegna áhuga hennar á hestum, þar á
meðal þeim íslensku. Þegar hún sá
ferð Gæðingatours auglýsta í þýska
hestatímaritinu Pferd und Reiter lét
hún til skarar skríða árið 2005.
Svo vildi til að dóttir Stefáns bjó
í Stuttgart og hann átti jafnframt vini
í Strassborg eftir að hafa unnið við
tamningar í Frakklandi. Leiðir þeirra
Danielu lágu því aftur saman ytra
eftir að Íslandsferð hennar lauk.
Í kjölfar heimsókna til Íslands
og skoðunar á starfsaðstæðum á
Austurlandi fór svo að hún flutti til
Íslands, í Útnyrðingsstaði, árið 2007.
Hún fékk læknisstöðu innan
Heilbrigðisstofnunar Austurlands,
Stefán fór út og hjálpaði henni að
tæma íbúð sína og pakka. „Við
keyrðum svo frá Strassborg í
Útnyrðingsstaði,“ skýtur hann
hlæjandi að.
Fyrsta árið vann Daniela sem
heimilislæknir á Egilsstöðum en
eftir það við sína sérfræðigrein þar
og að hluta á Akureyri um tíma. Þótti
mikið happ að fá hana í læknaliðið
á Austurlandi. Stefán segist dást
að hugrekki hennar að skipta svo
algerlega um kringumstæður í lífi
sínu.
Komu böndum á annríkið
Smám saman fór ferðaþjónustan á
Útnyrðingsstöðum að rúlla sjálfkrafa
og þau hættu að kynna staðinn nema
hjá völdum litlum ferðaskrifstofum
erlendis. Þau hófu einnig að rifa
seglin, vildu eiga meiri frítíma fyrir
sín hugðarefni.
Þau hættu með hestaferðirnar
árið 2016, drógu saman reksturinn
en höfðu gistinguna opna fyrir
erlenda ferðamenn frá vori og fram
í vetrarbyrjun og buðu upp á stutta
reiðtúra. Nú hafa þau alveg lagt af
skipulagða hestaleigu og hestaferðir
og leggja áherslu á bændagistinguna.
Þó kemur fyrir að Stefán taki á móti
hópum og sýni þeim staðinn og
ræktunina.
„Í dag erum við á þeim stað að við
erum að reyna að halda okkur við að
gera aðeins það sem okkur langar til
að gera,“ segja þau.
Stofninn undan Hettu
Á Útnyrðingsstöðum hefur sem fyrr
segir verið tamningastöð um árabil
þar sem Stefán og fleiri hafa tamið
eigin hesta og annarra. Hrossunum
hefur fækkað í um 30 en þegar flest
var voru þau upp undir hundrað, þó
sum í eigu annarra.
„Hrossaræktin á Útnyrðings-
stöðum varð þess heiðurs aðnjótandi
árið 2005 að vera útnefnd í vali um
ræktunarbú ársins á landsvísu, sem
var mikill áfangi í kjölfar fimmtán
ára uppbyggingarstarfs,“ segir Stefán
og heldur áfram: „Aftur á móti
var alltaf þetta ströggl með óvissa
innkomu af því að rækta hross, ala
þau upp, temja og selja, eða selja
ekki: maður þurfti að vera með svo
mörg járn í eldinum í einu,“ segir
hann.
„Eftir að Daniela kom inn í þetta
VARAHLUTIR Í
KERRUR
Vagnhöfða 7, 110 Reykjavík | Sími 517 5000 | stalogstansar.is
st’ al og
Bílabúðin
Stál og stansar
Útnyrðingsstaðir á Fljótsdalshéraði:
Metnaður í hrossaræktinni
– Ferðafólki veittur beini um nær tveggja alda skeið
Daniela Gscheidel og Stefán Sveinsson á Útnyrðingsstöðum með stóðhestinn
Dimmi, fimm vetra einkar efnilegan stóðhest úr eigin ræktun. Mynd / sá
Útnyrðingsstaðir eru um 7 km frá Egilsstöðum. Þar eru miklir landkostir og
fögur náttúra. Reiðhöllin er efst til hægri á myndinni. Mynd / Aðsend
Steinunn Ásmundsdóttir
steinunn@bondi.is