Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Blaðsíða 55
í forníslensku málfræðinni (Rask 1832a) en í íslensku málfræðinni (Rask
1811) (sjá Berg 2014:29–30). Bréfaskipti við Sveinbjörn Egilsson á síðustu
árum Rasks virðast einnig hafa haft áhrif á hugmyndir hans hvað þetta
varðar.7
Það eru þó einnig vísbendingar um að Rask hafi viljandi gert lítið úr
mun á fornu og nýju máli. Skýrasta vísbendingin um það er í bréfi hans
til Gríms Jónssonar frá 18. nóvember 1817. Björn M. Ólsen (1888a:45)
fjallar um bréfið og birtir það (1888a:90–91):
Þú veizt þar að auki, að það er mín höfuðregla, að maður eigi öldungis ekki
að greina það nýja íslenzka tungumál frá þeirri gömlu Norrænu, vegna þess
að meðan það gamla mál viðhelzt, er Íslands þjóð ein sú markverðasta í
Norðurálfunni, en geri maður „forskilið“ á því nýja og gamla máli of „týðe -
legt“, sem ljett er að gjöra, þá „blífur það skítt“ allt til samans, því bæði
verður þá þjóðin smámsaman skilin frá sinni fornu literatúr, og líka munu
þá aðrir út í frá ekki gefa um þjóð eður land framar en um Skrælingja.
Hugmyndir Rasks um þennan litla mun á fornu og nýju máli hafa líklega
haft áhrif á stafsetningartillögur hans og gert það að verkum að hann lagði
meiri áherslu á upprunasjónarmið og að nota stafsetningu fornra handrita
sem fyrirmynd frekar en framburð í nútímamáli. Tillögur hans í stafsetn-
ingu virðast því hafa miðað að því að draga úr mun í stafsetningu á milli
forns og nýs máls: sama stafsetningin nægði í megindráttum fyrir hvort
tveggja.8 Stafsetning hans þurfti því að vera nokkuð fornleg til að henta
bæði fyrir forna og nýja málið og hún var það vissulega, til að mynda í
saman burði við stafsetningartillögur hans fyrir dönsku (Jacobsen 2010:
351–352). Þessi áhersla á forna málið sem fyrirmynd var gagnrýnd í
Fjölni síðar og einnig af öðrum (sjá 2.4).
Rask hafði einnig áhrif á stöðlun stafsetningar í útgáfum fornsagna
(Jakob Benediktsson 1979:12–13, Berg 2014:45–46). Hann gaf út og
vann að ýmsum útgáfum, til dæmis fyrir Fornfræðafélagið (Det kongelige
Nordiske Oldskriftselskab), gaf út 6., 7. og 11. bindi Fornmanna sagna
ásamt öðrum (Aðalgeir Kristjánsson 1996:33–34), Snorra-Eddu, eddu -
kvæði og einnig sýnishefti fornra texta (Rask 1819, 1832b).
Rasmus Rask og íslensk stafsetning 55
7 Sum bréf Rasks og Sveinbjarnar Egilssonar hafa verið prentuð (Rask 1941(2):194–
196, 212–213, 215–216, 217–218, 255–256, 260–261, 269–270). Nokkur bréf á milli þeirra
eru þó óútgefin (Bjerrum 1959:244).
8 Sjá Stefán Karlsson (2000:61): „Ætlun Rasks var að íslensk stafsetning gæti í megin -
atriðum hentað jafn-vel fornu máli og nýju.“