Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Page 119
margrét jónsdóttir
Að henda í pönnukökur, brúðkaup og börn
Hún […] var dugleg að henda í pönnukökur […]
(Morgunblaðið 25. apríl 2019, bls. 40/Tímarit.is)
1. Inngangur
Sögnin henda er algeng og kemur fyrir þegar í elsta máli eins og sjá má
t.d. í Ordbog over det norrøne prosasprog.1 Sögnin er nafnleidd af hönd
(Ásgeir Blöndal Magnússon 1989), eins og aðalmerkingin ‘kasta’ sýnir
vel: því er hent sem í hendi er. Andlag henda er í þágufalli og hefur merk-
ingarhlutverkið þema (sjá t.d. umræðu um hreyfingarsagnir hjá Maling
2002:70–71). Sögnin lýsir því að andlagið (fylliliðurinn) er fært úr stað
með meðvituðu átaki og frumlagið er því merkingarlegur gerandi. Hún
tekur með sér forsetningarlið í (1a) sem gegnir hlutverki marks. Oftar en
ekki er henda samheiti við sögnina kasta en getur líka samsvarað andheit-
inu grípa. Þá tekur henda með sér þolfall (1b). Í þessari merkingu er frum-
lagið ekki gerandi. Bæti henda við sig -st, hendast (1c), er sögnin jafngild
þjóta.2
(1) a. Stelpan henti boltanum í vegginn. = Stelpan kastaði boltanum í
vegginn.
b. Strákurinn henti boltann á lofti. = Strákurinn greip boltann á lofti.
c. Maðurinn hentist af stað. = Maðurinn þaut af stað.
Ýmislegt fleira sem varðar merkingu sagnarinnar og þá setningagerð sem
hún stendur í mætti nefna, sumt bráðlifandi, annað síður, jafnvel dautt.
Hér verður sjónum beint að einum þætti merkingar henda, notkunar sem
margir þekkja en hvergi er minnst á í orðabókum og orðasöfnum eftir því
sem næst verður komist. Það er henda með forsetningunni í sem tekur
með sér nafnorð í þolfalli í dæmum eins og Hún henti oft í pönnukökur um
Íslenskt mál 45 (2023), 119–130. © 2023 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Greinarhöfundur þakkar ritstjórum tímaritsins og yfirlesurum fyrir einstaklegan
vandaðan yfirlestur sem og vinsemd alla, einnig Rósu Þorsteinsdóttur rannsóknardósent á
Árnastofnun fyrir veitta aðstoð.
2 Það sem segir hér eftirleiðis um merkingu henda er byggt á Íslenskri orðabók (2002)
og Íslenskri samheitaorðabók (2012) nema annað sé tekið fram.